Slæm hugmynd

Sú ákvörðun íslenskra stjórnvalda, að lýsa yfir stuðningi við Bandaríkjamenn þegar þeir réðust gegn einræðisstjórn Saddams Hussein í Írak, hefur verið umdeild í samfélaginu. Hefur nú hópur manna tekið sig saman og ákveðið að birta auglýsingu í New York Times þar sem þessu er mótmælt í nafni allrar þjóðarinnar.

Sú ákvörðun íslenskra stjórnvalda, að lýsa yfir stuðningi við Bandaríkjamenn þegar þeir réðust gegn einræðisstjórn Saddams Hussein í Írak, hefur verið umdeild í samfélaginu. Hér er ekki ætlunin að taka afstöðu til þess hvort þessi ákvörðun hafi verið rétt eða ekki, heldur að benda á ákvörðun nokkra manna sem hafa ákveðið að tala í nafni allra íslendinga á erlendum vettvangi.

Félagsskapur sem kallar sig Þjóðarhreyfinguna hefur nú hafið söfnun á fjárframlögum í þeim tilgangi að birta auglýsingu í bandaríska dagblaðinu New York Times þar sem stuðningi íslenskra stjórnvalda við þau bandarísku er mótmælt. Í auglýsingunni er orðalagi ávarpsins þannig háttað að sterklega er gefið í skyn að þarna á bak við sé öll íslenska þjóðin. Það er því hálf hlálegt að hreyfing sem kennir sig við aðferðir lýðræðisins skuli falla svona kylliflöt í gryfu ólýðræðislegra aðferða. Þó að skoðanakannanir sýni að þorri þjóðarinnar sé á móti þessari stuðningsyfirlýsingu um þessar mundir, þá skapast engin réttur hjá hópi fólks til þess að fara fram í nafni allra Íslendinga.

Auðvitað er fólkið í fullum rétti að mótmæla því sem það finnst vera rangt, en aðferðirnar þurfa að vera vel ígrundaðar. Sú ákvörðun að fara með þetta á svona áberandi stað vekur líka upp spurningar. Hér eru klárlega stjórnarandstæðingar á ferð og maður veltir því fyrir sér hversvegna þessi leið er farin, en ekki barist á innlendum vettvangi. Eflaust hafa mennirnir sínar ástæður fyrir útlendri birtingu og kannski er það bara eigin sýndarhvöt, þ.e.a.s. að nokkur skoffín fá hugsanlega föðurnöfn sín afbökuð í erlendum fjölmiðlum.

Margir gagnrýnendur ríkisstjórnarinnar bentu á þann fylgikvilla stuðningsyfirlýsingarinnar að erlendir hryðjuverkamorðingjar gætu hugsanlega séð Ísland sem skotmark. Þetta er réttmætar ábendingar, en maður hlýtur að spyrja sig hvort auglýsing í einu þekktasta dagblaði heimsins muni ekki vekja enn meiri óæskilega athygli á Íslendingum. Þó að samskonar félagsskapur í Noregi hafi beitt sömu aðferð, þá er aðferðin alveg jafn slæm.

Talsmenn hreyfingarinnar hafa upplýst að birting í New York Times kosti u.þ.b. 3 milljónir króna. Sennilega væri þessum fjármunum betur varið við uppbyggingastarf í Írak, frekar en í vanhugsað einkaflipp nokkura manna.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.