Hvernig skilgreinir maður hræsni?

Hræsni er ansi skemmtilegt hugtak og virðist verða æ algengari í þjóðfélagsumræðunni. Líklega er hún þó sjaldan eins aumkunarverð og jafn mikið aðhlátursefni og þegar opinberir aðilar á alþjóðavettfangi gera sig seka um að verða henni að bráð.

Á síðastliðnum tveimur vikum hefur líklega engin umræða fengið jafn ítarlega og linnulausa umfjöllun og hið blessaða hvalveiðimál okkar Íslendinga. Róttækir armar víðsvegar úr heiminum hafa svifið yfir vötnum og höfum til þess að slá á fingur okkar blóðþyrstu víkinganna úr norðri. Helgarnestið ætlar þó að hlífa lesendum við hverskonar vitsmunarlegri umræðu um réttmæti hvalveiðanna. Þess í stað verður skutulnum beint að hálf hlægilegu innleggi bandarískra sendiboða í hringavitleysuna sem umlykur þessa tímamótaákvörðun sjávarútvegsráðherra.

Í vikunni mátti finna í fréttum áhugaverð skilaboð frá bandarískum sendiboða er vörðuðu hvalveiðar Íslendinga. Aðstoðarviðskiptafulltrúi Bandaríkjastjórnar, Shaun Donnelly, lét hafa eftir sér að honum þætti liggja ljóst fyrir að ákvörðun Íslendinga um að hefja hvalveiðar að nýju myndi hafa neikvæð áhrif á hugsanleg aukin viðskiptatengsl þjóðanna. Í þessari sömu tilkynningu bætti Donnelly við að honum þætti afar ólíklegt að af fríverslunarsamningi milli þjóðanna gæti orðið. Ólíklegt er að hvalveiðarnar séu eina ástæðan fyrir hinum neikvæðu ummælum aðstoðarviðskiptafulltrúans en þó er ljóst að hann sá sig knúinn til þess að ógna viðskiptaumræðum þjóðanna vegna villimennsku landans. Sendiboðinn hefur líklega ekki þurft að hugsa sig tvisvar um þessi ummæli þar sem Bandaríkin sitja klárlega við breiðari endann á samningaborðinu, auk þess sem vel er vitað að Íslendingar geta ekki sótt mikinn stuðning til alþjóðasamfélagsins vegna áðurnefndrar ákvörðunar um hvalveiðar.

Í ljósi þessara frétta er því einstaklega áhugavert að velta fyrir sér þeim lögum sem George W. Bush bandaríkjaforseti skrifaði undir sama dag og Íslendingar ákváðu að hefja hvalveiðar að nýju. Þann 17. október 2006 ákvað Repúblikaflokkur Bandaríkjanna, með Bush í forystu, að réttlætanlegt væri að beita “harðræði við yfirheyrslur yfir fólki sem grunað er um hryðjuverk” (www.mbl.is 17. október 2006). Í stuttu máli má því segja að Bandaríkjastjórn hafi haft að háði mannréttindastefnu vesturheims undanfarna áratugi.

Þrátt fyrir þessa stórkostlegu afturför í málum mannréttinda mega lesendur ekki gleyma því að það eru Íslendingar sem eru fulltrúar alþjóðlegrar villimennsku. Enda er samviskuleysið sem er nauðsynlegt til þess að elta og veiða saklausa hvali töluvert ískyggilegra en það sem þörf er á til þess að pynta, mögulega saklausa, samfélagsþegna. Að öllu gamni slepptu, þá er merkilegt hvernig Bandaríkjastjórn hefur manndóm í sér til þess að ógna viðskiptaviðræðum þjóðanna á forsendum sem eru fjarri því jafn forkastanlegar og pyntingarnar sem hún skrifar undir.

Og því má spyrja sig, hvernig skilgreinir maður hræsni?