Strákarnir á stöðinni

logreglan1.jpgUndirritaður hefur stundum gert Lögregluna í Reykjavík að viðfangsefni í pistlum sínum, aðallega vegna furðulegrar framkomu hennar gagnvart mótmælendum við ýmis tækifæri. Þá hefur oftar en ekki komið í ljós sérkennilegur mórall sem virðist ríkja innan hennar gagnvart borgununum. Enn á ný hefur komið upp ástæða til að skoða Lögregluna í Reykjavík.

logreglan1.jpgUndirritaður hefur stundum gert Lögregluna í Reykjavík að viðfangsefni í pistlum sínum, aðallega vegna furðulegrar framkomu hennar gagnvart mótmælendum við ýmis tækifæri. Þá hefur oftar en ekki komið í ljós sérkennilegur mórall sem virðist ríkja innan hennar gagnvart borgununum. Í síðustu viku voru tveir lögreglumenn dæmdir til skilorðsbundinnar fangelsisvistar vegna brota í starfi. Lögreglumennirnir voru báðir fundnir sekir um ólöglegar handtökur og ranga skýrslugerð vegna þeirra. Þá var annar þeirra einnig dæmdur fyrir að beita úðavopni án tilefnis. Við skoðun málsins kemur í ljós að hin sérkennilegi mórall lifir sem aldrei fyrr.

Í fyrra skiptið handtóku lögreglumennirnir einstakling fyrir að taka mynd af öðrum lögreglumanninum. Var hér um að ræða misbeitingu á valdi þar sem ekkert réttlætti það að handtaka ljósmyndarann. Persónuleg gremja lögreglumannsins var ekki fullnægjandi ástæða til handtöku frekar en önnur sjónarmið byggð á geðþótta. Þetta vita allir sem hafa komið eitthvað nálægt löggæslu hér á landi, svo ekki sé minnst á starfandi lögreglumenn.

Í seinna tilvikinu var einstaklingur handtekinn eftir að hafa hlýtt fyrirskipunum lögreglumannanna um að fara af miðri götu þar sem hann hafði staðið og reynt að ná í leigubíl. Upp úr því spruttu síðan orðaskipti og var maðurinn handtekinn í kjölfar þeirra. Lögreglumennirnir komu fram í sjónvarpsþættinum Ísland í dag til að skýra mál sitt í síðustu viku. Aðspurðir útskýrðu þeir frekari afskipti sín af einstaklingnum, eftir að hann hafði hlýtt fyrirmælum, svo að þeir hefðu þurft á nafni hans og kennitölu að halda til að bóka atvikið í dagbók lögreglu. Það vita allir sem hafa einhvern tíma komið nálægt löggæslu að þessi framburður lögreglumannanna er einfaldlega rangur. Lögreglan bókar aldrei tilvik sem þessi og því var algjör óþarfi fyrir lögreglumennina að atast í umræddum einstaklingi eftir að hann hafði skilmerkilega hlýtt fyrirmælum þeirra.

Lögreglumennirnir voru einnig sakfelldir fyrir að skýra rangt frá málavöxtum í lögregluskýrslum. Þetta er sérstaklega gróft brot þar sem lögregluskýrslur eru mikilvæg gögn í opinberum málum og oft helsta sönnunargang ákæruvaldsins. Þegar lögregluskýrslur eru falsaðar er lögreglan farin að eiga við sönnunargögn til að skaða málstað sakbornings. Slík fölsun er sambærileg við að planta fíkniefnum eða öðrum sönnunargögnum á einstakling til að auka líkur á sakfellingu hans. Á sama hátt og með ólögmætu handtökuna þá vita að sjálfsögðu allir að það er rangt að falsa skýrslur eða eiga á annan hátt við sönnunargögn til að kasta sök á borgarana.

Í ljósi þess að brot lögreglumanna er augljós misbeiting á lögregluvaldi og öllu því sem löggæslan byggist upp á mætti ætla að háttsemi þeirra hefði verið fordæmd innan lögreglunnar. Að lögreglan hefði reynt að sannfæra almenning um að svona hegðun væri ekki venjulegur mórall innan lögreglunnar heldur einangrað tilvik þar sem tveir lögreglumenn misstu sig gjörsamlega. Því fer fjarri!

Við réttarhöldin yfir lögreglumönnunum höfðu þeir klapplið starfsfélaga sinna sér til halds og trausts. Eftir að niðurstaða kom fram í málinu var ljóst að klappliðið var síður en svo sátt. Hefur Fréttablaðið eftir nokkrum þeirra ummæli sem geta ekki túlkast öðruvísi en svo að þeir ætli núna að hætta að sinna vinnu sinni og hanga frekar niðri á stöð, þar sem þessi dómur komi almennt í veg fyrir að lögreglan geti unnið vinnuna sína. Það sló þögn á undirritaðan við að lesa slík ummæli. Kemur það virkilega í veg fyrir að lögreglan geti unnið vinnuna sína að dómstólar landsins taki hart á kolólöglegum handtökum? Kemur það í veg fyrir að lögreglan vinni vinnuna sína að dómstólar taki hart á fölsun lögregluskýrslna?

Þetta viðhorf lögreglumannanna er alveg ótrúlegt og sýnir að fjöldinn allur af lögreglumönnum í Reykjavík finnst hegðun tvímenninganna vera í lagi. Eðlilegt er að spyrja hvort viðkomandi aðilar hafi sofið í hverjum einasta tíma í lögregluskólanum þar sem lög og reglur bar á góma. Þetta er alvarlegt mál enda hægt að fullyrða að lögreglumaður sem gerir sér ekki grein fyrir því að hegðun tvímenninganna er gróft brot í starfi sé ekki hæfur til að vera lögreglumaður.

Til að kóróna vitleysuna þá hefur Landssamband lögreglumanna lýst því yfir að dómurinn sé áfall. Jafnframt hafa lögreglumenn í Reykjavík hafið söfnun til að aðstoða tvímenningana við að greiða dæmdar skaðabætur til fórnarlamba sinna. Það hlýtur að vera einsdæmi hér á landi að farið sé af stað með söfnun til styrktar sakborningum vegna grófra brota þeirra á mannréttindum annarra.

Í dómnum segir að brotin sem framin eru af lögreglumönnum í opinberu starfi séu einkum alvarleg því almenningur eigi að geta treyst því að lögreglan vandi vinnubrögð sín og fari að ábyrgð með valdheimildir sínar. Af þessu máli að dæma er nokkuð í að almenningur geti treyst því að lögreglan fari að ábyrgð með valdheimildir sínar. Almenningur getur a.m.k. ekki sofið rótt þekkjandi afstöðu nokkurs fjölda lögreglumanna í Reykjavík til ólögmætra handtaka og falsana á lögregluskýrslum.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.