Grundvallarhagsmunir tryggðir með fríverslunarsamningi við Bretland

Það er þess vegna mikið fagnaðarefni að nú skuli liggja fyrir traustur rammi til framtíðar um viðskipti þjóðanna.

Í dag var greint frá því að nýr fríverslunarsamningur við Bretland væri í höfn. Þegar Bretland gekk úr Evrópusambandinu var það yfirlýst markmið íslenskra stjórnvalda að tryggja áfram sambærileg viðskiptakjör við Breta, okkar næst stærsta útflutningsland, og verið höfðu, en helst betri. Það markmið hefur nú náðst með hinum nýja samningi.

Fríverslunarsamningurinn, sem gerður var í samfloti með hinum EES-EFTA ríkjunum, Noregi og Liechtenstein, er afar umfangsmikill í samanburði við aðra fríverslunarsamninga sem Ísland hefur gert. Hvað þjónustuviðskipti varðar þá munu íslensk fyrirtæki og þjónustuveitendur á grundvelli samningsins njóta a.m.k. sömu kjara og réttinda og helstu samkeppnisaðilar frá ESB og í sumum tilfellum betri.

Samningurinn tryggir að útflytjendur íslenskra sjávarafurða og landbúnaðarafurða sitja að minnsta kosti við saman borð og vörur frá helstu samkeppnisríkjum innan EES. Í ljósi mögulegra samninga á milli ESB og Bretlands á þessu sviði skiptir það sköpum fyrir íslenska útflutningshagsmuni, ekki síst þar sem viðskiptahindranir á grundvelli heilbrigðisregla geta verið mun meira íþyngjandi en tollar.

Í samningnum er að finna sérstakan kafla um jafnréttismál og valdeflingu kvenna í viðskiptum. Er þetta í fyrsta skipti sem slík ákvæði er að finna í fríverslunarsamningi sem Ísland gerir. Þá inniheldur samningurinn metnaðarfullar skuldbindingar á sviði umhverfisverndar og baráttu gegn hlýnun jarðar auk skuldbindinga á sviði vinnuréttar.

Bretland er okkar næst stærsta útflutningsland og viðskiptakjör hafa mikil áhrif á útflutningsverðmæti Íslendinga og þar með lífskjör á Íslandi. Það er þess vegna mikið fagnaðarefni að nú skuli liggja fyrir traustur rammi til framtíðar um viðskipti þjóðanna.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.