Almenningur hf. og einkavæðing

Með einkavæðingu er endir bundinn á afskipti ríkisins og kraftar einkaframtaksins fá að njóta sín öllum til hagsbóta. Það skiptir þess vegna meira máli að einkavæða en hvernig það er gert.

Almennt er viðurkennt að víðtæk einkavæðing á 10. áratugnum hefur ásamt festu í stjórn ríkisfjármála, skattalækkunum á fyrirtæki og ábyrgri afstöðu aðila vinnumarkaðarins við gerð kjarasamninga skilað Íslendingum áður óþekktri velmegun.

Einkavæðing er því mikilvæg í sjálfu sér, endir er bundinn á afskipti ríkisins og kraftar einkaframtaksins fá að njóta sín öllum til hagsbóta. Það skiptir þess vegna meira máli að einkavæða en hvernig það er gert – en þó er ekki svo að segja að það skipti engu máli hvernig staðið er að einkavæðingu. Flest einkavæðingaráform hafa gengið vel til þessa, þótt á flestum stigum hafi ýmsir, sumir oftar en aðrir, orðið til þess að lýsa megnustu óánægju, jafnvel andstyggð, á þessum áformum og gjörðum.

Ein stærsta einkavæðing Íslandssögunnar er nú í burðarliðnum þegar ríkið hættir samkeppnisrekstri á síma- og fjarskiptamarkaði með sölu á 99% hlut sínum í Landssímanum hf. Sem fyrr skiptir mestu að sú ákvörðun hefur verið tekinn að selja hlut ríkisins í þessu félagi. En því miður hafa menn valið eina lökustu leiðina sem hægt var að fara til losa um eignarhald ríkisins á þessum hlut.

Fyrsti kosturinn hefði átt að vera að senda hverjum og einum landsmanni hlutabréf í Símanum að nafnverði 1:295.000 af nafnverði bréfa ríkissjóðs í Símanum. Þá hefði um leið skapast virkur og eðlilegur markaður með þessi bréf og víst er að enginn handhafa bréfanna hefði þá haft nokkuð annað í huga en að fá sem hæst verð fyrir bréfið sitt.

Nú kynni Steingrímur J. Sigfússon einhver að segja: En þar með hefði ríkissjóður orðið af tugum milljarða króna! Sú fullyrðing er í sjálfu sér rétt, stjórnmálamenn hefðu misst af tækifærinu til ráðstafa þessu fé. Hins vegar hefðu eigendur ríkissjóðs fengið að minnsta kosti það sem ella hefði runnið í hinn sameiginlega sjóð, og líklega mun meira. Sala Símans hefði þannig í raun orðið skattalækkun um 60-80 milljarða. Ekki þarf að fjölyrða um það að þessir fjármunir eru betur komnir hjá einstaklingum en hinu opinbera, sérstaklega þar sem ósennilegt að söluvirðið hefði í heild sinni runnið til niðurgreiðslu skulda. Það hefðu því engir fjármunir tapast með því að láta eigendur ríkissjóðs njóta söluvirðisins beint og milliliðalaust, öðru nær.

Því miður var þessi leið ekki farin, og hugsanlega hefur hún aldrei komið til álita. Þess í stað fóru menn út í það að setja alls kyns óljós skilyrði. Það er ágætis mælikvarði á það hvort reglur eru skýrar, málefnalegar og eðlilegar, að líta til þess hversu vel þeim fylgt. Það er sterk vísbending um að reglur séu óskýrar, ómálefnalegar og óeðlilegar þegar þeim er annað hvort ekki fylgt eða reynt að fara í kringum þær í stórum stíl. Þetta þekkja menn vel úr skattalöggjöf, svo dæmi sé tekið.

Að tilstuðlan blaðamanns Morgunblaðsins skráir almenningur sig nú fyrir hlutum í hlutafélagi sem mun hafa það að markmiði að kaupa hlut í öðru hlutafélagi. Þótt nokkur ástæða sé til að efast um að þetta framtak muni skila tilætluðum árangri, þá er framtakið jákvætt að því leyti að það sýnir ágætlega fram á meinbugi þess sölufyrirkomulags sem einkavæðingarnefnd ákvað, þótt ekki verði öðru haldið fram en að ákvarðanir nefndarinnar hafi verið teknar í góðri trú.

En eins og áður segir þá skiptir mestu máli að innan skamms verður ríkið ekki lengur þátttakandi á síma- og fjarskiptamarkaði. Þegar vinda lægir þá mun koma í ljós að í því er fólginn mesti ávinningurinn fyrir alla, hvort heldur sem er fyrir hluthafa í Almenningi hf., fyrirtækin í landinu, skattgreiðendur eða aðra borgara þessa lands.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.