Manneskjur eru ekki fórnarkostnaður

kinakommunismi.jpgSamskipti Kína og Íslands hafa mikið verið í sviðsljósinu upp á síðkastið vegna sendifarar forseta Íslands og föruneytis til risaveldisins. Hafa vaknað upp spurningar um hvort það sé rétt viðhorf til mannréttindabrotanna í Kína að þegja, bíða aðgerðarlaus og leyfa landinu að þróast áfram.

kinakommunismi.jpgSamskipti Kína og Íslands hafa mikið verið í sviðsljósinu upp á síðkastið vegna sendifarar forseta Íslands og föruneytis til risaveldisins. Á meðan förinni stóð leið varla sá fréttatími þar sem einhverjir íslenskir broddborgarar væru ekki í fjölmiðlum að mæra kínverska Alþýðulýðveldið og það sem þar færi fram. Héldu sumir varla vatni yfir því hvað allt væri frábært í landinu og mættu glaðhlakkandi í viðtöl með dollaramerki í augunum. Er óhætt að segja að á meðan förinni stóð hafi lítið farið fyrir umræðu um þau miklu mannréttindabrot og grimmdarverk sem kínverska ríkið er að fremja eða hefur framið á þegnum sínum.

Var þetta sinnuleysi flestra Íslendinganna í heimsókninni í samræmi við ákveðið viðhorf sem hefur náð að festa rætur hérlendis, mest megnis í kjölfar ítrekaðra heimsókna kínverskra ráðamanna til landsins. Á síðustu árum er iðulega farið að heyrast, þegar mannréttindabrotin í Kína ber á góma, að við megum ekki gleyma því að Kina sé á góðri leið til markaðsbúskapar og því verði að líta tímabundið fram hjá núverandi brotum. Þau séu nauðsynlegir fæðingarverkir þjóðar á leið inn í kapitalisma. Er þetta viðhorf meðal annars mjög ríkt hjá ýmsum ráðamönnum hérlendis sem telja betra að halda góðum samskiptum við Kínverska alþýðulýðveldið þar sem það skili íslenska þjóðarbúinu töluverðum hagnaði. Í hnotskurn þá gengur viðhorfið út á að við eigum að þegja, bíða aðgerðarlaus og leyfa landinu að þróast áfram.

Þegar við heyrum þetta kalda ómanneskjulega viðhorf þá megum við ekki gleyma þeim sem biðu ekki aðgerðarlausir upp á von og óvon. Þeim sem töldu rétt að gera eitthvað vegna mannréttindabrotanna. Í apríl 1989 söfnuðust stúdentar saman á Torgi hins himneska friðar til að mótmæla kúgun kommúnistastjórnarinnar og kröfðust afsagnar stjórnarinnar. Krafa mótmælenda átti gífurlegan hljómgrunn og fjölgaði sífellt í hópi mótmælenda þrátt fyrir að hinir ríkisreknu fjölmiðlar fjölluðu ekkert um þetta. Er talið að þegar mest lét hafi yfir milljón mótmælendur verið á torginu.

Þegar mótmælendurnir höfðu verið á toginu í yfir sex vikur réðust kínversk stjórnvöld skyndilega til atlögu við þá. Ruddist kíverski herinn inn á torgið með skriðdreka í broddi fylkingar. Keyrðu þeir inn í mannfjöldan og skapaðist gífurlegur gludroði þegar mannfjöldinn reyndi að forða sér undan skriðdrekunum. Urðu margir undir skriðdrekunun en aðrir troðust undir á flótta undan þeim. Enn er ekki vitað hversu mikill fjöldi fólks féll í valinn en talið er að það skipti hundruðum. Á laugardaginn voru einmitt 16 ár liðin frá því að þessi grimmdarverk voru framin.

Þegar nasistar komust til valda í Þýskalandi varð gífurleg uppbygging í landinu. Atvinnuleysi var útrýmt og landið var rifið upp úr mikilli efnahagslegir lægð. Vakti þriðja ríkið mikla aðdáun erlendis vegna skipulags og uppgangs. Létu aðrar þjóðir sér í léttu rúmi liggja fréttir af ofsóknum á hendur gyðingum og öðrum “óæskilegum” þegnum. Meira að segja eftir hina alræmdu kristalsnótt árið 1938 þar sem bænahús, eignir og munir gyðinga voru teknir og eyðilagðir skipulega út um allt Þýskaland, héldu flestar þjóðir áfram að stunda viðskipti og eiga samskipti við stjórn nasista. Þá töldu margir það skipta meira máli hvað nasistarnir voru að gera efnahagslega heldur en brot á ákveðnum minnihlutahópum. Varð mörgum að ósk sinni. Nasistarnir náðu svo sannarlega að rífa Þýskaland upp efnahagslega en því miður þá náðu þeir einnig að gera svo miklu meira. Alræðisstjórnir verða nefnilega alltaf alræðisstjórnir, sama hversu glimrandi góða hluti þær eru að gera á hinu ýmsu sviðum.

Það er afskaplega auðvelt að sitja makindalega upp í sófa á örugga Íslandi fyrir framan fréttirnar og hugsa sem svo að þetta sé nú allt að koma í Kína og að við ættum því að snúa blinda auganu að mannréttindabrotunum sem eiga sér stað þar í dag. Að við eigum ekkert að vera að hugsa um Torg hins himneska friðar en einblína í staðinn á framtíðarmyndina. Að hugsa fyrst og fremst um fórnarlömb stjórnvalda í Kína sem ópersónulegar tölur.

Við megum hins vegar aldrei gleyma því að á bak við atburðina á Torgi hins himneska friðar og öðrum fréttum af mannréttindabrotunum er alvöru fólk. Það voru manneskjur af holdi og blóði sem dóu á torgi hins himneska friðar. Það eru manneskjur sem verið er að kúga í dag og þjást vegna mannréttindabrota kínversku ríkisstjórnarinnar.

Manneskjur eru ekki fórnarkostnaður.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)