Nóg komið

Aðgerðir Ísraelshers hafa frekar verið til þess fallnar að auka ófriðinn fyrir botni Miðjarðarhafs en minnka hann. Það er ekki þar með sagt að ábyrgðin sé eingöngu hans.

Þegar Ísraelsher réðst inn á flugvöllinn á Gaza-svæðinu í viðleitni sinni til að vinna bug á hryðjuverkaárásum Palestínumanna gekk hann endanlega yfir strikið. Með Ariel Sharon í broddi fylkingar hafa stjórnvöld í Ísrael brugðist hart við og nú er svo komið að margir sem hingað til hafa fylgt Ísraelsmönnum að máli hafa fengið nóg. Samúðin hefur ekki snúist til hryðjuverkasamtaka Palestínumanna eða þeirra sem beita sjálfsmorðsárásum heldur til óbreyttra borgara beggja ríkja sem allt of lengi hafa þjáðst vegna deilna valdhafanna.

Deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs minna að nokkru leiti á deilurnar á Norður-Írlandi og því furðulegt að ekki hafi verið lögð meiri áhersla á sambærilega lausn. Hún fellst ekki í friðarsamkomulagi því reynslan sýnir að þau eru ekki varanleg. Hún fellst heldur ekki í sigri Ísrael og útrýmingu Palestínu því það mun einungis skapa fámenna hópa hryðjuverkamanna sem ávallt munu reyna að kljúfa sig frá öðrum ríkjum á svæðinu. Lausnin fellst í varanlegri efnahagslegri velferð þegna svæðisins, en reynslan frá Norður-Írlandi sýnir svo ekki verður um villst, að samúð með öfgafullum hryðjuverkamönnum minnkar í beinu sambandi við bættan efnahag.

Ísraelsstjórn hefur að mestu leiti lamað alla utanríkisverslun Palestínumanna og það sem verra er þá hefur hún skipt Palestínu í lítil svæði sem nánast engin samskipti hafa sín á milli. Þeir halda herkví um helstu borgir Palestínu sem þýðir að fólk kemst ekki lengur til vinnu, atvinnuleysi eykst, ríkið hefur engar leiðir til að greiða laun starfsmanna sinna, og almenn velferð minnkar vegna þess að nauðsynlegar vörur eða lyf fást ekki. Þetta er sérstaklega slæmt í ljósi þess að efnahagur á svæðinu hafði farið batnandi undanfarin ár.

Efnahagsþvinganir leiða sjaldnast til hagkvæmra lausna. Reynslan frá Kúbu sýnir að valdhafar geta fengið töluverða samúð vegna áhrifa viðskiptabanns, enda hefur samúð þjóða heimsins til Palestínu aukist hratt á undanförnum mánuðum. Þar að auki hafa efnahagsþvinganir sjaldnast áhrif á réttu aðilana. Þær leiða yfirleitt til aukinnar fátæktar almennings sem oftar en ekki hefur engin áhrif á stefnu stjórnvalda eða hryðjuverkasamtaka. Rökin eru yfirleitt þau að efnahagsþvinganir hætti um leið og almenningur láti af stuðningi sínum við hryðjuverk. Þetta var reynt á Norður-Írlandi með litlum árangri enda naut Sinn Fein töluverðrar hylli þar til að efnahagur fór að batna og fólk lagði meiri áherslu á almenna stjórn ríkisins, en kröfur um sjálfstæði. Þá var ekki lengur nóg fyrir Sinn Fein að tala um sjálfstæði heldur þurfti flokkurinn að sýna fram á trúverðugleika á öðrum sviðum. Af þessum sökum má gera ráð fyrir því að almenningur í Palestínu léti smám saman af stuðningi sínum við Hamas og önnur hryðjuverkasamtök ef almenn velferð ykist, enda eftir litlu að sækjast til samtaka sem bjóða eingöngu upp á hörmungar og dauða almennra borgara.

Flugvöllurinn á Gaza-svæðinu hefur ekkert hernaðarlegt gildi. Hann þjónar þeim tilgangi einum að koma vörum til og frá svæðinu og til að styðja við bakið á nánast horfnum ferðamannaiðnaði. Það er því óskiljanlegt að Ísraelsmenn taki út reiði sína á hlutum sem geta verið grunnurinn að lausn deilunnar. Eða hvað ætla þeir að eyðileggja næst; skóla eða sjúkrahús? Ísraelsmenn verða að átta sig á því að hervald er ekki besta lausnin í deilum við annað ríki nema að almenningur í viðkomandi landi sé tilbúinn til að skipta um valdhafa, eða að vilji sé fyrir því að heyja algjört stríð þar sem engum hugsanlegum óvini er vægt. Reyndar virðast Ísraelsmenn fikra sig sífellt nær seinni leiðinni.

Ábyrgð palestínskra stjórnvalda er þó ekkert minni en ábyrgð Ísraelsmanna. Það er á þeirra ábyrgð að koma fram með tillögur um efnahagsðagerðir sem ættu að öðru jöfnu að leiða til aukinnar velferðar og þá væntanlega minnkandi stuðnings við hryðjuverk. Með aukinni menntun mætti koma í veg fyrir að öfgafullir menn kenni eingöngu Kóraninn í litlum hópum sem leiðir að lokum til samtaka á borð við Al Qaida og manna á borð við Osama Bin laden. Palestínumenn bera því jafnmikla ábyrgð á núverandi stöðu mála og Ísraelsmenn enda voru það menn úr þeirra röðum sem hófu árásir á Ísrael fyrir rúmu ári. Einnig má benda á að þeir hafa ekki látið af hryðjuverkaárásum sínum þrátt fyrir stöðugar hefndir Ísraelsmanna. Einhverjir hafa reynt að réttlæta það með tilvísan til fyrri verka Ísrael, til yfirþyrmandi hernaðarlegs ójafnvægis eða afskipta Bandaríkjanna á svæðinu, en staðreyndin er sú að fólk ber ábyrgð á eigin verknaði og hryðjuverk, sem og stuðningur við þau, eru alltaf valkvæð.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)