Á sinni bylgjulengdinni hvor

Sjónarmið um afnám fíkniefnabannsins eru svo á skjön við þær hugmyndir, sem hingað til hafa þótt eðlilegar í þessum málum, að engin marktæk umræða verður um þessi mál, þ.e.a.s. stuðningsmenn algers fíkniefnabanns og hinir sem aflétta vilja banninu eiga sér engan sameiginlegan umræðugrundvöll

1-Fenyl-2-butylamine, 4-metyl aminorex, 4-MTA, A1-fenyl-1-piperidyl-(2)-metyl acetat, Acetorphine, Acetylmeskaline, Allobarbital, Brallobarbital, Brolamfetamine, Brotizolam, Brom-STP, Butobarbital, Cannabis (Kannabis, Marihuana, Hass), Cannabis harpix, Carfentanil, Cathinone, Chlorali hydras, Chloralodolum, Clomethiazolum, Cocainum, Desornorphinum, DET, Dexamfetamine, DMA, DMHP, DMT, DOET, Enhexymalum, Eticyclideine, Etilamfetamine, Etorphine, Fenetylline, GHB, Heptamalum, Heroin, Hexapropymatum, Hydroxyamfetamine, Hydroxytetrahydro kannabinolar, Ibogain, Kat, Levonantradol, Lysergide, MDA, MDE, MDMA, Mescaline, Methamfetamine, Methandriolum, Methaqualone, Methcathinone, Methylpentynolum, Meto hexital, Metylmeskaline, MMDA, Modafinil, Nabilon, N-ethyl MDA, N-hydroxyamfeta mine, Parahexyl, PHP, PCPY, PMA, Propylhexedrinum, Psilocybinum, Psilocine, Pyrityld ion, STP, DOM, TCP, TMA, Tybamatum, Vinylbital.

Varsla, meðferð, innflutningur, útflutningur, sala, kaup, skipti, afhending, móttaka, tilbúningur og framleiðsla þeirra efna- og efnasambanda, sem hér að ofan greinir, er óheimil á íslensku forráðasvæði samkvæmt íslenskum lögum. Sama gildir reyndar um hráefni, sem nota má til gerðar ofantalinna efna, og tækja, hluta eða efna til notkunar við ólöglega ræktun, framleiðslu eða tilbúning. Þær þjóðir sem við berum okkur helst saman við búa við mjög álíka réttarumhverfi í þessum efnum. Þrátt fyrir blátt bann er staðreyndin þó sú, að flest ofantalinna efna má nálgast án mikillar fyrirhafnar hér á landi (þótt ólíklegt megi teljast að þau gangi undir ofangreindum nöfnum í viðskiptum) og miklar líkur eru á, að þessa dagana sé víða um landið stunduð umfangsmikil sala og neysla þessara efna – án þess að lögreglulið landsins fái rönd við reist.

Hér í Deiglunni hefur verið fjallað talsvert um ókosti þess að fíkniefni séu bönnuð. Þau sjónarmið eru í flestum atriðum skynsamleg og umræðan bráðnauðsynleg. Sífellt fleiri hallast að því, að fíkniefnabannið sé ekki að virka og í raun sé bannið sjálft að valda meiri samfélagslegum skaða en neysla sú sem því er ætlað að hindra. Þessi sjónarmið eru svo á skjön við þær hugmyndir, sem hingað til hafa þótt eðlilegar í þessum málum, að engin marktæk umræða verður um þessi mál, þ.e.a.s. stuðningsmenn algers fíkniefnabanns og hinir sem aflétta vilja banninu eiga sér engan sameiginlegan umræðugrundvöll.

Þess vegna er hættan sú, að þrátt fyrir síaukna og opnari umræðu um þessi mál, er allsendis óvíst að sú umræða muni skila nokkru, nema hneykslun og fyrirlitningu beggja vegna borðsins. Undirritaður er í þeim fjölmenna hópi, sem hefur ekki að fullu mótað sér afstöðu í þessu máli, þ.e.a.s. hann treystir sér hvorki til að mæla með afnámi fíkniefnabannsins að fullu né óbreyttu fyrirkomulagi. Ef öll sjónarmið fá að heyrast og vitræn umræða fer fram um málið, er líklegra en ekki að skynsamleg niðurstaða fáist á endanum. Ekki dugir hins vegar að hlaupa til og taka afstöðu á grundvelli kennisetninga eða hugaræsings.

Þeir sem eru andvígir öllu frjálsræði í fíknefnamálum og vilja þyngja refsingar og auka löggæslu – þrátt fyrir að reynsla þjóða bendi eindregið til þess að bannið stemmi síður en svo stigu við vaxandi fíkniefnaneyslu og glæpum tengdum dreifingu efnanna og fjármögnum til kaupa á þeim – verða að líta málið raunsærri augum en hingað til. Eins verða hinir, sem frjálslyndastir eru í þessum málum, að viðurkenna að einhverju marki nauðsyn þess, að stemma stigu við fíkniefnaneyslu í samfélaginu.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.