Fullveldi smárrar þjóðar

Á fullveldisdaginn er við hæfi að velta því fyrir sér hvað felist í fullveldi. Íslendingar hafa notið þess í 85 ár og með réttu má halda því fram að þeir hafi notað tímann vel. Raunverulegt vald þjóðarinnar er mun meira en menn þorða að vona þann 1. desember 1918.

Fullveldisdagur Íslendinga fær furðulega litla athygli ár hvert. Ef til vill gerir fólk sér ekki lengur grein fyrir mikilvægi hans, hugsanlega er það undirbúningur jólanna sem truflar. Fullveldið er nefnilega eins og súrefni, við söknum þess ekki fyrr en það hverfur. Fyrir 85 árum fékk íslenska þjóðin á friðsamlegan hátt, það sem milljónir manna hafa keypt með lífi sínu í öðrum löndum. Danir eiga heiður skilinn fyrir þeirra hlut í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Með fullveldi er átt við að þjóð ráði sér sjálf. Hún hefur þá fullt vald yfir innanríkismálum, en það sem meira er þá stjórnar hún samskiptum sínum við önnur ríki. Með réttu má halda því fram að Ísland hafi ekki fengið raunverulegt fullveldi fyrr en 1944. Danski konungurinn var ennþá skilgreindur sem þjóðhöfðingi Íslands og ríkisstjórn Íslands fékk engu breytt þar um. Aldrei er hægt að neyða fullvalda ríki til að hegða sér á ákveðinn hátt, að minnsta kosti samkvæmt kenningunni.

Hins vegar er það svo að í samfélagi þjóðanna gilda ákveðnar leikreglur sem einstök ríki fylgja í flestum tilfellum. Geri þær það ekki eiga þær á hættu að einangrast, sérstaklega í margpóla heimi nútímans. Þar að auki hefur vægi alþjóðlegra samninga og stofnana haft það í för með sér að fæst ríki ráða málum sínum algjörlega sjálf. Sem dæmi um þetta má nefna Evrópusambandið, en aðildarríkin eru skildug til að fylgja samþykktum þess. Í hvert skipti sem ríki gerist aðili að samningum eða stofnunum fellst í undirskriftinni ákveðið framsal á fullveldi.

Fyrir smærri þjóðir þarf það hins vegar ekki að vera svo slæmt. Þær fá í flestum tilvikum vald sem er í hrópandi ósamræmi við stærð þeirra, mannfjölda eða efnahag. Þær hafa því misst lagalegt fullveldi en aukið raunverulegt vald sitt. Stærri þjóðir sem geta ef til vill fengið vilja sínum framkvæmt án samráðs við aðra, eiga það hins vegar á hættu að missa hvort tveggja hluta fullveldis og raunverulegs valds. Svo enn og aftur sé tekið dæmi af Evrópusambandinu þá skýrir deila undanfarna vikna um nýja stjórnarskrá þetta ágætlega. Stærri þjóðirnar innan Evrópusambandsins vilja gera ákveðnar breytingar á stofnsáttmálum þess, en þær hefðu það í för með sér að vald stærri þjóðanna ykist á kostnað smærri þjóðanna. Eins og gefur að skilja hafa þessar tillögur valdið mismikilli ánægju.

Fyrir Íslendinga er ef til vill erfitt að skilja svo kölluð sanngirnisrök í þessu máli. Flestum okkar finnst sjálfsagt mál að Ísland hafi jafn mikið að segja á opinberum vettvangi og til að mynda Þýskaland. Við skömmumst okkar ekki fyrir smæðina, þvert á móti hreykjum við okkur að eigin árangri þrátt fyrir mannfæð. Nýjasta dæmið um þetta er framboð Íslendinga til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Skýrsla Halldórs Ásgrímssonar um utanríkismál var að mestu leiti helguð framboðinu, stjórnarandstöðunni til mikillar hrellingar. Halldór sagði meðal annars að framboðið væri staðfesting á stöðu Íslands á alþjóðavettvangi og þeirri ábyrgð sem Íslendingar hafa axlað.

Þarna hitti Halldór naglann á höfuðið. Íslenska þjóðin hefur mun meiri áhrif á alþjóðavettvangi heldur en bjartsýnustu menn þorðu að vona fyrir 85 árum. Því má að hluta til þakka stórhug íslenskra ráðamanna í gegnum tíðina, hvar svo sem í flokki þeir standa. Fullveldið er engu að síður hlutur sem við þurfum að vernda með ráðum og dáðum því það er alls ekki sjálfgefið að við höldum því um aldur og æfi.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)