Kastljósið á Kristjáni

Það hefur enginn farið varhluta af umræðu undanfarinna daga um framkomu Kristjáns Jóhannssonar á tónleikum langveikra barna sem og umfjöllun um mál hans í Íslandi í Bítið á Stöð 2 og Kastljósi Sjónvarpsins. Burtséð hvað fólki finnst um þetta tiltekna mál, er rétt að nota tækifærið og skoða þetta mál betur og í víðara samhengi.

Vissulega var framkoma Kristjáns í sjónvarpinu ekki til fyrirmyndar en í ljósi þess hvernig umræðan hefur þróast er ef til vill rétt að nota tækifærið til að skoða hvað felst í styrktartónleikum. Nauðsynlegt er skoða hlutina í víðara samhengi en eingöngu út frá því hvort listamenn gáfu vinnuna sína eða ekki. Það liggur ljóst fyrir að kostnaður við þátttöku Kristjáns í umræddum tónleikum var að minnsta kosti sjö hundruð þúsund krónur en við getum hér látið liggja á milli hluta hvort eitthvað af þessari upphæð eða umfram hana kom beint í hlut Kristjáns. Aftur á móti er áhugavert að velta því fyrir sér hvort almenningur geti gert þá kröfu á listamenn að þeir gefi vinnuna sína.

Ekkert er ókeypis í dag. Málið snýst um það að ágóði verði af dæminu sem svo rennur til þess félags/málefnis sem um ræðir. Að halda tónleika er bara ein leið til að safna fé til styrktar málefnum. Hvort sem félög selja geisladiska, jólakort, eru með símasafnanir eða aðrar fjáraflanir, þá kostar þetta allt eitthvað. Það kostar að senda SMS í ýmsum símakosningum. Iðulega rennur helmingur til styrktar góðs málefnis en afgangurinn fer til símafélagsins. Ef þú kýst að sameina styrk og það að fá eitthvað í staðinn, þá ferðu á svona tónleika, kaupir jólakort og svo framvegis. En ekki búast við því að jólakortin hafi verið prentuð frítt, hönnunin frí og pappírinn gefinn. Þetta snýst allt um ágóða umfram kostnað, hvernig sem á málið er litið. Hversu hár kostnaðurinn er, veltur svo á þeim sem standa fyrir viðeigandi söfnun. Ef þú vilt styrkja gott málefni og ekki fá neitt í staðinn, þá leggur þú framlagið beint inn á reikning viðkomandi málefnis eða félags.

Í raun má segja að vinnuveitandi listamannanna sé að hluta til almenningur sem kaupir sig inn á viðburði þeirra sem og verk þeirra. Njóti listamaður almennrar hylli kemst hann í þjóðfélagslega stöðu sem gerir honum kleift umfram aðra að láta til sín taka í samfélaginu og sinni list. Það er því eðlilegt að samfélagið geri meiri kröfur á þá listamenn sem þannig er ástatt um að þeir noti vinsældir sínar til góðra verka.

Aftur á móti er ljóst að mikil krafa er gerð á listamenn þegar kemur að málefnum sem þessum og ekki óvarlegt að áætla þeir gætu margir hverjir haft fullt atvinnuleysi af því að sinna slíkum beiðnum. Það sem hins vegar gleymist oft er sú staðreynd að listamennirnir hafa atvinnu af því að iðka sína list rétt eins og húsverðir hafa atvinnu af því að sjá um húsnæði. En hætt við því, með fullri virðingu fyrir húsvörðum, að fáir vildu borga sig inn á viðburði þar sem húsverðir sinntu sínum daglegu störfum. Vissulega eru mörg dæmi þess að aðrar starfsstéttir gefi vinnu sína við viðburði eins og styrktartónleika, en aðkoman er önnur.

Af öfansögðu er ljóst að listamaðurinn þarf að finna eitthvað jafnvægi milli þess að stunda sína atvinnu og að uppfylla kröfur “hluthafanna” (almennings) með því að gefa til baka til samfélagsins. En í þessu sem öðru er eðlilegt að það sé listamaðurinn en ekki eitthvað fólk úti í bæ sem finni punktinn þar sem jafnvægi ríkir með því að finna út hvar og hvenær sé best að hann gefi vinnu sína og hversu oft hann kýs að gera svo.

Í þessu tiltekna máli þar sem Kristján Jóhannsson kemur við sögu, virðist einna helst hafa farið fyrir brjóstið á landanum að fólk gerði ráð fyrir því að öll umgjörð tónleikanna að meðtalinni vinnu listamannanna hafi verið frí. Fólk grípur því andann á lofti þegar fréttist af því að sá aðgangseyrir sem greiddur var að tónleikunum hafi ekki runnið óskiptur til þess málefnis sem um ræðir. Það gleymist reyndar oft að að baki klukkutíma tónleikum hjá tónlistarmönnum liggur fjöldinn allur af æfingum og vinnu og því er ekki sanngjarnt að halda því fram að þeir séu að fá “tugi þúsunda fyrir nokkur lög og nokkra mínútna vinnu”.

Kjarninn í málinu liggur ef til vill í því hvernig tónleikar sem þessir eru auglýstir, hvað er sagt í fjölmiðlum um tónleikanna og þar með hvernig almenningur og sérstaklega þeir sem borga sig inn á tónleikana skynja uppsetningu þeirra. Það að haldnir séu styrktartónleikar segir ekkert um hversu hátt hlutfall tekna fellur í skaut þeirra sem njóta eiga góðs af tónleikunum. Það sama á við þegar símasölufólk hringir heim til þín og býður til sölu varning til styrktar góðu málefni. Okkur er öllum hollt að hugsa gagnrýnið þegar kemur að því að taka ákvörðun um að styrkja gott málefni. Erum við að kaupa vöruna eða borga okkur inn á tónleika eingöngu til þess að styrkja málefni eða einnig til þess að fá eitthvað í staðinn og slá tvær flugur í einu höggi? Ef okkur er efst í huga að styrkja málefnið, þá er sem fyrr segir besta leiðin að leggja fjárhæðina beint inn á reikning viðkomandi. En jafnvel í því tilfelli er ekki tryggt að öll fjárhæðin fari beint til styrktar málefninu, heldur er líklegt að einhver hafi atvinnu sína af því að vinna fyrir viðkomandi félag, og greiða þarf þeirri manneskju laun, o.s.frv.

Það er ljóst að í þessu tilfelli sáu tónleikahaldarar sér hag í því að fá Kristján til liðs við sig jafnvel þótt greiða þyrfti dágóða summu fyrir. Ef tónleikahaldarar mátu það svo að þátttaka Kristjáns yrði meira virði en sú upphæð sem greiða þyrfti fyrir að hafa hann á dagskránni, þá er sjálfsögðu ekki við Kristján að sakast þótt hann hafi þegið greiðslu fyrir.

Að lokum. Við ættum öll sem höfum sótt styrktartónleika í gegnum árin að spyrja okkur að því hvort það hefði breytt einhverju um ákvörðun okkar að sækja viðkomandi tónleika, ef við vissum fyrirfram að þeir sem fram komu fengu greitt fyrir.

Latest posts by Birgir Hrafn Hafsteinsson (see all)