Banvæn blaðamennska

Óhætt er að segja að fréttaflutningur DV sem olli því að einstaklingur framdi sjálfsmorð hafi vakið gífurlega hörð viðbrögð og hefur nú orðið til þess að ritstjórar blaðsins sögðu upp störfum. Þótt almenn umræða hafi sprottið upp af einstöku atviki er ljóst að það var eingöngu dropinn sem fyllti mælinn hjá fólki og það var fyrir löngu búið að fá sig fullsatt af þeim ósóma sem birtist í DV í nánast hverri einustu viku.

Óhætt er að segja að fréttaflutningur DV sem olli því að einstaklingur framdi sjálfsmorð hafi vakið gífurlega hörð viðbrögð og hefur nú orðið til þess að ritstjórar blaðsins sögðu upp störfum. Þótt almenn umræða hafi sprottið upp af einstöku atviki er ljóst að það var eingöngu dropinn sem fyllti mælinn hjá fólki og það var fyrir löngu búið að fá sig fullsatt af þeim ósóma sem birtist í DV í nánast hverri einustu viku.

Þessi mikla andúð almennings endurspeglaðist í undirskriftarsöfnun sem Deiglan, ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna og fleiri félög hafa stóðu fyrir gegn ritstjórnarstefnunni á DV. Alls rituðu 32.044 undir mótmælin og er óhætt að fullyrða að sjaldan hafi viðbrögð í samfélaginu verið svo einróma og eindregin.

Ólögleg stefna

Þegar nýir eigendur tóku við DV þá tók blaðið upp afar ógeðfellda stefnu varðandi nafn- og myndbirtingar af meintum afbrotamönnum, efnisval og framsetningu sem hefur ítrekað verið gagnrýnd á þessum vettvangi. Það virtist vera stefna blaðsins að velta sér á meinfýsinn hátt upp úr eymd annarra. Skiptir engu máli hvort viðkomandi væri vanheill á geði, í annarlegu ástandi eða nýbúinn að lenda í hræðilegri lífsreynslu, alltaf var DV tilbúið að gera sér mat úr viðkomandi. Og til að kóróna ósómann þá virtust blaðamenn DV fá mest út úr því að krydda fréttir af fólki sem átti bágt með barnalegri meinfýsni og skepnuskap sem var hvergi sjáanleg annars staðar en á skólalóðum í grunnskóla.

Stefna blaðsins hefur verið byggð á sérstökum siðareglum sem annar ritstjóranna samdi. Þessar siðareglur virðast ganga að miklu leyti í berhögg við siðareglur annarra blaðamanna og í raun gegn siðgæðis stærsts hluta þjóðarinnar. Er ljóst að með þessari stefnu og siðareglum þá hefur blaðið margoft brotið á lögvörðum rétti manna til æruverndar og friðhelgis einkalífs skv. XXV. kafla almennra hegningarlaga um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs, 71 gr. stjórnarskrár og 8. gr Mannréttindasáttmála Evrópu.

Blaðið hefur hins vegar meira og minna komist upp með þessi lögbrot, bæði vegna hræðslu fórnarlambanna við hefndaraðgerðir á síðum blaðsins og þess að fólk virðist einfaldlega ekki þekkja rétt sinn nægilega vel.

Ábyrgð ritstjóranna

Það er ljóst að þeir einstaklingar sem stjórna DV bera mikla ábyrgð. Ritstjórar fjölmiðla gegna því ábyrgðarstarfi að stjórna blaðamönnum undir þeim og hafa hemil á þeim. Þeim ber að gæta að efni blaðsins sé í samræmi við siðareglur og landslög. Þeir eiga hins vegar ekki að hvetja til og stuðla að lögbrotum, einelti og vondri blaðamennsku.

