Grænar byggingar

Grænn arkitektúr eða grænar byggingar ryðja sér til rúms á alþjóðlegum vettvangi. Tæknin og þekkingin hefur þó verið til staðar í lengri tíma. Hvað veldur skyndilega aukinni eftirspurn eftir umhverfisvænum lausnum í byggingargeiranum? Og verða einhvern tímann byggðar alvöru grænar byggingar hér á landi?

Grænar byggingar eru ekki endilega grænar á litinn

Það er stundum sagt að allt sé vænt sem vel er grænt. Og það getur líka átt við byggingar. Svokallaður grænn arkitektúr felur það í sér að auka nýtni og draga úr sóun með tilliti til allra helstu umhverfisþátta sem bygging getur haft. Það á við flesta þá þætti sem standa fyrir utan beina fjárhagslega stofnkostnaðarliði. Það táknar að tekið sé ríkt mið af almennri orkuþörf byggingarinnar, notkun umhverfisvænna byggingarefna, að ríkt tillit sé tekið til umhverfis, samfélags og almennrar heilsu notendanna, svo dæmi séu nefnd.

Grænn arkitektúr er einn angi sjálfbærrar þróunar. Þeirrar viðleitni mannsins að skila náttúrunni og umhverfi sínu til komandi kynslóða í jafn góðu eða betra ásigkomulagi en tekið var við því. Þeir hönnuðir sem fyrstir manna sannfærðust um ágæti þeirrar speki hafa stundað mikla þróunarvinnu á sviði grænnar mannvirkjagerðar. Og yfirleitt mjög óeigingjarna vinnu. En nú lítur út fyrir að sú viðleitni muni borga sig upp í auknum mæli. Græn viðmið fá síaukið vægi við hönnun nýrra bygginga. Ástæða þess er að öllum líkindum sú að sífellt fleiri sjá skynsemina í sjálbærri þróun. Að það sé skynsemi og vit í umhverfisvænum og vistvænum lífsstíl. Það er því að verða til alvöru markaður fyrir grænar byggingar.

Í fæstum tilfellum má finna skýringarnar í strangari kröfum og reglugerðum. Skýringanna á auknum vinsældum grænna bygginga er frekar að finna í auknum kröfum markaðarins. Kaupendur og leigjendur láta það sig varða hversu umhverfisvænum lausnum þeir eru að fjárfesta í. Það skiptir neytandann sífellt meira máli hvort eignin uppfylli viðurkennda staðla eða vottanir. Vottanir sem oftar en ekki hafa verið mótaðar af sjálfstætt starfandi samtökum og núll-hagnaðar samtökum (e. Non-profit organisations). Dæmi um slíkt félag og slíka vottun er Orkustjarnan (e. Energy Star), vottun bandarísku Umhverfisverndarsamtakanna (e. US. Environmental Protection Agency).

Græna byltingin er langt í frá einskorðuð við einstakar byggingar og mannvirki. Angarnir teygja sig víða. Þar á meðal í skipulags- og samgöngugeirann. Staðardagskrá 21 er gott dæmi um það. Þar setja heil sveitarfélög sér markmið um þróun þess samkvæmt mælikvörðum sjálfbæra þróunar. Þar stöndum við Íslendingar nokkuð framarlega, en fyrir tæpum tíu árum síðan hrundu Samband íslenskra sveitarfélaga og Umhverfisráðuneytið af stað verkefni sem miðaði að greiða fyrir því að íslensk sveitarfélög settu sér umhverfismarkmið í anda sjálfbærrar þróunar. Svo ekki sé minnst á mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og nú nýlega umhverfisáhrif áætlana, s.s. samgöngu- og orkuáætlana.

30 St. Mary Axe, eða „Erótíska gúrkan“, er nýjasta viðbótin í ört vaxandi háhýsaskóg Lundúna. Hönnuðurinn, Foster & Partners, notaði græn viðmið við hönnun byggingarinnar, s.s. náttúrulega loftræsingu og orkusparandi gler.

Þótt grænar byggingar aukist að vinsældum erlendis er ólíklegt að græn markmið verði kjarni í hönnun bygginga hérlendis. Enda eru þær það að miklu leyti nú þegar. Húsahitun fer fram með virkjun jarðvarma og raforkuframleiðsla með endurnýjanlegum orkugjöfum að mestu leyti. Það eru þó ekki metnaður á sviði umhverfisverndar sem er meginástæða þess, heldur fyrst og fremst praktískir hvatar.

Við gætum eflaust gert mun betur. Ekki síst þegar kemur að notkun spilliefna og endurvinnanlegra efna og tækja á byggingarstiginu. Síðan má setja stórt spurningarmerki við gæði og almennan metnað þegar ný hverfi eru skipulögð. Allt of lengi höfum við látið skammtímasjónarmið ráða við þróun byggðar og gerum því miður enn. Umhverfi, samfélag og samgöngur þurfa að líða fyrir slæmar ákvaðarnir og slæma ráðgjöf á því sviði.

Hvort grænn arkitektúr ryðji sér til rúms hér á landi er háð annarri spurningu: Munu íslenskir neytendur gera auknar kröfur til þess? Það er ósennilega að það gerist strax, af sömu ástæðum og nefndar voru hér að ofan. Þær eru það nú þegar að mörgu leyti. En það er engin ástæða til að slaka á kröfunum. Þó ekki væri nema til að setja gott fordæmi. Ef allar þjóðir heimsins myndu á morgun ákveða að taka upp íslenskan lífsstíl – sem óneitanlega einkennist af heldur ósjálfbæru neyslumynstri – yrðum við ekki lengi að sprengja plánetuna utan af okkur. Það er því kominn tími fyrir okkur að fara að hugsa, og hugsa grænt.

The Rise of the Green Building Grein í The Economist

Um staðardagskrárverkefni íslenskra sveitarfélaga

Keeping it green with panes and more Grein í New York Times

Universities go Green Grein í The Economist

When Building Green, it’s Still Tough to find a Builder Grein í New York Times

Hood Intentions Grein í Grist.com

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.