Baráttan fyrir niðurgreiðslum

Fyrir skömmu voru opnuð tilboð hjá Ríkiskaupum í viðamikil viðgerðarverkefni á varðskipunum Ægi og Tý. Í ljós kom að pólsk skipasmíðastöð bauð lægst í viðgerðir á báðum skipunum. Pólverjarnir buðu að gera við skipin fyrir 115 milljónir kr. á meðan lægsta tilboðið sem barst frá íslenskum aðila hljóðaði upp á 157 milljónir. Viðbrögð innlendra hagsmunasamtaka við niðurstöðum útboðsins hafa verið eins og við mátti búast. Þau telja að stjórnvöld eigi að láta vinna verkið hér á landi þrátt fyrir það að ríkið þyrfti þá að greiða rúmlega 40 milljónir kr. meira fyrir verkið ef það er gert.

Fyrir skömmu voru opnuð tilboð hjá Ríkiskaupum í viðamikil viðgerðarverkefni á varðskipunum Ægi og Tý. Í ljós kom að pólsk skipasmíðastöð bauð lægst í viðgerðir á báðum skipunum. Pólverjarnir buðu að gera við skipin fyrir 115 milljónir kr. á meðan lægsta tilboðið sem barst frá íslenskum aðila hljóðaði upp á 157 milljónir. Viðbrögð innlendra hagsmunasamtaka við niðurstöðum útboðsins hafa verið eins og við mátti búast. Þau telja að stjórnvöld eigi að láta vinna verkið hér á landi þrátt fyrir það að ríkið þyrfti þá að greiða rúmlega 40 milljónir kr. meira fyrir verkið ef það er gert.

Markmið hagsmunasamtaka er nú einu sinni að auka hag skjólstæðinga sinna. Og það er ekkert óeðlilegt við það. Það sem er hins vegar einna hvimleiðast við hagsmunasamtök er að þau svífast oft á tíðum einskis í því að ná markmiðum sínum. Ein vinsælasta aðferð þeirra við að auka hag skjólstæðinga sinna er að færa fyrir því rök að hagsmunir skjólstæðinganna og hagsmunir þjóðfélagsins í heild fari saman. Því miður er allur gangur á því hvort rökin standist.

Rök hagsmunasamtaka iðnaðarins fyrir því að gera eigi við varðskipin á Íslandi eru einmitt af þessum toga. Samtök atvinnulífsins og Félag járniðnaðarmanna segja að lægsta tilboðið í útboðinu kunni ekki endilega að vera það hagstæðasta því mikilvægt sé að reikna með allar tekjur ríkisins af því að vinna verkið hérlendis, t.d. skatttekjur. Ályktun Félags járniðnaðarmanna segir jafnframt „Ríki og sveitarfélög verða af skatttekjum frá fyrirtækjum og einstaklingum og atvinnuleysisbætur kosta sitt þótt lágar séu.” … Atvinnuleysisbætur?!? Er Félag járniðnaðarmanna að halda því fram að járniðnaðarmenn muni vera á atvinnuleysisbótum ef gert verður við Ægi og Tý í Póllandi? Er það ekki fráleitt? Ég veit ekki betur en það sé skortur á járniðnaðarmönnum á Íslandi í dag. Raunar svo mikill skortur að talsvert hefur verið flutt inn af járniðnaðarmönnum á síðustu árum.

En í þessu felst einmitt villan í röksemdafærslu Samtaka iðnaðarins og Félags járniðnaðarmanna. Skortur á verkefnum við skipasmíðar mun ekki leiða til þess að fólk og fjármagn sitji auðum höndum með tilheyrandi tekjutapi ríkissjóðs. Fólkið sem myndi vinna við viðgerðirnar fær auðveldlega vinnu annars staðar og þótt íslenskar skipasmíðastöðvar verði gjaldþrota mun það fjármagn sem í þeim er bundið verða keypt og nýtt á annan hátt. Og það sem meira er þá gefa há tilboð innlendu skipasmíðastöðvanna það einmitt til kynna að arðsemin af skipasmíðum sé lítil hér á landi. Þ.e. tilboðin gefa það til kynna að íslenskar skipasmíðastöðvar þurfi að nota meira fólk og fjármagn en góðu hófi gegnir til þess að byggja skip. Það er með öðrum orðum óhagkvæmt að byggja skip á Íslandi.

Raunar ætti það ekki að koma á óvart. Flest nágrannaríki okkar hafa hætt að byggja sín skip sjálf. Æ stærri hluti skipasmíða í heiminum fer fram á láglaunasvæðum eins og Austur-Evrópu, Suður Kóreu og Kína. Ríki á okkar þróunarstigi virðast einfaldlega ekki hafa hlutfallslega yfirburði í því að byggja skip. Þess vegna eigum við að gera sem minnst af því svo við getum nýtt íslenska járniðnaðarmenn til arðbærari verka.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.