Ber Kaupþingi skylda til að gera yfirtökutilboð í Skeljung?

Í lögum um verðbréfaviðskipti nr. 33 frá 20. mars 2003 segir að yfirtökuskylda myndist þegar einn aðili, eða tengdir aðilar, hefur eignast 40% atkvæðisréttar í félaginu. Föstudaginn 25. júlí átti Kaupþing 39,63% hlutafjár og Skeljungur hf. átti 1,75% í sjálfu sér. Nú segir í lögum um hlutafélög, nr. 2 frá 30. janúar 1995, að eigin hlutir félags og hlutir, sem dótturfélag á í móðurfélagi, njóta ekki atkvæðisréttar. Í raun þýðir þetta að Kaupþing hafi farið með 39,63%/(100% – 1,75%) = 40,3% virks atkvæðisréttar í Skeljungi hf. þann 25. júlí síðastliðin og því spurning hvort ekki hafi myndast yfirtökuskylda samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.

Það hefur varla farið fram hjá mörgum sem fylgjast með fréttum úr íslensku viðskiptalífi að mikil barátta hefur staðið yfir milli Kaupþings og kolkrabbans um yfirráðin í Skeljungi hf. Kaupþing hefur verið að reyna að taka yfir félagið og núverandi stærstu eigendur, Sjóvá almennar tryggingar hf. og Burðarás ehf., dótturfyrirtæki Eimskipafélags Íslands hf., hafa varið það með kjafti og klóm enda Skeljungur ásamt Sjóvá og Eimskip einn af máttarstólpum hins svo kallaða kolkrabba.

Í lok júní seldi Shell petrolum stóran eignarhlut sinn í Skeljungi til kolkrabbans á gengi sem virtist hafa verið vel undir markaðsgengi á þeim tíma. Við þau viðskipti urðu um 48% í Skeljungi í eigu tengdra aðila, þ.e. Eimskipa og Sjóvá, en lög um yfirtökuskyldu sem þá voru í gildi, miðuðu við að yfirtökutilboð þyrfti að leggja fram ef eignarhlutur færi yfir 50%. Daginn eftir að þessi viðskipti áttu sér stað, þann 1. júlí, var lögum um yfirtökuskyldu breytt og mörkin færð niður í 40%, sem er heillaskref að flestra mati. Þess ber þó að geta að nýju lögin voru ekki afturvirk. Það er því ljóst að hefði kolkrabbinn tryggt sér hlut Shell petrolum daginn eftir eða þann 1.júlí, hefðu þeir þurft að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð. Óvíst er að kolkrabbinn hefði getað staðið við það, a.m.k. ef mark er takandi á orðrómi um lausafjárskort í þeim herbúðunum. Auk þess virðist aðaltilgangur þeirra vera að halda völdum innan blokkarinnar og tryggja atkvæðisrétt yfir hlutafjársafni Skeljungs frekar en að kaupa vanmetið fyrirtæki og hagræða í rekstri.

Þrátt fyrir þetta hélt Kaupþing áfram að kaupa bréf í Skeljungi hf. og samkvæmt hluthafalista þann 25. júlí síðastliðin, sem birtur var í Morgunblaðinu þriðjudaginn 29. júlí, var Kaupþing stærsti einstaki hlutahafinn með 39,63% hlutafjár. Í byrjun vikunnar sendu svo þrír stærstu hluthafar Skeljungs hf. tilkynningu til Kauphallarinnar þess efnis að unnið værið að yfirtöku allra bréfa í Skeljungi á genginu 15,9. Ekki fylgdi þó sögunni hver væri að yfirtaka hvern og enn er það ekki komið í ljós. Í Dagblaðinu í gær er því þó haldið fram að Kaupþing hyggist kaupa út kolkrabbann sem fengi í staðinn þau hlutabréf sem Skeljungur á, m.a. um 5% hluti í Sjóvá, Flugleiðum og Eimskipum. Verði þetta niðurstaðan má segja að báðir aðilar hafi að vissu leyti náð sínu fram. Kolkrabbinn mun halda þeim völdum sem þeir sóttust eftir í gegnum eignasafn Skeljungs og Kaupþing mun fá tækifæri til að selja eignir og hagræða í rekstri og jafnvel endurskrá Skeljung á markað. Þá yrði fyrirtækið eingöngu olíuverslun.

Samkvæmt tilkynningunni virðist sem stærstu hluthafarnir ætli að vinna að yfirtöku á félaginu í sameiningu. Þó má velta fyrir sér hvort að föstudaginn 25. júlí hafi ekki myndast yfirtökuskylda á félaginu. Eins og minnst var á hér að ofan var reglum um yfirtökuskyldu breytt þann 1. júlí. Í lögum um verðbréfaviðskipti nr. 33 frá 20. mars 2003 segir að yfirtökuskylda myndist þegar einn aðili, eða tengdir aðilar, hefur eignast 40% atkvæðisréttar í félaginu. Föstudaginn 25. júlí átti Kaupþing 39,63% hlutafjár og Skeljungur hf. átti 1,75% í sjálfu sér. Nú segir í lögum um hlutafélög, nr. 2 frá 30. janúar 1995, að eigin hlutir félags og hlutir, sem dótturfélag á í móðurfélagi, njóta ekki atkvæðisréttar. Í raun þýðir þetta að Kaupþing hafi farið með 39,63%/(1 – 1,75%) = 40,3% atkvæðisréttar í Skeljungi hf. þann 25. júlí síðastliðin og því spurning hvort ekki hafi myndast yfirtökuskylda samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.

Sé eitthvað til í þessu er þetta samkrull þriggja stærstu hluthafanna í raun óþarfi og Kaupþing gæti reynt, eitt og óstutt að ná meirihluta í félaginu þar sem 12% í Skeljungi eru í eigu annarra en þriggja stærstu hluthafanna. Tækist Kaupþingi þetta yrði það án vafa mikið áfall fyrir kolkrabbann því hann myndi tapa miklum völdum og einni helstu mjólkurkúnni úr búinu. Þó er líklegast að það þóknist báðum aðilum best að kolkrabbinn haldi hlutafjársafni Skeljungs og að Kaupþing fái aðrar eignir og olíuverslunina. Hvernig sem málinu lyktar, verður spennandi að fylgjast með framvindu mála.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)