Þú ert rekinn!

TrumpUndanfarið hafa Íslendingar fylgst með einum vinsælasta raunveruleika sjónvarpsþætti seinni tíma eða Lærlingurinn, þar sem okkur er boðið að fylgjast með Donald Trump láta einstaklinga leysa ákveðnar þrautir. En afhverju er Trump að þessu, eru ekki til nógu góðar ráðningastofur?

TrumpUndanfarið hafa Íslendingar fylgst með einum vinsælasta raunveruleika sjónvarpsþætti seinni tíma eða Lærlingurinn (“The Apprentice”), þar sem okkur er boðið að fylgjast með Donald Trump láta einstaklinga leysa ákveðnar þrautir. Sigurverðlaunin eru ekki af verri endanum eða stjórnunarstaða í einum af fyrirtækjum Trumps.

Trump hefur alltaf vakið töluverða athygli og þótt sérstakur, alveg frá því hann tók við veldi föður síns, hefur hann þótt sérstakur fyrir þær sakir hversu mikið hann hefur haldið sjálfum sér á lofti og eigin nafni. Ekki hefur þó allt sem Trump hefur snert breyst í gull og átti hann á sínum tíma erfitt uppdráttar. Út fyrir hina glæstu mynd sem hann kynnir á sjálfum sér í þessum þáttum sínum berst hann nú við að endurskipuleggja gjaldþrota hótel og spilavíti sín. Áður hefur hann lent í vera næstum farinn á hausinn, en náði með mikilli vinnu að reisa veldi sitt við aftur, sem hefur aldrei verið “þekktara” en einmitt núna.

Annar milljarðamæringur Branson hefur vakið álíka mikla athygli og Trump. Branson hefur stundum verið kallaður breski erkifjandi Trump. Ólíkt Trump, þá komst hann í ríkidæmi úr algjörri fátækt og líkt og með suma aðra sem hafa efnast á sölu á tónlist, var sagt um hann að ekki hefði allt verið með felldu á upphafsárum fyrirtækisins hans. Þeim kafla lauk og náði hann og merki hans Virgin, sem hann skeytir fyrir framan öll fyrirtæki sín, náð gríðarlegum vinsældum. Branson hefur nú fetað í fótspor Trumps og er kominn með eigin þátt, þar sem ungt fólk fær að spreyta sig. Ólíkt Trump er Branson þáttakandi í fjörinu og fylgist ekki með úr loftkældu rými, og er alveg óhræddur við að taka í hendurnar á fólki.

En hvað hafa þessir kallar að gera með að eyða tímanum sínum að hlaupa um með ungu fólki og að prófa það. Hafa þessir menn ekki nóg að gera? Eru ekki til ráðningarstofur sem geta fundið hæft fólk, án þess að þetta komi allt fram í sjónvarpi. Svarið er: Almannatengsl (PR) Báðir hafa byggt upp mjög sterk merki sem tengjast nöfnum sínum. Þættirnir eru einfaldlega gullið tækifæri fyrir þessa aðila að kynna nöfn sín enn frekar. Báðir eiga það sameiginlegt að nota hvert tækifæri til að koma nöfnum fyrirtækja sinna á framfæri með ýmsum ráðum. Branson með ýmsum ótrúlegum aðferðum, eins og geimferðir (næsta) og flug í loftbelgjum.

Eitt það besta við þessa þætti er hvað þeir sýna á glöggan hátt hvað viðskipti eru mannleg. Að baki stórum ákvörðunum eru einstaklingar sem eru mishæfir til að taka ákvarðanir fyrir fyrirtækin. Allt frá því að hanna misheppnaðar Pepsí-flöskur yfir í að óhreinka hendur sínar í hundaþvotti. Við hin sem höfum ekki tækifæri til að stjórna, sjáum að við gætum allt eins gert þetta, svona rétt eins og við getum svarað spurningunum úr stofunni í “Viltu vinna milljón”. Um leið og fólk sér og lærir af þessum þáttum eru margir líklega að missa af stærsta lærdómnum, þeim sem skiptir þá milljarðamæringana máli, og það er ekki að ráða til sín hæfan einstakling, en það er mikilvægi almannatengslanna. Þættirnir sjá til þess að þeir geta selt “Trump” jakkafötin og íbúðina á enn hærra verði en áður. Fólk er jú farið að þekkja vöruna og þann sem framleiðir hana.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.