Myndbirting Morgunblaðsins í gær og hlutverk dómstóla

Myndbirting Morgunblaðsins af dómurum Hæstaréttar, í gær föstudag, er hverjum þeim fjölmiðli sem taka vill sig alvarlega til skammar. Ákvörðun ritstjórnar blaðsins hlýtur að bera annað hvort vitni um lítinn og lélegan skilning á hlutverki dómstóla, dómara og þrískiptingu ríkisvalds, eða vitni þess að um ógeðfellda tilraun sé að ræða, til þess að gera dómara sem kváðu upp dóm í kynferðisbrotamáli sl. fimmtudag persónulega ábyrga fyrir niðurstöðu dómsins.

Myndbirting Morgunblaðsins af dómurum Hæstaréttar, í gær föstudag, er hverjum þeim fjölmiðli sem taka vill sig alvarlega til skammar. Ákvörðun ritstjórnar blaðsins hlýtur að bera annað hvort vitni um lítinn og lélegan skilning á hlutverki dómstóla, dómara og þrískiptingu ríkisvalds, eða vitni þess að um ógeðfellda tilraun sé að ræða, til þess að gera dómara sem kváðu upp dóm í kynferðisbrotamáli sl. fimmtudag persónulega ábyrga fyrir niðurstöðu dómsins. Hvað sem öðru líður er slík myndbirting fordæmalaus með öllu.

Spyrja má margra og áleitinna spurninga um tilgang þessarar myndbirtingar. Þegar hefur verið nefnt til sögu að ákvörðunin geti helgast af einhvers konar því sjónarmiði að gera dómara persónulega ábyrga fyrir dómi, sem ritstjórn blaðsins er ekki sammála. Er þá myndbirtingin liður í því að láta dómara vita, að ef ritstjórn Morgunblaðsins er ekki sammála dómum þeirra í framtíðinni, skulu þeir vara sig á því að mynd og nafn þeirra geti endað á forsíðu blaðsins! Og því skulu dómarar þyngja refsingar, að öðrum kosti verða myndir af þeim ásamt nöfnum birt í blaðinu svo almenningur sjálfur geti séð hvers konar menn kveða upp slíka dóma!

Ummæli í bloggheimum hafa verið á þann veg að flestir hafa fagnað þessu framtaki Morgunblaðsins, enda séu refsingar í kynferðisbrotamálum allt of vægar og það gangi ekki lengur að dómarar skýli sér bak við lögfræðilega útúrsnúninga í stað þess að þyngja refsingar í þessum málaflokki og það strax! Hvatt hefur verið til þess að almenningur sendi mótmæli sín til Hæstaréttar í tölvupósti á netinu í dag. Umræðan hefur einkum einkennst af æsingi og misskilningi um hlutverk dómstóla.

Í umfjöllun sinni kaus Morgunblaðið að vitna í þau ákvæði hegningarlaga sem dómurinn beitti og telja upp hvaða lágmarks og hámarksrefsingum beita mætti samkvæmt þeim. Er því rétt að víkja með almennum orðum að hlutverki dómstóla, þar sem Morgunblaðið taldi ekki ástæðu, í makalausri umfjöllun sinni, að skýra það nánar út fyrir lesendur sína.

Hlutverk dómstóla er, samkvæmt stjórnarskránni, að dæma eftir lögunum og gæta að réttlátri málsmeðferð og jafnræði við úrlausn mála. Í þessu felst að dómstólar skulu dæma svipuð tilfelli með svipuðum hætti og það útilokar að dómarar beiti einhvers konar frjálsu eða persónubundnu mati við ákvörðun viðurlaga. Í ákvæðum hegningarlaga er að finna ákveðinn refsiramma sem kveður á um lágmarksrefsingu og hámarksrefsingu sem dómstólar geta beitt við ákvörðun refsingar fyrir tiltekið brot. Með nokkurri einföldun má segja að krafan um réttláta málsmeðferð og jafnræðisreglan leiði til þess að dómstólum beri að dæma álíka refsingar fyrir sambærileg tilvik. Er hér einnig komin ástæða þess af hverju ekki er hægt að líta einungis á refsirammann sem slíkan við ákvörðun refsingar, heldur þarf einnig að gæta að fyrri úrlausnum dómstóla.

Í ofangreindu felst einnig að dómstólar skulu vera sjálfstæðir í störfum sínum og þurfa að gæta að hlutlægni í vinnubrögðum sínum. Það er meginástæða þess af hverju dómarar koma ekki fram í fjölmiðlum og fjalla um dóma sína eða viðra skoðanir sínar á dómum eða lögfræðilegum álitaefnum. Slíkt getur gert þá vanhæfa í störfum sínum, eða varpað rýrð á traust það sem þeir þurfa að hafa til þess að bera til þess að sinna störfum sínum

Í dómi felst ekki persónuleg skoðun dómara eða álit, heldur niðurstaða sú sem dómarar komast að á grundvelli gildandi laga. Dómurinn stafar frá dómsvaldinu, sem eins og alkunna er ein grein þrískipts ríkisvalds. Ástæða þess að dómarar, lögmenn og saksóknarar eru klæddir skikkjum við flutning dómsmáls er angi þess sama. Með því að klæðast skikkju, afklæðist dómari persónu sinni og kemur fram sem fulltrúi dómvaldsins og í þess nafni, en ekki í sinu eigin nafni.

Það skiptir því ekki máli hvaða persónulegu skoðun dómarinn hefur um hvort þyngja beri refsingar. Þynging dómstóla á refsingum í einni svipan á grundvelli umfjöllunar Morgunblaðsins eða reiði samfélagsins getur því engan veginn verið grunnur þess að þyngja refsingar. Slíkt myndi leiða til óréttlátrar málsmeðferðar og ójafnræðis og handahófskenndra refsinga sem grundvölluðust á persónulegu mati dómarans, eða hvernig vindar blása um samfélagið sjálft.

Sjálfstæði dómstóla, jafnræði og réttlát málsmeðferð er einn af meginhornsteinum lýðræðis. Með því að krefjast þess að dómstólar láti undan kröfum samfélagsins og þyngi refsingar er höggvið í undirstöður þeirra grunngilda sem við byggjum samfélagið sjálft á.

Telji almenningur-og Morgunblaðið-að þyngja beri refsingar í kynferðisbrotum, ber að beina þeirri kröfu til löggjafarvaldsins. Telji löggjafinn ástæðu til þess að þyngja refsingar hefur hann það í hendi sér að hækka refsiramma ákvæða hegningarlaganna. Við slíka hækkun verða dómstólar sjálfkrafa bundnir-enda er hlutverk þeirra að dæma einungis eftir lögum landsins. Tölvupóstum almennings ber því að beina til löggjafans en ekki til dómstóla.

Það hefur hingað til ekki þótt drengilegt hér á landi að vega að þeim sem ekki getur borið hönd fyrir höfuð sér. Morgunblaðið varð uppvíst að slíkri framkomu í gær með myndbirtingu sinni og framsetningu að öðru leyti. Þeir starfmenn blaðsins sem að ákvörðun þessari komu, mega í dag svo sannarlega skammast sín.

Latest posts by Ari Karlsson (see all)

Ari Karlsson skrifar

Ari hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2005.