Hvað er jákvætt við mismunun?

„Eins öfugsnúið og það hljómar þá einskorðast kvennabaráttan í dag ekki við að koma sem flestum konum í störf á vinnumarkaðnum heldur líka að banna þeim að vinna önnur,“ segir Eyrún Hanna Bernharðsdóttir í sérstökum gestapistli á Deiglunni í dag.

Á vinnumarkaðnum ríkir ekki jafnræði. Konur eru í minnihluta í flestum störfum, þó svo að hjúkrunafræði og umönnunarstörf skeri sig þar úr, og farið er mikinn til að reyna að sporna við þessu ástandi. En hvaða ástandi? Þarf eitthvað sérstaklega að hvetja konur til þess að sækja um störf? Er það hinum miðaldra, karlkyns vinnuveitanda að kenna að færri konur eru forstjórar en karlmenn? Ég mundi ekki vilja fá vinnu þar sem óskað hefði verið sérstaklega eftir kvenmanni í starfið, eða að fá starf vegna ”jákvæðrar” mismununar (hvernig getur mismunun verið jákvæð?).

Ég gæti ekki komið því úr huga mínum að kannski hefði ég ekkert verið sú besta í starfið. Að kannski hefði Jón Jónsson frekar átt starfið skilið, en verið refsað fyrir misrétti sem hann tók engan þátt í; að það hefði verið litið á mig og Jón Jónsson sem hluta af sitthvorum hópnum, mér gert hátt undir höfði fyrir að vera úr “réttum” hóp, en Jón verið sendur á atvinnuleysisbætur. Hvernig væri að líta á hvern og einn umsækjanda sem einstakling? Er nauðsynlegt að vita kynið á þeim sem sækir um starf?

Eins öfugsnúið og það hljómar þá einskorðast kvennabaráttan í dag ekki við að koma sem flestum konum í störf á vinnumarkaðnum heldur líka að banna þeim að vinna önnur. Margar kynsystur mínar fara oft hamförum í umræðunni um klámmyndir. Ég veit um þónokkrar sem vilja banna þessar myndir; þær séu svo niðurlægjandi og konur hafðar að svo miklum fíflum. Það sem gleymist hins vegar er að þetta er líf leikkonunnar, ekki líf allra kvenna.

Hver kona hefur, sem einstaklingur, rétt á að stunda þá atvinnu sem hún vill (svo lengi sem hún er lögleg), rétt eins og hver karlmaður. Ég klappa fyrir hverri þeirri konu sem þorir að starfa við það sem hana langar, þorir að líta út eins og hún vill og þorir að vera hún sjálf. Sé sú kona klámmyndaleikkona þá verður að hafa það. Hún gæti verið hjúkrunarfræðingur, húsmóðir, skipstýra, leikkona eða verkakona, heimavinnandi, einstæð móðir eða hamingjusamlega gift.

Hversu langt eigum við eiginlega að ganga í þessum málaflokki? Ég held að skref í rétta átt sé að auka virðingu fyrir einstaklingum, auka réttindi fólks til eigin lífs, að gera sér grein fyrir að ekki er hægt að skipta
öllum í hópa og alhæfa út frá því. Þá fyrst er jafnrétti kynjanna á leið í rétta átt.

Eyrún Hanna Bernharðsdóttir

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Gestapistill (see all)