Mannslíf og meistaratitlar

Margir eru um hituna á flugeldamarkaðnum. Fyrir mér er það þó engin spurning hvort ég versla við til björgunarsveitina eða íþróttaliðið mitt. Öðrum ráðlegg ég að meta hvernig peningunum er best varið og hvernig er hægt að hámarka ánægjuna af bæði flugeldum og íþróttum.

Jólin eru tími mikillar þenslu. Á aðventunni rís smáverslun upp í hæstu hæðir á meðan við kaupum jólagjafirnar. Matarinnkaupinn eru gríðarleg og því fer vísitölukviðurinn ekki varhluta af jólaþenslunni. Eftir jólin hefjast svo útsölur með enn frekari kaupgleði.

Þarna á milli jólainnkaupa og útsöluæðis tekst okkur svo að troða inn því sem að margra mati er skemmtilegasti útgjaldaliður ársins. Flugeldarnir eru nauðsynlegur hluti áramótagleðinnar sem höfum við löngum lagt mikinn metnað í. Einkasýningar heimilanna tvinnast saman svo úr verður ein allsherjar risasýning í hverju byggðarlagi. Eflaust eru ekki margar sýningar sem slá þeim við, m.v. höfðatölu að sjálfsögðu.

Þrátt fyrir að við eyðum/verjum mismiklu í skotelda er um að ræða gríðarlega upphæð ár hvert. Nú orðið eru margir um hituna. Þar sem björgunar- og hjálparsveitir voru áður einráðar á markaðnum eru nú margvíslegir aðilar komnir inn til viðbótar. Íþróttafélögin eru þar stærst.

Í kringum flugeldasölunna er oft ýmislegt gert fyrir viðskiptavinina. Þeim stærstu er iðulega boðið sérstaklega til að velja úr stærstu tertunum og bombunum. Fylgja þá yfirleitt uppáhellingar til að liðka fyrir viðskiptunum svo úr verður hin mesta skemmtan og góður félagsskapur. Ekkert nema gott um það að segja því auðvitað er skemmtilegt að styrkja íþróttafélagið sitt og styðja við bakið á því.

Ég er hins vegar í hópi þeirra sem finnst alltaf aðeins eins og íþróttafélögin séu að laumast í vasa björgunarsveitanna. Auðvitað er það ekki þannig, markaðurinn virkar bara svona og óeðlilegt væri ef ákveðnir aðilar hefðu einkarétt á honum.

Björgunar- og hjálparsveitir landsins vinna með ólíkindum óeigingjarnt starf í okkar þágu. Það er mjög eðlilegt að það gleymist þeim sem búa í stærri sveitarfélögum á SV-horninu og þurfa lítið á þær að treysta og verða aðeins varar við þær í fréttum og annálum. Það er eðlilegt að þeim standi nær að bjarga liðinu sínu frá falli eða hjálpa þeim að fá betri leikmenn til að gera atlögu að titlinum.

Ég vil hvetja alla sem á annað borð ætla að fjárfesta í skoteldum þetta árið að beina viðskiptum sínum til björgunarsveitanna. Til að styrkja íþróttaliðið á svo auðvitað að kaupa miða, trefil og húfu, mæta á völlinn og öskra sig hásan. Þannig getum við hugsað með okkur að við eigum hlutdeild bæði í velgengni liðsins okkar og því þegar við heyrum fréttir af endalausum afrekum björgunarsveitanna.

Gleðilegt ár og áfram ÍBV!

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)