Herinn burt? – Viðbrögð ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórnin vill tryggja áframhaldandi loftvarnir á Íslandi og líklegt er að Bandaríkjamenn vilji tryggja umsjón yfir flugstjórnarsvæðinu og ratsjárstöðvum hér á landi og vilji alls ekki sjá þau völd falla í hendur annars ríkis. Hörð afstaða ríkisstjórnarinnar gagnvart Bandaríkjamönnum í ljósi þessa er því ekki einungis skiljanleg heldur rétt.

Ísland úr Nató, herinn burt! Þetta er líklega slagorð sem velflestir Íslendingar þekkja og sumir hafa gargað í ófá skipti í gegnum árin í Keflavíkurgöngum eða nú nýlega fyrir framan Stjórnarráðið eða bandaríska sendiráðið. Nú er svo komið að mögulegt er að herinn sé á leiðinni burt, allavega flugherinn, en úr Nató göngum við Íslendingar ekki, í bráð a.m.k..

Óþarfi er að rifja upp aðdraganda þessa máls enda hefur verið fjallað um lítið annað í fjölmiðlum undanfarnar vikur. Ríkisstjórnin með Davíð Oddson og Halldór Ásgrímsson í broddi fylkingar hefur haft í mörgu að snúast og reynir efsta fremsta megni að tryggja áframhaldandi veru varnarliðsins á Íslandi. Ríkisstjórnin er þeirrar skoðunar að lítið gagn sé í því að hafa hér varnarlið ef flugherinn er sendur burt og hefur hótað því við Bandaríkjamenn að annað hvort fari allur herafli þeirra héðan af landinu eða enginn. Ríkisstjórnin hefur m.a.s., að sögn, þreifað fyrir sér hjá Frökkum og Bretum hvort áhugi sé hjá þeim að taka við hlutverki Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli verði raunin sú að bandaríski herinn fari frá landinu.

Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt harkalega framgöngu ríkisstjórnarinnar í þessu máli og hefur Össur Skarphéðinsson farið þar fremstur í flokki m.a. í viðtali við AFP fréttastofuna. Stjórnarandstaðan hefur sagt ríkisstjórnina hafa málað sig út í horn með harðri afstöðu sinni og óttast greinilega að Bandaríkjamenn fari á brott með allt herlið sitt með alvarlegum afleiðingum fyrir atvinnulíf á Reykjanesi og fjárhag þjóðarinnar í heild.

Þó svo að hernaðarlegt mikilvægi Keflavíkurflugvallar hafi minnkað á undarförnum árum er mikilvægi herstöðvar hér á landi enn þá töluvert fyrir Bandaríkjamenn. Vegur þar vafalítið þungt að geta fylgst með allri flugumferð vestur um haf í gegnum flugstjórnarsvæði Íslendinga. Ólíklegt er að Bandaríkjamenn séu tilbúnir til að láta þessi völd af hendi. Auk þess má telja að það væri þyrnir í augum þeirra ef t.a.m. Frakkar kæmu hingað til lands og hreiðruðu um sig á Keflavíkurflugvelli.

Ríkisstjórnin vill tryggja áframhaldandi loftvarnir á Íslandi og líklegt er að Bandaríkjamenn vilji tryggja umsjón yfir flugstjórnarsvæðinu og ratsjárstöðvum hér á landi og vilji alls ekki sjá þau völd falla í hendur annars ríkis. Hörð afstaða ríkisstjórnarinnar gagnvart Bandaríkjamönnum í ljósi þessa er því ekki einungis skiljanleg heldur rétt. Íslendingar verða að vera harðir í þessari afstöðu sinni enda flestir, m.a. ritstjórn Deiglunnar, sammála því að varnir landsins séu fremur fábrotnar ef flugherinn hverfur á brott og til lítils að hafa hér eingöngu landgöngulið.

Gagnrýni stjórnarandstöðunnar á afstöðu ríkisstjórnarinnar er því ekki réttmæt og telja má ágætar líkur á því að þessi viðbrögð ríkisstjórnarinnar leiði til hagstæðustu útkomu, sem unnt er að ná, í viðræðunum við Bandaríkjamenn . Niðurstaðan gæti eflaust verið sú að hluti herliðsins hverfi á braut en að a.m.k. lágmarks loftvarnir verði tryggðar. Ef svo fer ekki má telja líklegt að veru bandarísks varnarliðs hér á landi sé lokið. Hvort Frakkar, Bretar eða e-r aðrir taki að sér varnir landsins í staðinn verður tíminn að leiða í ljós.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)