Danmörk er uppseld

Fréttir af kaupum Íslendinga á erlendum fyrirtækjum berast reglulega til landsins. Okkur þykir þetta sjálfsagt en erlendis velta menn því fyrir sér hvernig smáþjóð geti keypt upp heilu löndin. Helgarnestið einbeitir sér að útrásinni í dag.

,,Það er örugglega bara einn sími í Færeyjum,” sagði hann og allir hlógu. ,,Þið vitið þar sem er svarað Færeyjar góðan dag.” Þannig hófst stutt samtal um frændur vora og hversu miklir sveitamenn þeir eru. Einhvern veginn kom það ekki til tals hvort aðrar þjóðir hugsi eins um okkur, stærstu smáþjóð í heimi.

Í Fréttablaðinu fyrir nokkru síðan birtist lítil en þó afar athyglisverð grein eftir athafnamanninn Friðrik Weisshappel þar sem hann fjallar um hugarfar Dana. Flestir kannast við þessa lýsingu hans á dönsku þjóðfélagi þar sem þeir sem skara fram úr á einhvern hátt eru litnir hornauga. Hann minntist á það sem hann kallaði Aumingjalögin, nokkurs konar samfélagsreglur Dana. Ekki rembast, ekki reyna of mikið, ekki fara of langt fram úr náunganum, ekki vera betri en hinir. Hjakkaðu bara í sama fari því þá eru allir sáttir.

Kaffihúsið hans Frikka er ekki ný hugmynd segja Danirnir. Hverjum hefur ekki dottið í hug að sameina kaffihús, þvottavélar og gamlar bækur? Íslendingurinn spýtti hins vegar í lófana og dreif í þessu. Og þannig erum við bara, þessi litla en þó stórhuga þjóð sem skreið upp úr moldarkofunum fyrir örfáum áratugum.

Dönum finnst ef til vill ástæða til að óttast þessa fyrrum nýlenduþjóð sína sem skyndilega veður uppi og kaupir hvert fyrirtækið á fætur öðru. Stolt Kaupmannahafnar til áratuga, verslunarmiðstöðin Magasin du Nord, er nú í eigu Íslendinga. Sömu menn keyptu verslunarhúsið Illum í vikunni. Bankar og verðbréfafyrirtæki flagga skyndilega bláum lit í annars rauðhvítum fána, flugfreyjur bjóða ,,Góðan dag” og klappa þegar þær lenda í Keflavík.

Og þetta finnst okkur sjálfsagt. Við skiljum hreinlega ekki þessar meldingar erlendra blaða um illa fengið fé og lántökur íslenskra fyrirtækja. Enskir hafa áhyggjur og okkur er bara alveg sama. Hvað með það þótt eitt virtasta dagblað heims skrifi reglulega um íslenska hagkerfið, um bóluna sem gæti sprungið hvenær sem er, um bankana sem kaupa og kaupa og jafnvel leðurklædda kaupsýslumanninn sem þeim finnst frekar töff. Öfundsýki hrópum við í kór og setjum Jórvíkinga í sama flokk og Norræna.

Ég velti því stundum fyrir mér hvort blaðamenn Financial Times sitji yfir rjúkandi heitu tei og afmyndist af hlátri þegar þeir tala um þessa Íslendinga. ,,Er ekki bara einn sími á Íslandi,” segja þeir og skella upp úr. ,,Þið vitið þar sem er svarað Ísland góðan dag.”

Sumarið er tíminn sagði skáldið og vissulega ættum við að vera stolt af litlu eyjunni okkar. Við förum stundum hratt yfir en einhvern veginn lendum við alltaf á fótunum. Að minnsta kosti hingað til. Deiglan óskar lesendum sínum ánægjulegrar helgar.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)