Af skemmdum eplum og tunnum

Af hverju gerir gott fólk vonda hluti? Hvernig gerast hlutir eins og ofbeldið gagnvart börnum á Breiðavíkurheimilinu, pyntingarnar í Abu Ghraib fangelsinu og útrýming gyðinga í seinni heimsstyrjöldinni. Er um að ræða nokkra „vonda einstaklinga“ eða skipta aðstæðurnar einhverju máli?

Af hverju gerir gott fólk vonda hluti? Hvernig gerast hlutir eins og ofbeldið gagnvart börnum á Breiðavíkurheimilinu, pyntingarnar í Abu Ghraib fangelsinu og útrýming gyðinga í seinni heimsstyrjöldinni. Er um að ræða nokkra „vonda einstaklinga“ eða skipta aðstæðurnar einhverju máli?

Þegar við heyrum af álíka hræðilegum atburðum og minnst er á hér að ofan erum við fljót að velta fyrir okkur hver sé fær um að framkvæmda svona hluti og þarna hljóti að vera um að ræða vont eða hreinlega illt fólk. Flest erum við sannfærð um að í sambærilegum aðstæðum myndum við aldrei gera þá hluti sem t.d. fangaverðirnir í Abu Ghraib fangelsinu gerðu. Einmitt vegna þess að við erum gott fólk.

En er það svo einfalt? Voru til dæmis nasistarnir einfaldlega vont fólk og getur ekkert slíkt komið fyrir aftur þar sem þetta fólk er ekki til staðar lengur? Það er auðvelt að reyna að afskrifa voðaverk með þessum hætti, en því miður sýnir sagan að voðaverk á borð við helförina hafa endurtekið sig og munu því miður væntanlega gera það aftur. Við verðum því að horfa á aðstæðurnar sem fólk var í til að skilja hegðunina. Góð epli geta nefnilega skemmst í röngum tunnum, með öðrum orðum getur gott heilbrigt fólk gert ótrúlega hluti í slæmum aðstæðum.

Félagssálfræðingurinn Philip Zimbardo reynir í bók sinni „The Lucifer effect: Understanding How Good People Turn Evil“ að skilja nákvæmlega þetta, þ.e. hvernig gott fólk er fært um að framkvæma hryllilega og grimmilega hluti. Hann tekur Abu Ghraib fangelsið í Írak sem dæmi. Zimbardo er helst frægur fyrir fangelsistilraun sína árið 1971 (Stanford Prison Experiment). Tilgangurinn var að skoða sálræn áhrif þess að vera eða vinna í fangelsi og hvaða áhrif það hefur á fólk að vera í hlutverkum fanga eða fangavarða. Hann prófaði 24 karlmenn og skipti þeim handahófskennt í tvo hópa, fanga og fangaverði. Fangavörðum var gert að halda uppi aga, en var þó bannað að beita líkamlegu ofbeldi. Það leið þó ekki á löngu þar hegðunin varð öfgafull og hlutverkin fóru að vera raunveruleg. Margir fangaverðir urðu mjög harkalegir í ögun fanga og beittu ofbeldi. Mikil breyting var líka í hegðun fanga, einhverjir gerðu uppreisn en aðrir urðu undirgefnir og létu allt yfir sig ganga. Tilraunina varð að stoppa innan sex daga vegna þess að aðstæður voru komnar algjörlega úr böndunum.

Zimbardo hefur notað þessa tilraun til að sýna fram á hvernig venjulegt fólk bregst við því að vera sett í skelfilegar aðstæður. Hann taldi sig hafa sýnt fram á „the bad barrel“ hér, þ.e. áhrif aðstæðna fram yfir áhrif persónuþátta. Það er þó mjög margt sem má gagnrýna við tilraun Zimbardo og þá helst það að hún varð stoppuð í miðju kafi og Zimbardo hafði stjórn á fáum frumbreytum og því frekar óljóst hvaða ályktanir er hægt að draga af henni.

