Fasískt Austurríki?

Mál málanna í evrópskum stjórnmálum þessa dagana er myndun ríkisstjórnar í Austurríki. Þar stefnir í að hinn íhaldssami Þjóðarflokkur myndi stjórn með Frelsisflokki Jörgs Haider, en sú stjórn hefði ríflegan þingmeirihluta á bak við sig.

Mál málanna í evrópskum stjórnmálum þessa dagana er myndun ríkisstjórnar í Austurríki. Þar stefnir í að hinn íhaldssami Þjóðarflokkur myndi stjórn með Frelsisflokki Jörgs Haider, en sú stjórn hefði ríflegan þingmeirihluta á bak við sig. En ríki Evrópusambandsins hafa brugðist ókvæða við þessum þreifingum og segjast munu slíta stjórnmálasambandi við Austurríki komist Frelsisflokkurinn til valda. Ástæða þessara hótana eru sögusagnir um velþóknun Haiders á stjórnunarháttum Adolfs Hitlers, stefna hans í innflytjendamálum og síðast en ekki síst mikil andstaða hans við frekari samruna ríkja í Evrópu.

Full ástæða er til að varast allan uppgang fasisma og öfgastefnu í ætt við stefnu Þjóðernissósíalista í Þýskalandi fyrr á öldinni. Ekki verður beinlínis séð að stefna Frelsisflokks Haiders sé af þeim meiði, hvorki ofbeldi né ólýðræðislegir stjórnarhættir hafa komið við sögu flokksins. Þá hefur flokkurinn engin áform uppi um þjóðnýtingu eða allsherjarvald ríkisins, eins og Þjóðernissósíalistaflokkur Adolfs Hitlers. Fjölmiðlar, og ekki síst aðrir stjórnmálamenn, hafa hins vegar með ýmsum hætti dregið upp dökka mynd af Haider og Frelsisflokknum. Einn löstur Haiders þykir vera sá, að nafn hans hljómar ekki ólíkt nafni Hitlers, sérstaklega með þýskum framburði, og vekur það „skiljanlega“ ugg í brjósti margra.

Deiglan gerir síst lítið úr þeim óhug sem setur að fólki þegar orð eins og þjóðernissósíalismi – öðru heiti nasismi – kemst á kreik. Flokkur Haiders stendur vissulega fyrir stefnu sem telja verður nokkuð róttæka en að halda því fram að flokkurinn sé fasískur, eða arftaki þýska Nasistaflokksins, er kannski orðum aukið. Það er einnig mjög varasamt að nota slík hugtök með jafn óvarlegum hætti og gert hefur verið í þessu máli. Úlfur, úlfur! hrópaði smalinn og afleiðingarnar eru þekktar.

Raunverulegir öfgahópar eiga greiðastan aðgang að kjósendum, þegar óskir þeirra síðarnefndu um áherslubreytingar hafa verið hunsaðar. Ekki bætir úr skák þegar það er gert í krafti utanaðkomandi þvingana, eins og þeirra sem Evrópusambandið reynir nú að beita Austurríkismenn. Þótt gott eitt vaki fyrir mönnum, er ekki sama hvaða ráðum er beitt. Oft er olía í vatnsbrúsum grandalausra.

Deiglan hefur enga trú á því að fasískt Austurríki sé í fæðingu. Aðaláhyggjuefnið í þessu máli er fyrst og síðast framganga Evrópusambandsins. Nái þessar þvingunaraðgerðir fram að ganga, hlýtur það að vekja íslenska Evrópusinna til umhugsunar um eðli og tilgang sambandsins. Ef miðevrópsk þjóð þarf að sæta slíkum hótunum, hvað verður þá um útkjálkavillimenn eins Íslendinga þegar þeir valda undrun og hneykslan í Brüssel?

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.