Pawel Bartoszek

Þetta er líklegast fyrsti pistillinn á Deiglunni sem ber sama nafn og höfundurinn sjálfur. En þrátt fyrir þennan egósentríska titil fjallar pistillinn alls ekki um höfundinn sjálfan heldur um einhverja allt aðra menn.

Pawel Bartoszek (2. frá vinstri) matvælafræðingur frá Poznan.

Þetta er líklegast fyrsti pistillinn á Deiglunni sem ber sama nafn og höfundurinn sjálfur. En þrátt fyrir þennan egósentríska titil fjallar pistillinn alls ekki um höfundinn sjálfan heldur um einhverja allt aðra menn.

Fyrir rúmi ári síðan fékk ég ímeil frá Pawel Bartoszek matvælafræðingi frá Poznan. Hann hafði gúglað nafninu upp mínu (já, eða sínu) og vildi vita hvort ég hefði einhverjar pólskar rætur og hver ég eiginlega væri. Hann sendi bréf sitt á ensku en ég svaraði honum á pólsku. Ég fékk reyndar aldrei svar til baka. Kannski er pólskan mín eitthvað gelgjuleg og svo þúaði ég hann líka í stað þess að þéra. En það er bara asnalegt að þéra alnafna sinn, einhvern sem deilir með manni manns helsta einkenni.

Matvælafræðingurinn Pawel Bartoszek hefur verið iðinn að undanförnu. Hann er tíður gestur á ráðstefnum um fæðu og hreinlæti, hann er mikilvægur hlekkur í Evrópsku rammarannsókninni um matvæli og fékk nýlega evrópskan styrk til að kynna sér verkaðferðir CARTIF stofnunarinnar á Spáni. Hér er frétt frá þessari ferð, fyrir þá sem hafa áhuga.

Pawel Bartoszek, markvörður B-liðs SV Körne.

Meðan sumir reyna fyrir sér í hinum nýja evrópska rannsóknarumhverfi Póllands, leggja aðrir land undir fót. Annar Pawel Bartoszek býr í Dortmund Þýskalandi. Hann kom engum vörnum við þegar lið hans, B-lið SV Körne, fékk á sig umdeilda vítaspyrnu í leik á móti Hörder Kickers:

Mit einem überzeugenden Auswärtssieg startete die 2. Mannschaft in die Rückrunde. Tobias Schigowski brachte den Gast dank krassem Torwartfehler in Führung. Hörde spielte mehr für die Galerie und bekam mit dem Halbzeitpfiff einen fragwürdigen Elfmeter. Pawel Bartoszek war ohne Chance.

Reyndar vann Sv Körne leikinn, 1-3 og var það ekki síst fyrir vaska framgöngu Pawels, en markvörslur hans voru í „Weltklasse“ samkvæmt fréttinni. Bæði liðin spila í 3. deild C í héraðsdeild Dortmund borgar.

Pawel Bartoszek, plötusnúður frá Florida.

Í nýlegu viðtali við vefsíðuna www.expressgaynews.com segir plötusnúðurinn Oren Nizri frá samstarfi sínu við Pawel nokkurn Bartoszek, en þeir mixuðu nýlega laginu „Hung Up“ með söngkonunni Madonnu.

Pawel Bartoszek er fæddur í Jaroslaw en fluttist til Bandaríkjana 10 ára gamall. Bæði afi hans og frændi voru virtir tónlistarmenn í sínu heimalandi og þennan áhuga hefur Pawel erft. Hann fékk snemma áhuga á tónlist og lærði á fjölmörg hljóðfæri, t.d. píanó, harmónikku og trommur ásamt því að leggja stund á tónsmíði.

Árið 1996 flutti Pawel til New Jersey og spilaði trommur með ýmsum hljómsveitum en sveið metnaðarleysi annarra listamanna og fór í auknum mæli að einbeita sér að raftónlist og produseringum. Fyrir rúmu ári síðan flutti hann til Miami og hefur verið áberandi í klúbbasenunni síðan.

Það er merkilegt hvernig leiðir fólks liggja stundum saman. Vegna þeirrar áráttu að fletta reglulega upp mínu eigin nafni er ég orðinn áskrifandi að lífshlaupum þriggja einstaklinga sem hafa lítið til saka unnið nema að heita sama nafni og ég.

Nei, nei. Netið er ekki tímaþjófur.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.