Hlýðni tilraunir Stanley Milgram á hlýðni á 7. áratug síðustu aldar eru einnig vel þekktar. Með þeim var hann til dæmis að reyna að skilja hvernig voðaverk eins og helförin gátu áttu sér stað. Í stuttu máli gengu tilraunir hans út á það að hann fékk þátttakendur til að koma og taka þátt í því sem hann sagði vera minnistilraun. Þátttakendum var gert að setja sig í hlutverk „kennara“ og áttu að kenna öðrum þátttakenda að læra hluti utan að, með því að gefa honum raflost þegar hann svaraði vitlaust. „Nemandinn“ var hins vegar samstarfsmaður Milgram . Hæsti rafstraumur sem hægt var að gefa var 450 volt og var tekið fram að það væri lífshættulegur straumur. Hann vildi vita hversu hátt hlutfall þátttakenda færi alla leið og gefði svo háan straum. Í ljós kom að 65% þátttakanda gaf straum upp á 450 volt.

Allir sem tóku þátt í þessum tveimur tilraunum voru það sem má teljast „venjulegt fólk“. Eftir seinni heimsstyrjöldina vakti það athygli sálfræðinga sem rannsökuðu nasistaforingjana hversu „venjulegir þeir voru“. Margir af þeim sem voru í aftökusveitum nasista og tóku mörg þúsund gyðinga af lífi voru venjulegir fjölskyldufeður sem höfðu aldrei sýnt af sér ofbeldisfulla hegðun og sneru heim á kvöldin til fjölskyldu sinnar eftir að hafa skotið gyðinga í höfuðið blákalt fyrr um daginn. Í þeirra huga voru þeir einfaldlega að fylgja skipunum og ábyrðin var hjá öðrum.

Það eru nokkur atriði sem geta ýtt verulega undir það að fólk láti stjórnast af aðstæðum. Hið fyrra er að draga úr persónueinkennum fórnarlamba sinna (deindividuation). Í þessu tilviki var það gert með því að láta gyðinga klæðast eins fötum og raka hárið af öllum. Þannig líktust þeir hver öðrum og auðveldara var að hugsa ekki um þá sem einstaklinga. Hið seinna er að draga úr manneskjulegum þáttum (dehuminaztion) líkt og gert var í tilfelli gyðinga þar sem þeir voru álitnir vera annars flokks manneskjur og varla það. Abu Ghraib fangelsið er kjörið dæmi um áhrif aðstæðna og hvernig þessum atriðum er markvisst beitt. Fangar eru allir klæddir eins og ítrekað talað um þá sem óvini og þeir álitnir frekar vera dýr en menn líkt og Zimbardo talar um í bók sinni.

Það er þó alveg ljóst að aðstæður einar og sér segja ekki alla söguna. Ef svo væru hefðu allir fangaverðir í tilraun Zimbardo beitt fanga ofbeldi og allir þátttakendur í tilraun Milgram gefið hæsta raflost. Eins voru ekki allir fangaverðir Abu Ghrain fangelsins sem tóku þátt í pyntingunum. Sú staðreynd segir manni að um sé að ræða einhvers konar blöndu af skemmdum eplum og skemmdri tunnu. Aðstæður geta ekki réttlætt gjörðir fólks og allir verða að bera ábyrgð á eigin hegðun, en þær geta hjálpað til við að skilja hegðun fólk. Það er of einföld lausn, líkt og bandaríski herinn beitti í tilviki Abu Ghraib hneykslisins, að segja að vandamálið væri úr sögunni því búið væri að refsa þessum ákveðnu einstaklingum, að búið væri að losa herinn við „skemmdu eplin“.

Því þó að skemmdu eplin séu tekin úr tunnunni halda góðu eplin áfram að skemmast ef tunnan sjálf er skemmd. Þangað til hægt er að koma í veg fyrir að þannig „tunnur“ verði til, munum við því miður líklega halda áfram að heyra reglulega fréttir af voðaverkum líkt og þeim sem minnst var á í upphafi.

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.