Baráttan um landgrunnið VI

Ýmsar spurningar vakna í þeim tilvikum sem ríki deila um afmörkun landgrunns gagnvart alþjóðlega hafsbotnssvæðinu, m.a. um hver hafi aðildarhæfi í slíkum málum. Hafa skal hugfast að með ákvörðun ytri marka landgrunnsins er ekki einungis ákvarðað hvert yfirráðasvæði ríkis er heldur einnig hver mörk þess eru gagnvart alþjóðlega hafsbotnssvæðinu.

Ýmsar spurningar vakna í þeim tilvikum sem ríki deila um afmörkun landgrunns gagnvart alþjóðlega hafsbotnssvæðinu, m.a. um hver hafi aðildarhæfi í slíkum málum. Hafa skal hugfast að með ákvörðun ytri marka landgrunnsins er ekki einungis ákvarðað hvert yfirráðasvæði ríkis er heldur einnig hver mörk þess eru gagnvart alþjóðlega hafsbotnssvæðinu.

Af lestri hafréttarsamningsins er ekki hægt að sjá að landgrunnsnefndin sé valdbær til að leggja deilumál um ákvörðun ytri marka landgrunnsins í skyldubundna málsmeðferð sem leiðir til bindandi úrskurðar sem kveðið er á um í 2. kafla XV. hluta samningsins. Alþjóðahafsbotnsstofnunin er heldur ekki valdbær til að gera slíkt, sbr. 4. tl. 134. gr. Í a-lið 187. gr. segir að hafsbotnsdeild Alþjóðlega hafréttardómsins skuli samkvæmt XI. hluta og viðaukum sem snerta hann hafa lögsögu í deilumálum víðvíkjandi starfsemi á alþjóðlega hafsbotnssvæðinu, þar á meðal deilumálum milli aðildarríkja um túlkun eða beitingu XI. hluta og viðaukanna sem snerta hann. Hafsbotnsdeildin hefur því einungis lögsögu í deilumálum viðvíkjandi starfsemi á alþjóðlega hafsbotnssvæðinu.

Fræðimenn hafa rannsakað hvort ríki geti byggt málsaðild sína fyrir alþjóðlega dómstóla á grundvelli reglunnar um að sá eigi sök sem vilji (l. actio popularis) gegn strandríki sem ákveður ekki ytri mörk landgrunns þess utan 200 sjómílna frá grunnlínum á grundvelli tillagna landgrunnsnefndarinnar. Spurningin sem þeir hafa reynt að svara er hvort hverju og einu aðildarríki að hafréttarsamningnum sé heimilt að grípa til aðgerða til að verja hagsmuni alþjóðakerfisins til varðveislu alþjóðlega hafsbotnssvæðisins sem er hluti af sameiginlegri arfleifð mannkyns. Það er ekkert í hafréttarsamningnum sem heimilar eða bannar slíka málsaðild. Leita verður því til almennra reglna þjóðaréttarins. Í Suðvestur-Afríkumálinu frá 1966 hafnaði Alþjóðadómstólinn þeim hugmyndum að reglan um að sá eigi sök sem vilji ætti sér stoð í þjóðarétti. Í málinu komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að hugmyndir um að reglan um að sá eigi sök sem vilji þekkist í landsrétti sumra ríkja þekkist sú málsaðild ekki í þjóðarétti. Þó að þjóðaréttur hafi þróast meira í þá átt að heimila að sá eigi sök sem vilji málsaðild er talið að aðildarríki hafréttarsamningsins geti ekki verið aðili máls vegna sameiginlegra hagsmuna ríkja heims án þess að eiga sjálft lögvarða hagsmuna að gæta.

Fræðimaður hefur kastað fram þeirri hugmynd að Alþjóðahafsbotnsstofnunin ætti að vera fulltrúi alþjóðakerfisins, þ.e. aðildarhæft, í slíkum málum og geta höfðað mál gegn ríkjum sem ákvarða landgrunn sitt óhóflega. Slíkt fyrirkomulag væri í samræmi við 2. tl. 45. gr. draga að samningi Sameinuðu þjóðanna um alþjóðlega hafsbotnssvæðið frá 1970 sem hefði gefið hinni svokölluðu Alþjóðlegu hafsbotnsmarkaendurskoðunar-nefnd vald til að hafa eftirlit með því hvort strandríki færu eftir ákvæðum samningsins um ákvörðun markalína. Ef ríki fór ekki eftir þeim átti nefndin að hafa vald til að semja við strandríki um lausn málsins og ef ekki leystist úr ágreiningnum átti nefndin að vera hæf til að höfða mál fyrir dómstóli sem átti að setja á laggirnar. Í þessu samhengi verður að benda á 4. tl. 134. gr. hafréttarsamningsins sem segir að ekkert í þeirri grein (sem fjallar um gildissvið XI. hluta sem fjallar um alþjóðlega hafsbotnssvæðið) hafi áhrif á ákvörðun ytri marka landgrunnsins samkvæmt VI. hluta. Ganga hugmyndir fræðimannsins því þvert á 4. tl. 134. gr.

