Kyndeyfð – að eilífu?

Talið er að um 60 milljónir kvenna í Bandaríkjunum og Evrópu taki getnaðarvarnarpilluna að staðaldri. Flestar konur hafa fengið veður af ýmsum fylgikvillum hennar, þ.á.m. þeim hvimleiða sem kyndeyfð er. Getur verið að um óafturkræfa deyfð sé að ræða?

Það má sannarlega kalla tilkomu getnaðarvarnarpillunnar á síðari hluta sjöunda áratugarins byltingu. Með því að taka eina litla pillu á dag höfðu konur allt í einu tækifæri til að stjórna því hvort þær kysu að útsetja sig fyrir möguleikanum á því að verða óléttar eða ekki. Þær gátu því farið að njóta kynlífs áhyggjulausar.

Pillan og efnasamsetning hennar hefur þróast mikið síðan hún kom fyrst fram í dagsljósið og er í dag hægt að velja úr mýmörgum gerðum hennar. Því er oftast hægt að finna tegund sem hentar hverri konu. En inntöku pillunnar fylgir þó ekki eingöngu tóm gleði. Pillunni geta fylgt ýmsar þekktar og jafnvel alvarlegar aukaverkanir. T.d. myndun blóðtappa, mígreni og þyngdaraukning. Einnig hefur hvimleið og algeng aukaverkun reynst sú að heldur virðist draga úr kynhvöt kvenna við töku pillunnar. Má það rekja til hækkaðs testósteronmagns í kjölfar inntöku.

Getnaðarvarnarpillur hafa hemil á eða stjórna framleiðlu hormóna í eggjastokkunum og stuðla einnig að því að örva framleiðslu á hormóninu SHBG (sex hormone binding globulin). Hormónið SHBG bindst, eins og nafnið bendir til, kynhormónunum og tekur þau þannig ‘úr umferð’.

Það sem er hinsvegar í raun enn óljóst er hversu algengur fylgikvillinn kyndeyfð er. Hingað til hefur því þó verið haldið fram að hvers kyns kynlífstengd vandamál af völdum pillunnar eins og t.d. almenn kyndeyfð, deyfðar/engar fullnægingar eða sársaukafullar samfarir, væru vandamál sem einfaldlega væri hægt að leysa með því að hætta töku hennar. En ef til vill er raunin ekki sú.

Gerð var rannsókn við Boston University, á 125 konum sem allar höfðu leitað ráðgjafar vegna kynlífstengdra vandamála. 62 þeirra voru á getnaðarvarnarpillu, 40 höfðu áður tekið hana en 23 konur höfðu það aldrei. Mælt var SHBG magn í hverri konu á þriggja mánaða fresti í heilt ár. Í ljós kom að SHBG magn var allt að sjö sinnum hærra í þeim konum sem tóku pilluna en í þeim sem höfðu aldrei tekið hana. SHBG magnið hafði eðlilega minnkað í þeim konum sem voru hættar töku pillunnar en samt sem áður var SHBG magnið þrisvar til fjórum sinnum hærra en í þeim sem aldrei höfðu tekið pilluna!

Aðstandendur rannsóknarinnar hafa því samkvæmt þessum niðurstöðum sýnt fram á það, að verið geti að inntaka pillunnar geti í raun haft varanleg áhrif á hormónastarfsemi í eggjastokkunum. Það er því spurning hvaða verði konur merkja kynhvöt sína í þessu tilliti. Hitt er svo annað mál að sem betur fer eru í boði fleiri leiðir til getnaðarvarna.

Þó að flestar konur hafi annað hvort fengið veður af eða fundið sjálfar fyrir þessari aukaverkun, hlýtur að vera fréttnæmt fyrir þær 60 milljónir kvenna sem taldar eru taka inn pilluna að staðaldri í Bandaríkjunum og Evrópu, að tenging kyndeyfðar við pilluna sé ekki einasta eitt staðfest á ný, heldur geti deyfðin verið varanleg.

Heimildir:

New Scientist

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.