Leiðtogar í enska boltanum

Hjá íþróttaliðum jafnt sem fyrirtækjum skipta sterkir leiðtogar miklu máli. Þeir sem geta drifið samstarfsmenn sína áfram til betri verka og árangurs en ella eru gulls ígildi. Hvernig er þessu háttað hjá helstu félögunum í enska boltanum í dag?Á undanförnum misserum hefur lið Manchester United átt í eins konar tilvistarkreppu þar sem árangur liðsins hefur ekki verið eins góður og menn hafa átt að venjast á þeim bænum. Fyrir stuttu yfirgaf einn helsti leiðtogi liðsins það og verður fróðlegt að fylgjast með því hvort þetta muni skapa upphaf betri tíma hjá félaginu eða áframhaldandi kreppu.

Hvort sem litið er á fyrirtæki, íþróttalið eða annað form af hópum sem skarað hafa framúr þá er iðulega að finna í þeim einn afgerandi leiðtoga. Hins vegar kemur það ekki alltaf í ljós fyrr en leiðtoginn hverfur á braut hversu mikilvægur hann var viðkomandi heild. Dæmi um þetta er að finna víða.

Margir segja að upphaf niðursveiflutímabils Man Utd hafi verið þegar Alex Ferguson sagðist ætla að hætta að þjálfa liðið. Þetta skapaði óvissu meðal leikmanna sem ekki virtist hafa tekist að eyða, jafnvel þótt Sir Alex endurskoðaði ákvörðun sína. Þótt hann sé óumdeildur stjórnandi Man Utd þá er hins vegar ekki nóg að hafa sterkan leiðtoga utan vallarins, heldur er nauðsynlegt að annar slíkur sé til staðar í liðinu sjálfu. Einhver sem stjórnar inni á vellinum.

Þegar litið er á hvaða leikmenn hafa leitt lið Man Utd inni á vellinum á undanförnum fimmtán árum eða svo og þeir bornir saman við núverandi fyrirliða liðsins sést e.t.v. vandamál liðsins í hnotskurn. Helstu fyrirliðar liðsins á undan Gary Neville voru Roy Keane, Peter Schmeichel, Eric Cantona og Bryan Robson. Þeir fjórir síðasttöldu eru án vafa meðal þeirra manna sem hvað mest hefur kveðið að i ensku knattspyrnunni á síðustu tveimur áratugum eða svo. Því miður fyrir áhangendur Man Utd er enginn slíkur leikmaður til staðar í liðinu í dag.

Það er skemmtilegt að skoða önnur topplið á Englandi með þetta sama atriði í huga. Arsenal seldi leiðtoga sinn, Patric Vierra, til Juventus síðastliðið sumar. Arsenal hefur í kjölfarið átt erfitt uppdráttar og Juventus hefur að sama skapi átt eitt besta tímabil liðsins í fjölda ára (sem þó hafa verið félaginu gjöful). Liverpool hefur leiðtoga sinn í Steven Gerrard sem vissulega er bakkaður upp af öflugum stjóra í Rafael Benitez. Þrátt fyrir að Chelsea sé stjörnum prýtt í flestum stöðum, þá hefur liðið einn óumdeildan leiðtoga á vellinum í John Terry. Að auki hefur José Mourinho tekist vel upp í því að gera stjörnunum sínum grein fyrir því að hann og enginn annar stjórnar liðinu.

Leiðtogauppbygging Chelsea liðsins með dúettinn Terry og Mourinho í fararbroddi minnir um margt á Man Utd í lok síðustu aldar, þar sem Ferguson, Schmeichel og reyndar Keane mynduðu kjarnann. Meðan ekki hriktir í valdastoðum Mourinho hjá Chelsea er lítil von til þess að þeim fatist flugið. Gerist það hins vegar gæti fjandinn orðið laus, því það er ekki sjálfgefið að félag með ofgnótt góðra leikmanna nái árangri.

Helsta von aðdáenda annarra liða en Chelsea í enska boltanum er því að Mourinho missi tökin á leikmannahópi sínum. En hvenær það mun gerast er erfiðara að segja til um. Kannski í febrúar…

Latest posts by Birgir Hrafn Hafsteinsson (see all)