Trúverðug utanríkisstefna. Check.

Nú keppast forsetaframbjóðendurnir í Bandaríkjunum við að sanna fyrir bandarískum almenningi að þeir séu traustsins verðir þegar kemur að utanríkismálum, einum veigamesta málaflokki baráttunnar.

Nú keppast forsetaframbjóðendurnir í Bandaríkjunum við að sanna fyrir bandarískum almenningi að þeir séu traustsins verðir þegar kemur að utanríkismálum, einum veigamesta málaflokki baráttunnar.

John McCain, stríðshetja úr Víetnam-stríðinu, hefur talsvert forskot á Barack Obama á þessu sviði og Obama er nú á ferðalagi til Afganistan, Mið-Austurlanda og Evrópu í von um að hrista af sér dylgjur andstæðinga sinna um að vera of ungæðislegur og óreyndur til að taka við af reynsluboltanum George W. Bush.

Munurinn á utanríkisstefnu þeirra McCain og Obama er líklega hvað greinilegastur varðandi Írak, þar sem McCain er fylgjandi en Obama andvígur áframhaldandi veru bandarískra hermanna í landinu. Ólíkar áherslur þeirra verða enn skýrari þegar baráttan gegn hryðjuverkum ber a góma: Írak er miðstöð hryðjuverka í heiminum að mati McCain á meðan Obama lýsti því yfir í gær að Bandaríkin þyrftu að leggja aukna áherslu á uppbyggingu í Afganistan og á að uppræta hryðjuverkasellur í Pakistan.

McCain vill sýna Rússlandi meiri hörku og hefur jafnvel viðrað þá skoðun að vísa landinu úr G8-hópnum, hugmynd sem Obama hefur gagnrýnt. Þeir eru þó sammála um nauðsyn þess að vinna með leiðtogum Kína að auknum mannréttindum í landinu og hafa báðir hvatt Kína til að einangra lönd eins og Búrma, Zimbabwe og Súdan í auknu mæli.

Í málefnum Afríku eru þeir nokkurn veginn í takt þó Obama hafi í gegnum tíðina sýnt heimsálfunni talsvert meiri áhuga, væntanlega að nokkru leyti vegna afrísks uppruna síns. Hins vegar er mjög skýr munur á þeim varðandi alþjóðleg efnahagssambönd Bandaríkjanna. Á meðan McCain mælir með fríverslunarsamningunum NAFTA og CAFTA og vill frekar bæta í en draga úr viðskiptatengslum, sérstaklega í Norður- og Suður-Ameríku, hefur Obama bent á ýmsa hagsmunabresti í efnahagssamböndum Bandaríkjanna við nágrannaríki sín.

Af ofangreindu má sjá að þessir tveir áhugaverðu frambjóðendur eru afar ólíkir þegar kemur að alþjóðamálum og spennandi að sjá hvor þeirra sigrar í nóvember.

Latest posts by Þorgeir Arnar Jónsson (see all)