Skotárásir í skólum

Skotárásirnar í Erfurt í Þýskalandi og Columbine í Bandaríkjunum bornar saman og leitað mögulegra skýringa.

Fyrir nokkrum dögum réðst nemandi inn í framhaldsskóla í Erfurt í Þýskalandi, skaut 17 manns til bana og svipti sig síðan lífi. Þremur árum áður höfðu tveir nemendur myrt 13 manns í Columbine-skólanum í Bandaríkjunum og framið svo sjálfsmorð.

Í bæði skiptin voru árásirnar gerðar í hefndarskyni. Morðingjarnir í Columbine, Eric og Dylan, töldu sig eiga harma að hefna vegna stríðni sem þeir höfðu orðið fyrir í skólanum. Þeir vildu aðallega ná sér niður á þeim nemendum skólans sem voru vinsælir og áberandi. Robert, morðinginn í Erfurt, hafði fallið á mikilvægu prófi og síðar verið rekinn úr skólanum, m.a. vegna ókurteisi við kennarana. Árás hans beindist fyrst og fremst að kennurum skólans.

Árásirnar áttu sér í báðum tilvikum aðdraganda. Talið er að Eric og Dylan hafi skipulagt morðin í að minnsta kosti ár. Þeir bjuggu til sprengjur og áttu í litlum erfiðleikum með að útvega sér byssur. Robert hafði verið meðlimur í skotklúbb í rúmt ár og hafði útvegað sér leyfi fyrir þeim byssum sem hann notaði við verknaðinn.

Eftir morðin í Columbine var ákaft leitað mögulegra skýringa. Margir bentu á þá staðreynd að Eric og Dylan voru heillaðir af ofbeldi. Þeir dáðu ofbeldisfullar kvikmyndir og tölvuleiki og á heimasíðu annars þeirra mátti sjá að þeir töldu sig geta unnið bug á flestum vandamálum daglegs lífs með ofbeldi Aðrir skelltu skuldinni á bandarískt samfélag. Löggjöf um skotvopnaeign var harðlega gagnrýnd, sem og auðvelt aðgengi að ofbeldisfullu afþreyingarefni.

Þessar skýringar eiga aðeins að hluta til varðandi morðin í Erfurt. Þrátt fyrir að Robert hafi einnig spilað ofbeldistengda tölvuleiki og haft áhuga á skotvopnum, bendir ekkert til þess að hann hafi verið gagntekinn af ofbeldi á sama hátt og Eric og Dylan. Þýskt þjóðfélag er mjög ólíkt því bandaríska og þar gilda ströng lög um skotvopnaeign.

Á undanförnum árum hafa orðið fjölmargar skotárásir í skólum. Þær vekja iðulega mikla athygli fjölmiðla en skapa um leið hættuleg fordæmi. Hugsanlega er þetta skýringin á því að Robert sá skotárás sem mögulega leið til hefnda. Morðin í Columbine hafa haft í för með sér margar svipaðar hefndarárásir þar sem ráðist er inn í skóla með skotvopnum. Hið sama virðist hafa átt sér stað eftir árásina í Erfurt, en nokkrum dögum eftir morðin þar, skaut nemandi í Bosníu kennara sinn til bana. Robert, eins og Eric og Dylan, átti sér þann draum að verða frægur. Því miður tókst honum það.

Drífa Kristín Sigurðardóttir skrifar (Sjá alla)