Þá fyrst náum við árangri

Brottflutningur fyrirtækja úr Reykjavík er verulegt áhyggjuefni. Fljótlega verða aðeins fjögur af tíu stærstu fyrirtækjum landsins með höfuðstöðvar í borginni.

Brottflutningur fyrirtækja úr Reykjavík er verulegt áhyggjuefni. Fljótlega verða aðeins fjögur af tíu stærstu fyrirtækjum landsins með höfuðstöðvar í borginni. Jafnframt standa líkur til þess að sameinað húsnæði Tækniskólans verði byggt í öðru sveitarfélagi. Höfuðborgin missir hvern spóninn af fætur öðrum úr aski sínum.

Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir dæmi um að hár fasteignaskattur borgarinnar hafi spilað stóra rullu í ákvörðun fyrirtækja um að flytja sig um set. „Fasteignagjöld eru vissulega þáttur sem maður heyrir að fyrirtæki horfi til því þessi skattur verður alltaf stærri og stærri hluti af rekstrarkostnaði með hækkunum á fasteignamati.“

Framboð hagkvæmra atvinnulóða er jafnframt veigamikill áhrifaþáttur í staðarvali fyrir atvinnurekendur. Reykjavíkurborg svarar illa eftirspurn eftir atvinnulóðum í austurhluta borgarinnar. Jafnvel þó aðalskipulag geri ráð fyrir fjölgun atvinnutækifæra í efri byggðum svo leiðrétta megi skipulagshalla og jafna umferðarstrauma.

Það er mikilvægt að breyta borgarskipulagi með þeim hætti að íbúar efri byggða geti valið að starfa nærri heimili sínu. Í dag liggja umferðarstraumar til vesturs að morgni en austurs að kvöldi. Fjölga þarf vinnustöðum í austurhluta borgarinnar og auka byggð í vesturhlutanum. Þannig má skapa betri hringrás í umferð og svara eftirspurn eftir búsetukostum vestarlega.

Borgarumhverfi sem styður illa við atvinnurekstur stefnir aðeins í eina átt – atvinnutækifærum fækkar í borginni, íbúum fækkar í borginni, umferðin þyngist í borginni og skatttekjur dragast saman í borginni. Höfuðborgin sefur á verðinum og verður eftir í samkeppni við önnur sveitarfélög.

Ef við hyggjumst búa atvinnurekendum blómlegt umhverfi í Reykjavík, og borgarbúum fjölbreytt atvinnutækifæri, verður nauðsynlegt að skipuleggja hagkvæmar atvinnulóðir, sveigjanlegra kerfi, einfaldara regluverk og lægri skatta. Þá fyrst náum við árangri.

Latest posts by Hildur Björnsdóttir (see all)

Hildur Björnsdóttir skrifar

Hildur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Hún hóf að skrifa á Deigluna í september 2010.