Menn á Mars

Mars.jpgGeimáætlun Bush felur í sér endurkomu mannsins á tunglið og vonandi mannaðar ferðir til Mars. Flestir geta fundið eitthvað til að setja út á í áætluninni. Sárafáir virðast hins vegar fagna áætluninni sem skrefi í átt til búsetu á öðrum hnöttum.

Mars.jpgGeimáætlun Bush felur í sér endurkomu mannsins á tunglið og vonandi mannaðar ferðir til Mars. Flestir geta fundið eitthvað til að setja út á í áætluninni. Sárafáir virðast hins vegar fagna áætluninni sem skrefi í átt til búsetu á öðrum hnöttum.

Samkvæmt áætluninni munu menn standa aftur á tunglinu í fyrsta lagi árið 2015 og ekki seinna enn 2020. Ferðirnar til tunglsins verða síðan notaðar sem stökkpallur fyrir metnaðarfyllri ferðir lengra frá jörðinni. Markmið mannaðra ferða til tunglsins er að gera mönnum kleift að búa þar og vinna í langan tíma í hverri ferð.

Aukin viðvera mannsins á tunglinu er til þess fallin að hvetja til tækninýjunga og gera manninum kleift að nýta auðlindir á tunglinu svo sem hráefni til orkuframleiðslu á jörðinni. Viðveran á tunglinu mun einnig gera manninum kleift að undirbúa sig fyrir landnám í enn erfiðara umhverfi en á tunglinu og er skref í átt til búsetu á öðrum hnöttum.

Kostnaðurinn við geimáætlunina hefur verið mikið í fjölmiðlum hér á landi sem og erlendis. Geimáætlunin mun kosta sitt en samt sem áður mun NASA ekki eyða meiru en 1% af fjárlögum alríkisins. Aukakostnaður við áætlunina mun vera 12 milljarðar dollara á næstu fimm árum. Áætlunin mun í fyrstu vera fjármögnuð með því að endurráðstafa um 11 milljörðum dollara frá öðrum verkefnum NASA, aukafjárveiting vegna áætlunarinnar mun því vera 1 milljarður bandaríkjadala á fimm árum. Heildarfjárveiting til NASA á næstu fimm árum er 86 milljarðar dollara eða sem samsvarar um 6020 milljörðum íslenskra króna eða um 4 sinnum meiri en útgjöld íslenska ríkisins á sama tíma. Ef þessi upphæð er sett í samhengi við að Bandaríkjamenn eru þúsund sinnum fleiri en við Íslendingar þá munar þá ekki meira um geimáætlun en okkur um 6 milljarða króna jarðgöng.

Andstæðingar Bush á vinstri vængnum mótmæla áætluninni því þeir sjá enga ástæðu til að verja peningunum í geimáætlanir þegar hægt er að eyða þeim í félagsleg verkefni. Í sjálfu sér er það rétt að sama dollarnum verður ekki eytt á sama tíma til umbóta á félagslega kerfinu og til geimrannsókna. En því verður ekki neitað að ein megin forsenda félagslegs kerfis er öflugt atvinnulíf enda var velferðarkerfi óhugsandi fyrir iðnbyltinguna.

Hægri menn gagnrýna áætlunina vegna útgjaldaaukningarinnar og telja sumir að það sé í raun ekki hlutverk ríkisins að kanna geiminn. Flestir eru þó á þeirri skoðun að eitt helsta hlutverk ríkisins sé að tryggja öryggi. Könnun geimsins og búseta á öðrum hnöttum er vel til þess fallin að tryggja öryggi okkar. Nú þegar búum við yfir tækni til að eyða mannkyninu og í raun þarf ekki slys til að gera jörðina óbyggilega eða útrýma lífi.

Vísindamenn telja sumir hverjir að hægt sé að sé að rannsaka geiminn án þess að notast við mannaðar geimferjur. Auðvitað er hægt að kanna geiminn upp að ákveðnu marki með vélum einum saman enda er þeirri aðferð beitt í dag. Ef markmiðið er varanleg búseta á öðrum hnöttum þá eigum við hins vegar engra annarra kosta völ en að senda menn út í geim.

Aukin útgjöld ríkis eru sjaldan af hinu góða og þess vegna er æskilegt að skoða tillögur sem kalla á aukin útgjöld með gagnrýnum huga en hins vegar má ekki hafna þeim gagnrýnislaust vegna þess að manni mislíkar við þann sem kynnir þær.

Latest posts by Berglind Hallgrímsdóttir (see all)