Verðleynd Landsvirkjunar

Síðasta sumar var haft eftir forstjóra Alcoa á heimasíðu fyrirtækisins að álrisinn borgaði helmingi minna fyrir raforku á Íslandi en í Brasilíu eða um 15 dollara fyrir megavattsstundina. Kom mörgum á óvart hversu opinskátt forstjórinn talaði um verðið, ekki síst þar sem Landsvirkjun hafði ávalt vísað í trúnaðarákvæði samninga um raforkusöluna.

Síðasta sumar var haft eftir forstjóra Alcoa á heimasíðu fyrirtækisins að álrisinn borgaði helmingi minna fyrir raforku á Íslandi en í Brasilíu eða um 15 dollara fyrir megavattsstundina. Kom mörgum á óvart hversu opinskátt forstjórinn talaði um verðið, ekki síst þar sem Landsvirkjun hafði ávalt vísað í trúnaðarákvæði samninga um raforkusöluna. Fulltrúar Landsvirkjunar kvörtuðu sáran yfir opinberun forstjórans og héldu því fram að verðið væri nær 25-35 dollurum, án þess þó að gefa upp um hvaða verð hafi verið samið.

Athyglisvert hefur verið að fylgjast með umræðu um virkjanamál síðasta árið. Svo virðist sem fleiri og fleiri séu að snúast á þá skoðun að nóg sé komið í virkjanamálum og rétt sé að staldra við og athuga hvort frekari virkjanir séu endilega skynsamlegur kostur.

Skemmst er að minnast háværrar umræðu um raforkuverð og arðsemi Kárahnjúkavirkjunar þar sem kom í ljós að menn voru alls ekki sammála um hvort verkefnið gæti talist arðsamt fyrir eigendur Landsvirkjunar. Um tíma var vart hægt að opna dagblað án þess að lenda á vígvelli andstæðra skoðana um málið og er sérstakt til þess að hugsa að deilurnar hafi verið svo miklar þrátt fyrir að eina mikilvægustu breytuna hafi vantað- verð raforku sem Landsvirkjun hyggst selja til Alcoa.

Það er í raun ótrúlegt hvað þessi umræða gekk langt án þess að ráðamenn hafi tekið af allan vafa og gefið verðið upp. Vissulega voru ákvæði í samningunum við Alcoa um að raforkuverðið væri trúnaðarmál og vissulega þarf Landsvirkjun, eins og aðrir, að halda gerða samninga. En það má einnig teljast óheppilegt að slíkt ákvæði hafi lent í samningunum og mætti ímynda sér að Alcoa, sem kaupandi orkunnar, hafi haft hagsmuni af því að halda verðinu leyndu. Varla var það seljandinn sem sá til þess að ákvæðið væri inni, þar sem hagsmunir hans eru að selja rafmagnið hæstbjóðenda og því betra að upplýsingar um verðið séu opinberar- eða hvað?

En í sumar afléttu stjórnendur Alcoa leyndinni af raforkuverðinu og í ljós kom að það var þá líklega ekki þeir sem fóru fram á verðleyndina. Stjórnendur Alcoa gortuðu sig af því að borga helmingi minna verð fyrir raforku á Íslandi en í Brasilíu og íslenskur almenningur, með betri aðgang að því verði sem Alcoa fær í Suður-Ameríku, gat fundið út hvert útsöluverð Landsvirkjunar raunverulega er. Þessar upplýsingar hafa án efa komið eins og blaut tuska framan í marga og þeir áttað sig á því að það var Landsvirkjun sem fór fram á að almenningur yrði ekki upplýstur um kjör Alcoa.

Varðandi leyndarákvæðið vísar stjórn Landsvirkjunar í stjórnarákvörðun frá árinu 1995 um að allar ákvarðanir um raforkuverð yrði farið með sem trúnaðarmál. Raunverulegar ástæður þess að Landsvirkjun vill halda verðinu leyndu liggja ekki fyrir.

Væntanlega hafa forráðamenn Landsvirkjunar vonað að deilur um framkvæmdir við Kárahnjúka fjöruðu út með tímanum. Staðreyndin er hins vegar sú að enn er mikil andstaða við framkvæmdina og enn er vafi um að hún skili hagnaði.

Landsvirkjun, undir forystu ríkis og sveitarfélaga, starfar í umboði fólksins í landinu og er ekki hægt að álykta öðruvísi en svo að það séu einmitt aðilarnir sem fyrirtækið er að fela verðið fyrir. Þangað til Landsvirkjun tekur af allan vafa og kemur hreint fram varðandi forsendur framkvæmdarinnar, virðist fyrirtækið hafa eitthvað að fela fyrir eigendum sínum- ekki síst þar sem viðskiptahagsmunir við þriðja aðila virðast spila lítinn þátt. Töluvert hugrekki þarf til þess að halda því fram að forstjóri Alcoa viti ekki á hvaða verði fyrirtækið hafi keypt raforkuna enda er nokkuð víst að eigendur þess fyrirtækis hafa greiðan aðgang að öllum forsendum arðsemisútreikninga álversins, hvað þá forstjórinn.

Forsvarsmenn Landsvirkjunar hafa tilgreint að verðið sé að einhverju leyti tengt álverði. Þannig sé raforkan dýrari ef ál hækkar í heiminum sem felur í sér að íslenska ríkið hefur hætt sér út í áhættusama fjárfestingu á áli, sem getur sveiflast töluvert í verði.

Auðvitað á að aflétta leyndinni af verðinu þannig að hægt sé að minnka óvissu um arðsemi framkvæmdarinnar og bæta þannig umræðuna um Kárahnjúkavirkjun. Það veit aldrei á gott þegar fyrirtæki fela upplýsingar fyrir eigendum sínum og er rík ástæða til þess að við, sem eigendur Landsvirkjunar, förum fram á gagnsæi og skýrar upplýsingar. Ekki síst þar sem framkvæmdirnar við Kárahnjúka skuldbinda þjóðina um ókomna tíð og fórnarkostnaðurinn er mikill.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.