Að fjárfesta í góðverkum

Nú er landssöfnuninni Neyðarhjálp úr norðri nýlokið og megum við Íslendingar vel klappa okkur á bakið fyrir framlag okkar til fórnarlamba flóðanna í Asíu. En á þessum tímapunkti er líka rétt að velta fyrir sér góðverkum í víðara samhengi og til lengri tíma.

Góðgerðar- og líknarmál njóta mismikils stuðnings meðal almennings og stjórnmálamanna. Þótt mjög vel hafi gengið með landssöfninina Neyðarhjálp úr norðri er stuðningur af slíkri stærðargráðu sjaldgæfur og raunar var með söfnuninni sett nýtt met. Sumir halda því jafnvel fram að framlög til góðgerðar- og líknarmála séu óþarfi því lönd og einstaklingar eigi að draga sig upp úr fátæktargildrunni með viðskiptum og aukinni þjóðarframleiðslu. Lausnin sé „Trade, not aid“, eins og slagorðið útleggst á ensku.

Línan er þá sú að ósýnilega höndin sjái það vel um sína að ekki þýði að raska hinu náttúrulega ástandi með gjöfum. Það eru þó ýmsir kostir við að líta ekki á framlög til góðgerðarmála sem gjafir, heldur fjárfestingu. Einn kosturinn er auðvitað sá að þá geta þeir sem eru á móti því að gefa peninga engu að síður lagt fram fjármuni til góðgerðarmála.

Annar kostur, og ekki síður mikilvægur, er að með því að líta á framlög til góðgerðarmála sem fjárfestingu liggur mun beinna við að þeir sem festa fé sitt í slíkum verkum kanni markaðinn og fjárfesti þar sem þeir fá bestu kjörin. Að fjárfesta í þróunaraðstoð er auðvitað um margt frábrugðið því að kaupa sér tölvu, svo dæmi sé tekið. Þegar kaupa á tölvu liggur beint við að fara á netið og kanna hvað tiltekin samsetning af megahertzum og megabætum kostar. Svo er farið þangað sem bestu kjörin bjóðast og tölvan tekin með heim.

Vissulega er ekki jafnauðvelt að bera saman þá kosti sem bjóðast í góðgerðarmálum, því hvað fær maður fyrir tíuþúsundkall hjá Rauða krossinum, Mæðrastyrksnefnd, Hringnum, Hjálparstofnun Kirkjunnar, SOS barnaþorpum eða Neyðarhjálp í norðri? Þjónustan er ekki innt af hendi fyrir framan fjárfestinn heldur þarf hann að treysta á upplýsingar frá líknarfélaginu, um það hvað gert var. En þegar að er gáð fylgja líka ýmis slík vandamál því að kaupa tölvu. Hættir tölvum frá tilteknum tölvusala til að bila, og er verkstæðið líklegt til að laga vandamálið fljótt og örugglega? Miðast þjónustan við að aðstoða hefðbundinn tölvunotanda sem þarf hjálp við að komast á netið eða er hún sniðin að þörfum leikjaspilara sem reynir að laga tölvuna sjálfur áður en hann fer með hana í viðgerð?

Þá þarf að kanna hvaða orðspor fer af tölvusalanum, hvaða reynslu aðrir hafa af honum og hvernig hann hefur komið út úr þjónustukönnunum. Leggur hann áherslu á þau atriði sem sóst er eftir eða á eitthvað allt annað? Þessi þáttur tölvukaupa er ekki ósvipaður þeim athugunum sem forsjáll góðgerðafjárfestir framkvæmir áður en hann fjárfestir. Þótt það sé erfiðara að velja líknarfélag en tölvusala er það engan vegin óyfirstíganlegt og ástæða til að láta fleira ráða en hver auglýsir mest.

Yfir 150.000 manns létust í hamförunum og samkvæmt nýjustu fregnum er talan jafnvel enn hærri. Það er því ljóst að þær 110 milljónir króna sem söfnuðust fyrir Neyðarhjálp úr norðri munu koma að góðum notum. En á liðnum mánuði hafa um 165.000 manns dáið úr malaríu, 240.000 hafa dáið úr eyðni, og 140.000 úr niðurgangi. Jafnmargir munu deyja í næsta mánuði, og í hverjum einasta mánuði eftir það, árið um kring, langflestir í Afríku. Hörmungarnar eru viðlíka því að yfir Afríku gengi flóðbylgja einu sinni í viku. Það er því vonandi að sem fæstir hugsi sem svo að nú séu þeir búnir að leggja sitt af mörkum til góðgerðarmála í ár. Til þess eru allt of mörg góð fjárfestingartækifæri í boði.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)