Drekinn í austri

Ekki verður hjá því komist að beina sjónum að miklum hagvexti í Kína undanfarin ár. Er kommúnisminn þarna að sanna meint ágæti sitt eða er þetta bara dúlbúinn kapítalismi?

Í Kína búa nú um 1300 milljónir manna og það er því fjölmennasta land í heimi. Mikill hagvöxtur hefur verið í Kína undanfarin ár og landið virðist hægt og rólega vera að opnast meira fyrir umheiminum.

Rúmlega tuttugu ár eru liðin frá því að Kínverjar áttuðu sig á því að sovéska leiðin var ekki alveg að virka og ákváðu að færa sig nær markaðshagkerfi, sem samt er að sjálfsögðu fullkomlega miðstýrt eins og lög gera ráð fyrir. Þetta virðist hafa verið skynsamlega ákvörðun því kínverska hagkerfið fer nú hratt upp listann yfir þau stærstu og áætlaður hagvöxtur þar á þessu ári er um 9,1%.

Ein af ástæðum þess að Kína hefur gengið svona vel að koma undir sig fótunum er sú að útflutningur þeirra hefur verið og er enn mjög mikill. Fjölmörg stór fyrirtæki í heiminum nýta sér lág laun í Kína til þess að lækka kostnað, sérstaklega með því að framleiða þar hluti sem krefjast mikils vinnuafls. Þarna ber sérstaklega að nefna vefnaðarvöru af ýmsu tagi og að sjálfsögðu skófatnað, en einnig framleiða verksmiðjur í Kína allt frá herðatrjám til raftækja.

Önnur stór ástæða velgengninnar í Kína, sem reyndar tengist einnig útflutningi, er kínverski gjaldmiðillinn sem nefnist yuan. Gengi flestra gjaldmiðla í heiminum er fljótandi, sem þýðir í raun að það er breytilegt eftir aðstæðum hverjum sinni, en gengi kínverska gjaldmiðilsins er hins vegar fest við gengi Bandaríkjadals.

Þetta hefur tvennt í för með sér. Annars vegar hreyfist gengi hins kínverska yuan alltaf með Bandaríkjadalnum og fer því lækkandi núna eftir því sem hann veikist. Hins vegar er yuaninn festur við dalinn á gengi sem er að margra mati of lágt miðað við styrk kínverska hagkerfisins. Þetta veitir vörum sem framleiddar eru í Kína og fluttar til annarra landa í raun ósanngjarnt forskot á aðrar vörur, þar sem þær eru hlutfallslegar ódýrari en ef gengi yuansins væri fljótandi.

Kínversk stjórnvöld hafa því undanfarið verið undir töluverðum þrýstingi frá WTO (World Trade Organization), Bandaríkjunum og Evrópusambandinu um að hætta að tengja yuaninn við Bandaríkjadal og leyfa genginu að stilla sig af sjálft. Þetta er reyndar frekar sanngjörn krafa, því eins og áður segir er kínverska hagkerfið orðið stórt og öflugt og þarf því varla á slíkum ráðstöfunum að halda.

Það er hins vegar ekki allt dans á rósum í Kína, því þar hefur nú myndast yfirstétt sem samanstendur af fleirum en þeim sem eru innarlega í kommúnistaflokknum. Þetta hefur líka orðið til þess að sífellt stærra bil verður milli ríkra og fátækra í landinu og nú lifa um 10% allra íbúa Kína undir fátæktarmörkum. Einnig hefur Kína enn ekki tekist að fá Evrópusambandið til þess að aflétta vopnasölubanni sem sett var á skömmu eftir fjöldamorðin á Torgi hins himneska friðar, árið 1989. Viðræður um þetta mál hafa staðið yfir í nokkurn tíma og upp úr þeim slitnaði síðast í gær.

Það er ljóst að leið kínversku þjóðarinnar mun liggja upp á við um ókomin ár en menn virðast þó ekki sammála um hvort líta beri á þessu sókn Kína sem tækifæri eða ógn. Enn sem komið er virðist þetta vera af hinu góða og þá sérstaklega fyrir bandaríska fjárfesta sem flykkjast nú til landsins í leit að nýjum fyrirtækjum til þess að fjármagna – ótal gróðamöguleikar blasa við. Þetta gæti þó allt breyst á svipstundu, því hætt er við því vestræn ríki fari í auknum mæli að líta á stórsókn Kína sem ógn við stöðugleika í heiminum – og þá er voðinn vís.

Latest posts by Davíð Gunnarsson (see all)