Hin hliðin á HM

Í dag eru 82 dagar þar til Heimsmeistaramótið 2010 í knattspyrnu hefst í Suður-Afríku. Mér finnst því ekki seinna vænna að setja sig í stellingar fyrir mótið og fara yfir sögu keppninar og mótið sem er framundan.

Í dag eru 82 dagar þar til Heimsmeistaramótið 2010 í knattspyrnu hefst í Suður-Afríku. Mér finnst því ekki seinna vænna að setja sig í stellingar fyrir mótið og fara yfir sögu keppninar og mótið sem er framundan.

Heimsmeistaramótið í ár er það nítjánda í röðinni en fyrsta keppnin fór fram í Uruguay árið 1930. Þetta er í fyrsta sinn sem mótið er haldið í Afríku og aðeins í þriðja sinn sem mótið fer ekki fram í annað hvort Evrópu eða Suður-Ameríku. Áður hefur keppnin verið haldin í Bandaríkjunum og sameiginlega í Suður-Kóreu og Japan, utan þessara heimsálfa. Það sem er þó jafnvel enn merkilegra er að lið frá Afríku hefur aldrei komist í undanúrslit á heimsmeistaramóti og því hafa Afríkubúar ekki upplifað gull, silfur né brons á þessu stórmóti. Næst því var líklega komist þegar Frakkar unnu heimsmeistaratitilinn árið 1998 á heimavelli en þrír af lykilleikmönnum franska landsliðsins voru ættaðir frá Afríku.

Velgengni Frakka árið 1998 þurfti þó ekki að koma sérstaklega á óvart þar sem gestgjafar heimsmeistaramótana hafa verið einstaklega sigursælir. Sex sinnum hefur heimaþjóðin borið sigur úr bítum, tvisvar sinnum lent í öðru sæti, þrisvar í þriðja sæti og einu sinni endað í því fjórða. Þannig að í tólf af átján keppnum hafa gestgjafar móstins komist í undanúrslit og þá oftar en ekki unnið til verðlauna. Það er því ekki ólíklegt að Suður-Afríkubúar hugsi sér gott til glóðarinnar enda felst góður heimavallar árangur oftar en ekki í hitastigi, loftslagi og stuðningi áhorfenda. Heimamenn voru einnig nokkuð heppnir með riðil en andstæðingar þeirra verða Frakkland, Mexíkó og Uruguay. Þrátt fyrir að knattspyrnuhefðin sé ríkari á meðal þessara þjóða en hjá Suður-Afríku hafa þær allar verið nokkuð frá sínu besta síðustu misseri. Frakkland og Uruguay þurftu, til að mynda, bæði að leika útsláttarleiki til þess að komast í keppnina, þar sem Frakkar máttu þakka slælegri sjón dómara fyrir að bera sigurorð af Írum.

Undirbúningur í Suður-Afríku fyrir mótið hefur þótt til fyrirmyndar en miklu hefur verið til kostað. Viðgerð og bygging leikvanga og tengdra mannvirkja er talin hafa kostað ríflega 86 milljarða íslenskra króna og aðrir 150 milljarðar munu hafa farið í uppbyggingu flugvalla, lestakerfis og annarra samgöngumála. Þrátt fyrir að þarna sé um gríðarlegar upphæðir að ræða, sérstaklega fyrir land þar sem fátækt er mikil, er líklegt að um góða fjárfestingu sé að ræða. Samkvæmt spá ráðgjafa- og endurskoðunarfyrirtækisins Grant Thornton munu um 370 milljarðar spýtast inn í hagkerfi þjóðarinnar, þar af 220 milljarðar í hreinni neyslu. Að auki er talið að um 159.000 störf verði til í kringum mótið. Mótið felur einnig í sér ómetanlega auglýsingu fyrir ferðaþjónustu landsins en heimsmeistaramótin í knattspyrnu eru stærstu sjónvarpsviðburðir á sviði íþrótta í heiminum, þar með töldum Ólympíuleikunum.

Stuðningsmenn og knattspyrnuunnendur á leið til Suður-Afríku eru því væntanlega margir komnir með fiðring í magann enda mikið ævintýri sem býður þeirra. Fólk mun flykkjast að úr öllum heimshornum, þar á meðal nokkrir Íslendingar, til þess að upplifa stemminguna. Við hin verðum að láta okkur nægja sjónvarpsútsendingar en fram að fyrsta leik mun ég halda áfram að hita upp fyrir mótið með fáeinum HM pistlum.