Spennandi formúlusumar

Keppnin um heismeistaratitil ökuþóra í Formúlu eitt kappakstrinum er hálfnuð. Michael Schumacher hefur forystu í stigakeppni ökuþóra en hann er þó engan veginn öruggur með titilinn.

Formúla síðasta árs varð hálfgerður farsi. Félagarnir á Ferrari þeir Rubens Barichello og Michael Schumacher réðu lögum og lofum og gátu nánast hagrætt úrslitum að vild. Áhorf á Formúluna minnkaði um allan heim, ekki síst hér á landi.

Eftir að keppnistímabilinu lauk var reglum breytt, af því er virtist með það að leiðarljósi að minnka forskotið sem Ferrari virtist hafa á aðra bílaframleiðendur. Fyrstu mót ársins virtust sanna að þetta hefði tekist. Eftir fyrstu þrjár keppnir ársins höfðu liðsmenn Ferrari aðeins náð öðru sæti en þar var að verki Brasilíumaðurinn Barichello. Mikið var rætt um það hvort tími Schumachers væri liðinn eða hvort Ferrari-bíllinn væri gallaður.

Heimsmeistarinn sýndi það hins vegar og sannaði í næstu þremur keppnum hvers vegna hann er besti ökumaður í heimi. Hann keyrði eins og sá sem valdið hefur og sigraði í þremur keppnum í röð. Eftir sigurinn í Kanada fyrir tveimur vikum tók hann efsta sætið í stigakeppni ökuþóra en Finninn Kimi Raikkonen á McLaren er annar.

Tímataka fyrir Evrópukappaksturinn fór fram í dag en þar var það Finninn fljúgandi sem tók ráspól. Schumacher er hins vegar annar og til alls líklegur. Flestir veðja eflaust á að Schumacher hljóti heimsmeistaratitilinn í haust, það verður hins vegar ekki með sömu yfirburðum og undanfarin ár. Nái hann því setur hann enn eitt metið í Formúlunni því það yrði sjötti meistaratitill hans.

Gaman væri að velta því fyrir sér hvort Schumacher næði sambærilegum árangri á öðrum bíl? Svo virðist vera sem Ferrari-fákurinn sé ekki sá öflugasti þessa dagana, Þjóðverjinn ber hins vegar höfuð og herðar yfir aðra ökuþóra.

sport@deiglan.com'
Latest posts by Íþróttadeild Deiglunnar (see all)