Dubaya byrjar vel

George W. Bush hefur nú gegnt embætti Bandaríkjaforseta í tólf daga. Stjórnmálaskýrendur eru flestir á einu máli um að byrjunin lofi góðu fyrir Bush. Á þessum tólf dögum hefur hann sýnt hæfileika sem föður hans voru lítt gefnir, þ.e. að geta höfðað jafnt til íhaldssamra og frjálslyndra, í sínum eigin flokki og utan hans.

George W. Bush hefur nú gegnt embætti Bandaríkjaforseta í tólf daga. Stjórnmálaskýrendur eru flestir á einu máli um að byrjunin lofi góðu fyrir Bush. Á þessum tólf dögum hefur hann sýnt hæfileika sem föður hans voru lítt gefnir, þ.e. að geta höfðað jafnt til íhaldssamra og frjálslyndra, í sínum eigin flokki og utan hans. Í fyrradag kynnti Bush þær fyrirætlanir sínar að auka vægi frjálsra félagasamtaka á borð við trúfélög í samfélagsþjónustu. Þá fór hann að dæmi Ronalds Reagan og hætti stuðningi við alþjóðasamtök sem berjast fyrir rétti kvenna til fóstureyðinga. Þetta tvennt, ásamt öflugum stuðningi hans við John Ashcroft í embætti dómsmálaráðherra, hefur fallið vel í kramið hjá íhaldssamari armi flokkins.

Til að höfða til hinna ögn frjálslyndari tók Bush upp málstað Johns McCains varðandi endurbætur á löggjöf um framlög til stjórnmálaflokka og gengur nú ekki hnífurinn á milli þessara fyrrum keppninauta. Bush hratt af stað áætlun um miklar endurbætur á menntakerfinu og tók upp samstarf við Ted Kennedy, einn helsta framámann demókrata, um þau mál. Bush aðhyllist aðferð sem stundum er kennd við Corleone: Keep your friends close, but your enemies closer. Þrátt fyrir yfirlýstan samstarfsvilja og mörg teikn um að hann sé raunverulega til staðar, þarf engin að velkjast um að Bush er „hardc-core“ repúblikani. Til þess nægir að sjá hvaða samstarfsmenn hann hefur valið sér.

En þó að Bush virðist leggja mikið upp úr samstarfi við ólíkar fylkingar, þá hefur hann einnig sýnt að hann er óhræddur við að láta sverfa til stáls. Til marks um það eru fyrirhugaðar skattalækkanir sem hann boðaði af kappi í kosningabaráttunni. Margir töldu að hann myndi slá af fyrirætlunum sínum eftir að hann tók við embætti og niðurstaðan kynni að verða einhvers konar málamiðlun. Þetta sýndist enn líklegra þegar ljóst var að margir repúklikanar á þingi voru smeykir við að hrinda svo rótækri skattalækkun í framkvæmd. En í aðdraganda embættistökunnar lét Bush þingheim ekki velkjast í neinum vafa um að tillögunum yrði hrint í framkvæmd. Yfirlýsing Alans Greenspans í síðustu viku, um að umfangsmiklar skattalækkanir séu ekki aðeins ásættanlegar heldur beinlínis nauðsynlegar, er auðvitað stórsigur fyrir Bush.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.