Ekkert nýtt undir sólinni?

Sagt hefur verið að ekkert sé nýtt undir sólinni, og talsvert til í því. En hvað sem því líður, finnast nú yfir 20 nýjar reikistjörnur á ári undir öðrum stjörnum, og þar kennir margra grasa.

Hér á Deiglunni hefur áður verið fjallað um nýja hnetti sem hafa fundist á undanförnum árum í sólkerfinu okkar, og ákvarðanir um hvort þessir hnettir eigi að teljast til reikistjarna hafa verið erfiðar. En það er ekki bara innan sólkerfisins sem menn leita að reikistjörnum (eða plánetum). Síðan á árinu 2002 hafa fundist yfir 20 nýjar reikistjörnur á ári undir öðrum stjörnum, og þar kennir margra grasa.

Ein af þeim sérkennilegri er plánetan sem hringsólar um stjörnuna “HD 149026„ í stjörnumerkinu Herkúles. Plánetur utan sólkerfisins eru nefndar með því að skeyta bókstaf (b-z) aftan við nafn stjörnunnar sem þær hringsóla um og heitir því plánetan „HD 149026 b“.

Þessi pláneta er gasrisi á stærð við Satúrnus en hefur þó málmkjarna sem er um 90 sinnum þyngri en jörðin. Það sem kom vísindamönnum mest á óvart er að yfirborð plánetunnar er yfir 2000 gráðu heitt, þótt lítið sem ekkert sýnilegt ljós komist frá henni. Svo virðist sem plánetan sé algerlega svört á litinn, en rauðglóandi eins og risavaxinn kolamoli sem svífur um geiminn.

Plánetan er mjög nálægt stjörnunni sem hún hringsólar um, og er fjarlægðin á milli þeirra innan við 5% af fjarlægð jarðarinnar frá sólu. Aðrar plánetur hafa einnig fundist sem eru mjög nálægt „móðurstjörnum“ sínum, en HD 149026 b er þó einstök að því leyti að dökkt yfirborð hennar, mikil nálægð við móðurstjörnuna, og hugsanlega einhverjar innri orkulindir, hita plánetuna upp meira en áður hefur sést. Þar sem umferðartími reikistjarna er háður radíus sporbaugsins (fjarlægðinni frá móðurstjörnunni) er umferðartími HD 149026 b líka mjög stuttur, innan við þrír jarðardagar.

Þótt þær plánetur sem hafa fundist í öðrum sólkerfum séu upp til hópa frekar skrítnar í samanburði við pláneturnar okkar, er þó ekki ástæða til þess ennþá að afskrifa afganginn af alheimnum sem samsafn furðuhnatta. Því þær leiðir sem við höfum til að finna slíkar reikistjörnur eru ekki mjög næmar, og geta alls ekki fundið allar tegundir af plánetum. Yfirleitt eru það óvenjulegir eiginleikar reikistjarnanna sem gera vísindamönnum kleift að finna þær. En á döfinni er að smíða sjónauka og önnur mælitæki sem send verða á sporbaug umhverfis jörðina (ekki ósvipað Hubble sjónaukanum) og verða mun næmari. Hugsanlega munu þau mælitæki rekast á reikistjörnur sem svipar til jarðarinnar, af réttri stærð og hitastigi til að geta borið líf og vistkerfi – og jafnvel viti borið líf.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)