Framsóknarfrúin fer í fýlu

Undanfarnar vikur og mánuði hefur fjöldinn allur af prófkjörum farið fram bæði í höfuðborginni og á landsbyggðinni. Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn eru þeir flokkar sem hafa notast við fyrrgreint fyrirkomulag til að velja á framboðslista flokkanna fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Undanfarnar vikur og mánuði hefur fjöldinn allur af prófkjörum farið fram bæði í höfuðborginni og á landsbyggðinni. Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn eru þeir flokkar sem hafa notast við fyrrgreint fyrirkomulag til að velja á framboðslista flokkanna fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Hjá flokkunum þremur hefur fólk slegist um að fá að leiða framboðslistann fyrir sinn flokk. Vilhjálmur Vilhjálmsson og Gísli Marteinn Baldursson vildu báðir skipa fyrsta sæti Sjálfstæðisflokksins. Hjá Samfylkingunni slógust Dagur B. Eggertsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Stefán Jón Hafstein um að leiða fylkinguna. Síðast en ekki síst þá öttu kappi Björn Ingi Hrafnsson, Anna Kristinsdóttir og Óskar Bergson um efsta sæti framboðslista Framsóknaflokksins í borginni. Ég tel að hjá Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum hafi samkeppnin um fyrsta sætið verið mjög jákvæð, en því miður er ekki sömu sögu að segja af Framsóknarflokknum, en forystusveit hans hagar seglum eftir vindi í þessu máli sem og öðrum.

Þegar ljóst var að Björn Ingi myndi leiða listann ákvað Anna Kristinsdóttir að 2. sæti listans væri ekki nógu gott fyrir sig. Hvaða skilaboð eru þetta til kjósenda og ég tala nú ekki um flokksmanna. Mér fannst frúin lýsa algjöru frati á flokkinn með þessu – það er augljóst að hún hefur enga trú á því að flokkurinn fái fleiri en einn mann í næstu borgarstjórnarkosningum og ljóst er að hún ætlar ekki að leggja sín lóð á vogarskálarnar í þeim efnum. Þessa ákvörðun tók hún án þess að ræða nokkuð við samflokksmann sinn Björn Inga Hrafnsson.

Það verður að viðurkennast að stjórnhættir Framsóknarflokksins og hans innanbúðar mál hafa oft á tíðum verið ansi skrautleg og hefur Kristinn H. Gunnarsson verið duglegur að koma þeim á framfæri. Fyrir nokkru ýjaði Anna að því í viðtali á NFS að hún væri ekki hætt og ekki var annað hægt að lesa út úr orðum hennar að hún ætlaði sér í landsmálapólitíkina. Við hverju mega kjósendur hennar búast þar? Ef hún nær ekki því sæti sem hún sækist eftir, þá muni hún ganga út. Ég ætla að leyfa mér að setja spurningarmerki við þessa aðferðarfræði hennar. Eðlileg viðbrögð hefði ég talið að taka ósigrinum og skipa næsta sæti listans eins og félagar hennar bæði í Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni gerðu þegar niðurstöður prófkjara þeirra lágu fyrir. Hvað Óskar Bergson varðar þá hefur ekki heyrst múkk frá honum, en ekki liggur fyrir hvort hann taki þriðja sætið. Marsibil Sæmundardóttir hefur einnig látið í veðri vaka að hún vilji ekki sjá 2. sæti á framboðslista Framsóknarflokksins.

Hvað er í gangi? Er það Björn Ingi sem fælir alla frá? Hafa framsóknarmenn ekki trú á eigin flokki? Eða nennir enginn að taka þátt í þessu nema að fá að sitja fundina í ráðhúsinu? Mér þykja þetta einkennileg skilaboð til kjósenda og ekki Framsóknarflokknum til framdráttar. Af þessum vinnubrögðum að dæma mega þeir prísa sig sæla fyrir að ná þessum eina manni sínum inn í borgarstjórn. Það kemur reyndar á óvart að Kristinn H. sé ekki búinn að tjá sig um þetta mál, hann þreytist seint á að bera innanhúsmál síns flokks á torg og leika hinn miskunnsama samverja Framsóknaflokksins.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.