Viðsnúningur hjá Íslandssíma

Á stuttum tíma hefur orðið ótrúlegur viðsnúningur í rekstri Íslandssíma. Hverjar skyldu ástæður þess vera, hvað hefur breyst hjá fyrirtækinu?

Það er ekki langt síðan að engin var maður með mönnum nema hann væri starfsmaður í internetfyrirtæki og fengi megnið af launum sínum greidd með kaupréttarsamningum. Þá gátu margir reiknað sér til að þeir ættu andvirði tuga milljóna vísa þegar þeir innleystu hagnaðinn og margir voru duglegir við að taka út sæluna fyrirfram og standa nú eftir með miklar skuldir eftir gríðarlegt verðfall á hlutabréfum hátæknifyrirtækja.

Íslandssími er eitt af þeim fyrirtækjum sem hvað verst fór út úr niðursveiflunni á hátæknimarkaðnum á Íslandi og síðasta haust var útlitið hjá Íslandssíma orðið mjög svart og raddir á fjármálamarkaði voru einróma um að framtíð þess væri engin – of miklu fjármagni hafði verið sóað á of skömmum tíma.

En þá vildi það til að Óskar Magnússon var ráðinn sem forstjóri fyrirtækisins. Í ljós hefur komið að þessi ráðning var Íslandssíma mjög til happs og neytendum á íslenskum fjarskiptamarkaði til heilla. Á þeim stutta tíma sem Óskar hefur stjórnað fyrirtækinu hefur reksturinn gjörsamlega snúist við og viðskiptavinafjöldinn vaxið mjög. Ástæðan er sennilega sú að í stað þess að áherslan í markaðssetningu fyrirtækisins sé á fyrirtækið sjálft er nú lögð áhersla á þjónustuna og þann virðisauka sem boðið er upp á fyrir kúnnann. Þetta er kannski gamaldags miðað við hasarinn í hátæknigeiranum – en engu að síður hárrétt mat á þörfum viðskiptavinarins. Hér hefur því forstjóri úr “gamla” hagkerfinu tekið við og breytingin er augljós. Í stað sjálfhverfrar áherslu á eigið ágæti leggur Íslandssími nú áherslu á hin gömlu góðu sannindi um að gera viðskiptavininum til hæfis.

Síðasta milliuppgjör Íslandssíma sýnir að fyrirtækið er farið að sýna jákvæða EBITDA afkomu (afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta) upp á sex milljónir króna. Þessi viðsnúningur er mikið gleðiefni fyrir neytendur á fjarskiptamarkaði því Íslandssími er á góðri leið með að verða raunverulegur valkostur við Landssímann á flestum sviðum fjarskipta.

Viðsnúningurinn sýnir einnig að góð stjórnun verður seint ofmetin í fyrirtækjum. Óskari Magnússyni hefur tekist að snúa félagi sem fæstir höfðu trú á fyrir skemmstu upp í arðbært og spennandi fyrirtæki á örfáum mánuðum. Það er því ástæða til þess að óska Íslandssíma og landsmönnum öllum til hamingju með þennan árangur og þá gæfu að hafa svo öflugan mann í forystu hjá Íslandssíma.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.