Varhugaverðar stuðningsyfirlýsingar í BNA

Svo sem varla hefur farið fram hjá neinum munu eiga sér stað forsetakosningar í Bandaríkjunum eftir u.þ.b. tvær vikur. Það er viðtekin venja í Bandaríkjunum að stóru dagblöðin stilli sér upp á bak við einn frambjóðanda fyrir kosningar. Pistlahöfundur telur það varhugavert að fjölmiðlar beiti sér með þessum hætti til að hafa áhrif á úrslit kosninga.

Svo sem varla hefur farið fram hjá neinum munu eiga sér stað forsetakosningar í Bandaríkjunum eftir u.þ.b. tvær vikur. Kosningabarátta frambjóðendanna John Kerry og George W. Bush er nú í hámarki og mikil spenna ríkir um úrslitin þar sem ljóst er að mjótt er á munum.

Kosningar bandaríkjaforseta eru jafnan hitamál enda mikið stórveldi þar á ferð og hafa úrslit kosninganna þar af leiðandi áhrif á alla heimsbyggðina. Flestir hafa eflaust myndað sér skoðun á því hvernig þeir vildu sjá úrslit kosninganna og án efa einnig margir sem hafa reynt að hafa áhrif á kjósendur með einum eða öðrum hætti. Það er hins vegar álitamál hverjir eiga að beita sér til að hafa áhrif á úrslit kosninga og með hvaða hætti.

Í leiðara New York Times í gær, lýsti dagblaðið yfir stuðningi við hinn demókratíska frambjóðanda, John Kerry. Þetta víðlesna og áhrifaríka dagblað lýsti því yfir að forsetatíð Bush hefði verið „hörmuleg“ (disastrous) og að hann hefði framselt ríkisstjórnina hugmyndafræði öfga-hægri sinnaðra. Kerry búi aftur á móti yfir eiginleikum sem prýði stórkostlegan leiðtoga. Hann hafi getu til að endurskoða ákvarðanir sínar við breyttar aðstæður og við heildarmat á afrekum frambjóðendanna beggja til þessa, forgangsröðun þeirra og persónuleika, geti blaðið ekki annað en mælst heilshugar til þess að John Kerry verði næsti forseti Bandaríkjanna.

Það er viðtekin venja í Bandaríkjunum að stóru dagblöðin stilli sér upp á bak við einn frambjóðanda fyrir kosningar. Kerry hefur nú hlotið stuðningsyfirlýsingu 42 dagblaða á meðan Bush hefur ekki fengið nema 22.

Það að fjölmiðlar taki sig til og taki opinberlega afstöðu í kosningum með þessum hætti er eitthvað sem við eigum ekki að venjast hér á landi, þó sumir hafi reyndar haldið því fram að við síðustu alþingiskosningar hafi í umfjöllunum og fréttamati fjölmiðlana mátt sjá einhvers konar hægri eða vinstri slagsíðu. Sú umræða hér á landi vakti mikla gremju meðal almennings og flestir virtust þeirrar skoðunar að það væri langt frá því að vera hlutverk fjölmiðla að reyna að hafa áhrif á úrslit kosninga með þessum hætti. Það mætti því búast við því að leiðarar eins og þeir sem nú er að finna í bandarískum fjölmiðlum, myndu fara verulega fyrir brjóstið á Íslendingum.

Siðareglur blaðamanna mæla jafnan fyrir um að blaðamenn skuli forðast að þröngva persónulegum hugmyndum sínum og gildum sínum upp á aðra. Þeir skuli aldrei sýna af sér hegðun sem geti stofnað hugmyndum almennings um heilindi þeirra og trúverðugleika í hættu. Þeir skuli forðast að vera virkir í stjórnmálastarfi og ekki bjóða sig fram til opinberra embætta.

Svona er einnig farið um siðareglur New York Times. Þar segir orðrétt „Journalists have no place on the playing fields of politics.“ Blaðamenn mega samkvæmt siðareglum New York Times nota atkvæðisrétt sinn eins og aðrir, en ekki gera neitt sem getur vakið spurningar um hlutleysi þeirra eða hlutleysi New York Times. Þeir mega sérstaklega ekki taka þátt í kosningabaráttum, mótmælum, lýsa yfir stuðningi við frambjóðendur, ganga með merki, límmiða á bíl sínum eða yfirleitt gera nokkuð annað sem gæti bent til þess að þeir taki einn frambjóðanda, eða einn málstað, fram yfir annan.

Það er nokkuð ljóst að leiðarinn sem frá greinir hér að ofan vekur upp spurningar um hlutleysi New York Times, lýsir yfir stuðningi við frambjóðanda og bendir sterklega til að blaðið taki einn frambjóðanda fram yfir annan. Það leikur enginn vafi á því að fjölmiðlar eru mikið áhrifaafl í þjóðfélaginu. Hlutverk fjölmiðla í lýðræðisþjóðfélagi er óumdeilt og ekki að ástæðulausu að þeir eru kallaðir fjórða valdið. Þeirra hlutverk er að miðla staðreyndum til almennings og veita stjórnvöldum aðhald með því að skýra frá aðgerðum þeirra og vekja þar með til umræðu og umfjöllunar um málin. Í ljósi þessa er afar mikilvægt að fjölmiðlar viðhaldi trausti almennings á sér og staðreyndaumfjöllun sinni, til að þetta aðhald geti verið raunhæft og árangursríkt. Stuðningsyfirlýsingar þær, sem nú virðast vera eðlilegur hluti af kosningabaráttu Bandaríkjamanna, verður því, með vísan til alls þessa, að telja verulega varhugaverðar svo ekki sé meira sagt.

Latest posts by Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir (see all)