Gert út frá Brüssel?

Löngu tímabært er að umræða um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB) hefjist fyrir alvöru hér á landi. Fyrr en seinna þarf þjóðin að taka afstöðu til þess, hvort hún vilji ganga í ESB eða ekki og því er nauðsynlegt að upplýst umræða um kosti aðildar og galla hefjist sem fyrst. En á meðan lögformlegt umhverfismat og virkjanir eiga hug ráðamanna og almennings allan er ekki von á því að rými sé fyrir alvarlega umræðu um Evrópumálin.

Löngu tímabært er að umræða um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB) hefjist fyrir alvöru hér á landi. Fyrr en seinna þarf þjóðin að taka afstöðu til þess, hvort hún vilji ganga í ESB eða ekki og því er nauðsynlegt að upplýst umræða um kosti aðildar og galla hefjist sem fyrst. En á meðan lögformlegt umhverfismat og virkjanir eiga hug ráðamanna og almennings allan er ekki von á því að rými sé fyrir alvarlega umræðu um Evrópumálin.

Þegar umræða um hugsanlega aðild að ESB hefur skotið upp kollinum hér á landi hefur hún jafnframt verið kveðin niður með vísan til sjávarútvegsstefnu ESB. Þótt um veigamikil rök sé að ræða, eru þau alls ekki endanleg. Hugsanlega er einn helsti gallinn við þá litlu umræðu sem farið hefur fram hér á landi sá, að hún hefur fyrst og fremst farið fram á lögfræðilegum forsendum. Menn hafa gengið út frá því að reglur sambandsins séu fortakslausar í framkvæmd. Minna hefur verið gert af því að skoða hvernig þessar reglur virka og hvernig framvinda mála innan sambandsins er í praxís.

Einn þeirra sem mikið hefur látið til sín taka í þessari umræðu er stjórnmálafræðingurinn Úlfar Hauksson. B.A. ritgerð hans bar heitið Gert út frá Brüssel? og í henni rannsakar Úlfar sjávarútvegsstefnu ESB út frá hugsanlegri aðild Íslands að sambandinu. Til hliðsjónar hefur hann aðildarsamning Noregs við ESB, sem síðar var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu í Noregi. Þar náðu Norðmenn merkilegum samningum um forræði yfir fiskimiðum sínum, sem hugsanlega hefðu fordæmisgildi þegar og ef Íslendingar leituðu eftir aðild.

Í niðurstöðum ritgerðar sinnar segir Úlfar að hræðsluáróðurinn um að ESB muni sölsa undir sig fiskimiðin við Ísland sé fordæmanlegur og eigi ekki við rök að styðjast. Hann segir:

„Ég get fullyrt að í sögu Evrópusambandsins hefur aldrei verið gengið þvert á grundvallarhagsmuni aðildarríkis. Slíkt samræmist ekki hagsmunum sambandsins og það hefur aldrei þótt góð pólitík þar á bæ að grafa undan lífsviðurværi aðildarþjóða, þvert á móti. … Ef teknar yrðu ákvarðanir sem snertu grundvallarhagsmuni aðildarríkis, þvert á vilja þess, myndi annað af tvennu gerast: Viðkomandi ríki myndi segja skilið við Evrópusambandið og það hefði fordæmisgildi og gæti stefnd samstarfinu í voða. Hinn möguleikinn, og sá líklegri, er að viðkomandi ríki myndi vinna gegn sambandinu innanfrá og gæti það þannig lamað starfsemi sambandsins í öllum veigamestu málunum þar sem samhljóða ákvörðunar er krafist.“

Þótt Deiglan sé frekar höll undir lögfræðilegt sjónarhorn á hlutina, þá eru sjónarmið Úlfars í þessari ritgerð, sem og rök hans í fjölmörgum blaðagreinum í Morgunblaðinu, allrar athygli verð. Aðalatriðið á þesum tímapunkti er ekki hvort menn séu með eða á móti aðild, heldur að menn kynni sér málið frá öllum hliðum. Þannig verður hægt að taka rökstudda afstöðu með eða á móti þegar þar að kemur.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.