Græðgi er vond

Það er vitað frá aldaöðli að þorstinn eftir ríkidæmi er vís leið til þess að týna sjálfum sér. Algjör samstaða er um þetta meðal trúarbragða heimsins og helstu hugsuða mannkynssögunnar—allt frá Móses til Krists, Búddha, Múhammeðs og Yoda. Ásælni er ein af höfuðsyndunum; það er synd að vera upptekinn af því að vilja komast yfir sífellt fleiri efnislega hluti. Það er illt að vera gráðugur.

Á undanförnum árum og áratugum hafa þó ýmsir nýir spámenn og spekingar sett fram kenningar í þveröfuga átt. Einna áhrifamestur er hin uppskáldaða persóna Gordon Gekko, sem í kvikmyndinni Wall Street flytur innblásna ræðu til varnar græðginni. „Greed is good“ sagði hann og rökstuddi það með þeirri kenningu að græðgi væri forsenda allra framfara, því án hennar fengi hið nýja aldrei að ryðja hinu gamla úr vegi. En þegar betur er að gáð þá finnast örugglega engin dæmi um uppfinningamenn, listafólk, vísindamenn eða raunverulega frumkvöðla í viðskiptum sem hafa þakkað peningagræðgi fyrir árangur sinn. Öll markverð framþróun er knúnar áfram af máttugri og göfugri hvötum.

Rapparinn 50 Cent boðaði þá trú að maðurinn skyldi keppast að því að öðlast ríkidæmi eða falla hetjulega í valinn í tilraun sinni til þess („Get Rich or Die Trying). Hann óskaði nýlega eftir gjaldþrotaskiptum.

Og græðgispostilla Donalds Trump nýtur svo mikils stuðnings í Bandaríkjunum að hin yfirgnæfandi hógværð Frans páfa er afgreidd fyrst og fremst sem krúttlegur barnaskapur—huggulegt draumóratal sem hægt er að hafa gaman að á sunnudagskvöldum, en víkur strax á mánudagsmorgni fyrir hinni hversdagslegu orrustu um hagkvæmni, framleiðni og auð.

Frjálshyggjumenn og markaðssinnar eiga stundum erfitt með að taka afstöðu gegn græðginni. Það gæti við fyrstu sýn virst vera forsenda markaðshagkerfisins að græðgi sé í eðli sínu dyggð—sem spekingar fyrri tíma hafi ýmis misskilið, eða rangtúlkað til þess að kæfa í almúganum metnað til betra lífs.

En græðgi—í þeim skilningi sem trúarbrögð og heimspeki vara við henni—hefur ekkert að gera með efnahagslegar framfarir. Það er engin græðgi fólgin í því að verða ríkur, ef ríkidæmið er uppskera þess að hafa lagt eitthvað af mörkunum sem aðrir þurfa á að halda eða kunna að meta. Það er ekki hægt að kalla það græðgi þegar einstaklingar og fyrirtæki verða rík—jafnvel forrík—við það að uppfylla þarfir annars fólks og fyrirtækja.

Græðgi er hugtak sem á fyrst og fremst við um það þegar menn verða svo helteknir af efnislegum gæðum og stöðutáknum, að þeir stytta sér leið til þess að njóta uppskeru sem þeir hafa ekki sáð til, eða sem einhver annar hefur sáð til.
Það er þess vegna ekki hægt að segja að eigendur bílaframleiðandans Volkswagen hafi endilega verið gráðugir í gegnum tíðina. Fyrirtækið var byggt upp á löngum tíma og varð stórt og ríkt. Nú lítur hins vegar út fyrir að græðgin hafi náð tangarhaldi á stjórnendum; og sökum græðginnar er fyrirtækið nú í verulegum vandræðum.

Í síðustu viku varð Volkswagen uppvíst af frámunalega bíræfnu svindli. Bílar fyrirtækisins voru forritaðir til þess að líta út fyrir standast mengunarpróf, jafnvel þótt fyrirtækinu væri fullkunnugt um raunveruleikinn væri sá að útblástur bílanna innihélt 40-falt meira af hættulegum útblástursefnum en löglegt er.

