Vinnum upp mannfagnaði

Maðurinn er félagsvera sem þarfnast samveru við annað fólk. Samkomutakmarkanir og fjarlægðarmörk vegna heimsfaraldursins hafa haft í för með sér aukna einangrun fólks. Við höfum farið á mis við verðmætar samverustundir með fjölskyldu og ástvinum, sérstaklega þeim sem eldri eru.

Á Íslandi höfum við þó verið lánsöm hvað þetta varðar þar sem áhrif á daglegt líf hafa verið langtum minni en víðast hvar annars staðar. Meðan skólar hafa verið opnir hér nánast samfellt gegnum faraldurinn og við höfum getað hitt okkar nánasta fólk þá hafa víða verið í gildi mjög harðar samkomutakmarkanir svo mánuðum skiptir og jafnvel útgöngubann. Eftir nokkra daga fá Bretar formlegt leyfi til að faðma nánustu fjölskyldu í fyrsta sinn síðan í mars á síðasta ári.

Þrátt fyrir betra ástand á Íslandi hafa alls kyns mannfagnaðir setið á hakanum í rúmt ár. Þetta á við um brúðkaup, fermingaveislur, útskriftir, árshátíðir og fleira. Árgangar sem enda 0 og 1 hefðu með réttu átt að fagna stórafmælum undanfarið ár með mannmörgum og skemmtilegum partýum. Allt eru þetta tilefni sem við nýtum til að hittast, rjúfa hversdaginn og gleðjast saman.

Undanfarnar vikur hefur gætt bjartsýni í samfélaginu samhliða auknum krafti í bólusetningum og hækkandi sól. Við erum smám saman að komast út úr heimsfaraldrinum og það er bjartari tíð framundan. Nú er sumarið handan við hornið og ef við höldum áfram á sömu braut þá fara að skapast aðstæður til að hittast í ríkari mæli.

Sem fulltrúi árgangs sem endar á 1 og átti stórafmæli í janúar vill pistlahöfundur hvetja landsmenn til að afskrifa ekki þá viðburði sem hefðu verið haldnir undanfarið ár undir venjulegum kringumstæðum. Vinnum upp síðbúin afmæli, útskriftir og þá mannfagnaði sem við eigum inni. Hittumst og gleðjumst saman sem mest, við eigum það svo sannarlega skilið eftir þetta ár.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.