Sami fræðimaður heldur því fram að ríkjum gæti verið veitt slík málsaðild til að verja alþjóðlega hafsbotninn. Í sama streng tekur annar fræðimaður, en hann hefur bent á að þrátt fyrir að litið sé á alþjóðlega hafsbotnssvæðið og auðlindir þess sem sameigin-lega arfleifð mannkyns sem Alþjóðahafsbotnsstofnunin skuli gæta, njóti hvert og eitt ríki réttinda á alþjóðlega hafsbotninum og botnlögum hans, sbr. c-, d- og f-liðir 1. tl. 87. gr. hafréttarsamningsins. Þar að auki geti ríki talið að ytri mörk landgrunns annars ríkis hafi ekki verið ákvörðuð í samræmi við 76. gr. Í því tilfelli væri um að ræða deilu í skilningi Alþjóðadómstólsins og hægt að fara með þá deilu í skyldubundna málsmeðferð sem leiðir til bindandi úrskurða. Sá hinn sami hefur bent á að ef annað ríki telur að aðildarríki að samningnum standi ekki við skuldbindingar sínar af trúnaði, sem þau hafa tekið á sig samkvæmt honum, gæti það höfðað mál gegn því ríki. Í mörgum málum fyrir alþjóðlegum dómstólum hefur slíkri röksæmdafærslu verið beitt, a.m.k. sem aukaröksemdafærslu.

Skiptar skoðanir eru um hvaða þætti máls, sem snertir afmörkun ytri marka landgrunnsins utan 200 sjómílna, dómstóll eða gerðardómur geti tekið til skoðunar. Enginn alþjóðlegur dómur hefur fjallað efnislega um slíkt mál. Umræða um þennan þátt er frekar nýtilkomin. Líklegt er að það verði einkum tvö mál sem verða í brennidepli á næstu árum í þessu samhengi, þ.e. hvernig skýra skuli orðin „á grundvelli“ og hvert framhaldið verði í alþjóðakerfinu ef dómur kemst að þeirri niðurstöðu að nefndin hafi túlkað 76. gr. á rangan hátt.

Fræðimaður telur að dómur muni ekki taka efnislega afstöðu til vísindalegs og tæknilegs mats landgrunnsnefndarinnar. Skoðun dóms í þeim tilfellum myndi einungis vera formlegs eðlis, þ.e. hvort nefndin hafi farið út fyrir valdmörk sín. Í því samhengi má spyrja hvar mörk lagalegra svo og vísindalegra og tæknilegra þátta liggja. Það er ekki ljóst. Hafa verður í huga að ákvæði 76. gr. hafréttarsamningsins innihalda ýmis vísindaleg hugtök. Taka má sem dæmi að greinin fjallar um neðansjávar- og úthafshryggi. Með hliðsjón af því má spyrja hvort dómur geti fjallað um í hvaða flokk tiltekinn hryggur fellur. Einnig er hægt að spyrja hvort dómur geti einungis veitt almennar leiðbeiningar um hvernig túlka skuli efni 76. gr. eða hvort hann geti tekið fyrir ákveðin svæði og skoðað hvort nefndin hafi beitt 76. gr. hafréttarsamningsins á réttan hátt á því svæði. Við þessum spurningu eru engin skýr svör enn sem komið er. Álitamál af þessu tagi eiga líklega eftir að koma upp á næstu árum.

Sami fræðimaður heldur því fram að ríki geti haft uppi kröfu í máli um ytri mörkin að túlkun og beiting 76. gr. hafréttarsamningsins sé röng af hálfu landgrunnsnefndarinnar og að dómur sem myndi dæma í slíku máli sé ekki bundinn af túlkun nefndarinnar á 76. gr. hafréttarsamningsins eða öðrum ákvæðum hans. Byggir sú skoðun á því að það er forsenda fyrir gildi tillagna nefndarinnar að þær séu byggðar á 76. gr., sbr. a-liður 1. tl. 3. gr. II. viðauka við hafréttarsamninginn. Því má draga þá ályktun að ef dómur hnekkir tillögur nefndarinnar á skyldan um „á grundvelli“ ekki við. Ákvörðun strandríkis um ytri mörk landgrunns þess sem byggir á slíkri tillögu getur þ.a.l. ekki verið endanleg og bindandi. Fræðimaðurinn heldur því fram að það sé háð forsendum sem niðurstaða dóms byggist á hvort strandríki þurfi að ákveða ytri mörk landgrunns síns á nýjan leik eða hvort það þurfi að leggja fyrir nefndina nýja eða endurskoðaða greinargerð. Fræðimaðurinn gerir því ekki ráð fyrir að nefndin taki tillögur sínar til endurskoðunar enda geti hún ekki breytt þeim afturvirkt. Þrátt fyrir að nefndin sé ekki formlega bundin af dómi gerðardóms eða dómstóls, enda ekki aðili máls, þyrfti hún við samningu nýrrar tillögu að taka tillit til dómsins þar sem hún er alþjóðastofnun og sem slík bundin að þjóðarétti.

Aðildarríki hafréttarsamningsins geta óskað eftir ráðgefandi áliti frá Alþjóðlega hafréttardómnum, sbr. reglu 138 í málsmeðferðarreglum dómsins. Í þeirri reglu segir að dómurinn megi veita ráðgefandi álit um lögfræðilegt álitaefni ef samkomulag milli ríkja tengt tilgangi hafréttarsamningsins áskilur sérstaklega að hægt sé að biðja dóminn um slíkt álit. Hafa verður í huga að álit dómsins eru ekki bindandi. Þrátt fyrir það geta þau nýtst til að skýra lagaleg álitaefni um landgrunnið.