Volkswagen greip til svindlsins í þeim tilgangi að brjóta dísilbílum sínum leið inn á Bandaríkjamarkað. Sá böggull fylgdi þó skammrifi að ómögulegt reyndist að framleiða bíla sem samtímis stóðu umhverfiskröfur stjórnvalda og kraftkröfur neytenda. En af því að stjórnendur fyrirtækisins voru of óþolinmóðir til þess að horfast í augu við vandann—þá styttu þeir sér leið.

Svindlið er í raun hlægilega frumstætt. Þetta er ekki hefðbundið fyrirtækjasvindl þar sem verið er að túlka með „frumlegum hætti“ lög og regluglerðir til þess að sleppa framhjá tilgangi þeirra. Svindl Volkswagen er meira eins og svindl illmennis í teiknimynd—eitthvað sem Glanna glæp hefði getað dottið í hug. Það mætti eiginlega halda að þeir hafi fengið hugmyndina með því að horfa á Pixar myndina Cars 2, þegar illmenni með þýskulegt nafn (Prófessor Zündapp) og samverkamaður hans Axelrod reyna að grafa undan umhverfisvænni orku með því að útbúa lífrænt bensín í þykjustunni og ætla svo að sprengja það í loft upp með rafsegulbylgjum þegar heimsbyggðin fylgist með. Svindl Volkswagen fólst í því að setja hugbúnað í bílanna sem skynjaði þegar útblástursprófanir fóru fram og skilaði fölskum niðurstöðum. Blekkingarleikurinn var algjörlega sambærilegur trixinu þegar úlfurinn breytti rödd sinni til þess að þykjast vera amma. Og þetta komst fyrirtækið upp með í sex ár.

Það sem leiddi Volkswagen til þess að verða einn besti bílaframleiðandi heims var metnaður. Fyrirtækið eyðir gríðarlegum fjármunum í rannsóknir og þróun. Bílar fyrirtækisins eru frábærir og vafalaust ríkir meðal verkfræðinga fyrirtækisins almennt mikið stolt yfir vel unnu verki. Þetta góða orðspor varð til á löngum tíma og hundruð þúsund manna hafa helgað starfsferil sinn því markmiði að framleiða sem besta bíla á sem hagkvæmastan hátt undir merkjum Volkswagen.

En svo var syndinni boðið í kaffi. Einhvers staðar og einhvern tímann hafa stjórnendur fyrirtækisins ákveðið að einbeita athygli sinni frekar að excel heldur en auto-cad. Menning fyrirtækisins breyttist. Græðgin tók völdin. Skammtímasigrar fóru að trompa langtímagæði. Og nú situr Volkswagen eftir með sárt ennið. Vörumerkið er ónýtt. Heiðarlegir starfsmenn, verkfræðingarnir og vísindamennirnir, hafa verið sviknir af stjórnendum. Öllu því sem byggt var á tæpum áttatíu árum er stefnt í voða vegna græðgi og óþolinmæði forystu félagsins, sem í staðinn fyrir að horfast í augu við sannleikann völdu að reyna ljúga sig út úr honum. Í stað þess að ráðast að verkfræðilegu og vísindalegu viðfangsefni af vísindalegum heilindum, ákváðu þeir að stytta sér leið framhjá vandamálinu og lofa að segja sannleikann með lygaramerki fyrir aftan bak.

Dæmið um Volkswagen sýnir að verstu óvinir frjálshyggjunnar og markaðsfrelsis eru ekki endilega alltaf þeir sem hafa andstæð sjónarmið. Þeir sem réttlæta siðlausa hegðun og græðgi eru miklu skaðlegri. Græðgin er ekki góð. Hún er nefnilega—þvert á það sem Gordon Gekko, 50 Cent og Donald Trump halda fram—engin dyggð í kapítalísku samfélagi, heldur er hún dauðasynd.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.