Verkfall – tækifæri til breytinga

Nú hafa kennarar kosið um það hvort þeir fallist á miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Allt útlit er fyrir að kennarar haldi áfram í verkfalli frá og með morgundeginum. Þetta ástand mála í íslensku skólakerfi er algjörlega óviðunandi. En jafnvel þótt samningsaðilar komist að einhvers konar samkomulagi í þetta sinn er ljóst að verulega róttækra breytinga er þörf til að ástandið verði ásættanlegt.

Mestu áhyggjur kennaraforystunnar um þessar mundir virðast felast í einhvers konar ótta um að almenningur haldi að kennarastarfið sé ekki nógu erfitt. Þeirra barátta snýst fyrst og fremst um að stilla upp sem flestum verkþáttum og fara fram á að borgað sé fyrir hvern þeirra. Allt tal um löng sumarfrí og stuttan vinnudag kennara er núorðið flokkað sem atvinnurógur, fordómar eða þaðan af verra.

Þrátt fyrir þetta má draga í efa að þótt kennarastarfið sé krefjandi að það sé í raun mikið erfiðara en önnur störf sem fólk vinnur ókveinandi, jafnvel fyrir töluvert lægri laun. Þeir sem vinna í einkageiranum kæmust aukinheldur ekki langt ef þeir heimtuðu nýja kjarasamninga við hverja ábyrgðaraukningu sem þeim er falið. En hjá kennaraforystunni virðist allt snúast um að telja til mínútna og klukkutíma, króna og aura, hvert einasta viðvik sem unnið er í kennslu, undirbúningi, símenntun eða á hugflæðisfundum.

Því miður virðist sem það allra síðasta á forgangslista kennaraforystunnar sé að bæta menntun í landinu. Allt annað hefur forgang umfram það og þeir berjast harðast gegn þeim breytingum sem stuðla að því að auka samkeppni milli skóla eða innan kennarastéttarinnar. Hin ófrávíkjanlega krafa um að svokallaður launapottur verði felldur á brott er til marks um þetta.

Kennaraverkfallið nú býður upp á tækifæri til að endurmeta stöðu grunnsólamenntunar í landinu. Ef menn hafa kjark til þess að grípa þetta tækifæri má vera að verkfallið sé lán í óláni. Sé undirstaða grunnskólanna á Íslandi skoðuð kemur í ljós að engin ástæða er til þess að hér ríki ófremdarástand til langs eða skamms tíma.

Á hverju ári sækja mun fleiri um vist í Kennaraháskólanum en fá aðgang. Þetta bendir til þess að mjög margt ungt fólk sé tilbúið að starfa við kennslu þótt engum detti í hug að það sé sökum þess að þeir telji að það sé leið til ríkidæmis. Fjöldi fólks starfar á vettvangi sem býður upp á takmarkaða tekjumöguleika sökum þess að það hefur valið að láta fleira en peninga ráða því hvaða stefnu það tekur í lífinu. Vitaskuld er enginn að ætlast til þess að kennarar lifii að fordómi Díónýsusar en það er mjög óliklegt að margir þeirra geri sér vonir um að vera með sex hundruð þúsund krónur í mánaðarlaun (nema þeir taki að sér að vera formenn Kennarasambandsins).

Vandmálið er að þegar ungir kennarar koma inn í stéttina mætir þeim bölmóðsstemmning í flestum skólum. Breytingum og nýjungum er mætt með tortryggni. Þetta er langvarandi ástand sem þarf að lagfæra. Kjaradeilurnar núna, og áherslur kennara í þeim, eru fyrst og fremst einkenni á þessum grunnvanda.

Líklegast væri besta að setjast við teikniborðið og hanna skólakerfið upp á nýtt. Ráða kennara inn í skólana á nýjum forsendum og tryggja samkeppni. Í samkeppni gefst lítið ráðrúm til þess að berjast gegn skynsamlegum breytingum. Vera má að grípa þurfi til erfiðra og umdeildra aðgerða til þess að koma slíkum breytingum í gegn en nú er hárréttur tími til slíkra breytinga.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.