Í viðtölum kynntu fyrrverandi ritstjórar sjónarmið sín varðandi sjálfsmorðsmálið sem varð kveikjan að þessu. Verða rök þeirra að teljast afar öfugsnúinn. Hafa þeir sagst hafa sannleikann að leiðarljósi og að þeir séu einungis að greina frá staðreyndum málsins. Þeir hafi einungis sagt að einstaklingur hafi verið sakaður um kynferðisbrot en séu ekki að dæma einn né neinn því það sé í verkahring dómstóla. Í næstu andrá hafa þeir algjörlega gleymt tilvist dómstóla og segjast vera að hugsa um fórnarlömb meintra kynferðisbrotamanna og að þau verði að fá eitthvað réttlæti. Ástandið sé þannig í þessum málaflokki að fjölmargir komist upp með slík brot o.s.frv. og þá komi DV inn í málið.

Tvískinnungurinn og hentistefnan er algjör.

Ábyrgð eiganda blaðsins

Hlutdeild eiganda blaðsins er ansi sérstök. Stefna DV getur ekki hafa farið fram hjá þeim frekar en öðrum hér á landi. Samt hafa þeir látið þetta viðgangast í nokkur ár. Eigendurnir geta ekki skorast undir ábyrgð í þessu máli. Þeir bera lokaábyrgð á blaðinu og eru þeir einu sem geta lagt sett nýja stefnu í starfseminni. Góð von er til þess að nýir ritstjórar blaðsins, Björgvin Guðmundsson og Páll Baldvin Baldvinsson, hafi það veganesti frá eigendum að þeir eigi að gera veigamiklar breytingar á vinnubrögðum blaðsins. Engin ástæða er til að ætla annað en að þeir Björgvin og Páll Baldvin muni ná árangri í því vandasama verki að hefja DV á ný til virðingar.

Ábyrgð lesenda og auglýsenda

Það má ekki gleyma í umræðu um blaðamennsku á borð við þá sem stunduð hefur verið á DV að bæði lesendur og auglýsendur bera ábyrgð. Lesendur sem hafa óbeit á ritstjórnarstefnu blaðs eiga ekki að styrkja það með kaupum. Auglýsendur bera sambærilega ábyrgð en með því að auglýsa eru þeir óbeint að styðja stefnu blaðsins og boðskap.

Auglýsendur reyna oft að firra sig ábyrgð með því að segja að þeir auglýsi bara í blöðum sem séu mikið lesin, burt séð frá efni þeirra. Slík röksemdarfærsla gengur ekki upp. Auðvitað skiptir boðskapur og stefna fjölmiðilsins máli, sérstaklega ef hann er að valda þjáningum í þjóðfélaginu. Á valdatíma nasista í Þýskalandi var gefið út vinsælt blað sem hét Der Sturmer og var það líklega mest þekkt fyrir afar ógeðfelldan áróður gegn gyðingum. Heilu upplögin af því blaði seldust upp í hverri viku en boðskapurinn var engu að síður viðbjóðslegur. Hefðu fyrirtækin OgVodafone, TM-húsgögn, Bifreiðar og landbúnaðarvélar, Úrval Útsýn, Hreyfing, Frjálsi Fjárfestingarbankinn og aðrir stórir auglýsendur í DV auglýst í Der Sturmer?

Við erum að drukkna í ósóma!

Staðreynd málsins er sú að á þeim tíma sem hefur liðið frá stofnun DV þá hefur blaðinu tekist að kaffæra þjóðfélagið í ósóma og viðbjóði. Þetta hefur gert það að verkum að almenningur hefur dofnað, orðið ónæmur og er algjörlega hættur að kippa sér upp við mannorðsmorð, einelti og mannfyrirlitningu í blaðamennsku. Blaðið skilur því við þjóðfélagið í mun verra ástandi heldur en það var þegar það kom að því.

Það er vonandi að nýju ritstjórum DV takist að snúa blaðinu af þeirri braut sem það var komið á. Það væri sannarlega þjóðþrifaverk.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)