Grillhúsið, Austurvelli

Þessi pistill átti upphaflega að heita „Leikskólinn við Austurvöll“. Svo varð mér hugsað til leikskólanna og hversu mikilvægu hlutverki þeir gegna í samfélaginu – og hversu mikla virðingu ég ber fyrir starfinu sem þar fer fram. Því miður get ég ekki sagt það sama um fyrirbærið við Austurvöll, Alþingi Íslendinga. Alþingi hefur auðvitað því mikilvæga hlutverki að gegna að setja lög og fyrir því er rétt að bera virðingu. Hvernig er þó hægt að bera virðingu fyrir Alþingi þegar svo virðist sem alþingismennirnir sjálfir beri litla sem enga virðingu fyrir sínum eigin störfum?

Þessi pistill átti upphaflega að heita „Leikskólinn við Austurvöll“. Svo varð mér hugsað til leikskólanna og hversu mikilvægu hlutverki þeir gegna í samfélaginu – og hversu mikla virðingu ég ber fyrir starfinu sem þar fer fram. Því miður get ég ekki sagt það sama um fyrirbærið við Austurvöll, Alþingi Íslendinga. Alþingi hefur auðvitað því mikilvæga hlutverki að gegna að setja lög og fyrir því er rétt að bera virðingu. Hvernig er þó hægt að bera virðingu fyrir Alþingi þegar svo virðist sem alþingismennirnir sjálfir beri litla sem enga virðingu fyrir sínum eigin störfum?

Á þriðjudaginn bárust fréttir af því þegar Facebook-færsla olli töluverðu uppnámi á Alþingi. Já, á Alþingi. Það var verið að ræða Facebook í þingsal og það hvort að umrædd færsla Vigdísar Hauksdóttur hafi verið brot á þingsköpum. Skiptar skoðanir voru uppi um það en sjálf þvertók Vigdís fyrir að hafa brotið þingsköp – eða eins og einn Facebook-vinur minn snaraði svo skemmtilega yfir á ensku: „Vigdis Hauksdottir, member of parliament, denies having cracked the parliament vagina.“

Ég veit ekki með ykkur, lesendur góðir, en ég hef sjaldan fengið jafn mikinn kjánahroll yfir sjónvarpsfréttunum. Ég hélt auðvitað fyrst að um grín væri að ræða þegar ég heyrði fréttina í útvarpinu fyrr um kvöldið. Svo fjarstæðukennt er það að þingmönnum skuli í fyrsta lagi detta í hug að grilla smá á Facebook, beint af nefndarfundi, og ákveða svo að rífast um það í þingsal. Hvar er virðingin, bæði fyrir Alþingi en ekki síst fyrir kjósendum? Hafa þingmenn ekkert betra við tíma sinn að gera?

Samkvæmt nýrri úttekt Capacent ber 10% þjóðarinnar traust til Alþingis, en það segir sig sjálft að uppákomur á borð við Facebook-grillið eru síst til þess fallnar að auka traust. Það má þó auðveldlega koma í veg fyrir jafn aulaleg atvik í framtíðinni með því einfaldlega að loka fyrir aðgang að Facebook í þinghúsinu – nú já, eða þá að kjósa hæfara fólk til setu á Alþingi í næstu kosningum.

Latest posts by Sunna Kristín Hilmarsdóttir (see all)

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Sunna Kristín hóf að skrifa á Deigluna í mars 2009.