Hundaskítur og bjór

Það er tvennt sem einkennir götulífið í Kaupmannahöfn. Í fyrsta lagi bjórdrykkja en þegar vorar fyllast allir garðar og kaffihús af bjórþyrstum Dönum. En það sem færri vita er það að hundaskítur er að verða eitt af einkennismerkjum Kaupmannahafnar og svo virðist sem öllum sé sama.

Þetta er ekkert sérstaklega huggulegur pistill. Það er nauðsynlegt að taka það fram því ákveðin tilhneyging er ríkjandi á Íslandi að lýsa Danmörku alltaf í einhverjum ljóma. Það má vissulega færa rök fyrir því að Danir séu afslappaðaðri en truntulegir Íslendingar, reyndar finnst mörgum nóg um eftir að hafa búið og unnið í landinu. Hún er fræg sagan af íslensku stúlkunni sem varð að flýja endalausa frokosta og hygge-stundir heim til íslenska karlmannsins sem sagði helst ekkert vikum saman áður en hann kvartaði yfir málæði kellingarinnar.

En aftur að Danmörku, þessu unaðslandi. Bjórmenningin er vissulega til fyrirmyndar enda líður vart sá dagur að félagarnir þeir Tuborg og Carlsberg kíki ekki í heimsókn. Á sólardögum fyllist Nýhöfn af glaðbeittu fólki, sumir sitja á kaffihúsum með öl á borði en aðrir láta sér nægja bryggjukantinn. Kaupmaðurinn á horninu nýtur góðs af þessu enda selur hann líklega meiri bjór á einum degi en Áfengis og Tóbaksverslun ríkisins gerir á heilli helgi.

Hér lítur enginn tvisvar á þann sem gengur um með bjór á virkum degi og ölvun sést aðeins á Bryggjurónunum. Þeir eru þjóðfélagshópur sem ástæða er til að fjalla betur um seinna. Venjulegur Íslendingur lætur ekki segja sér það tvisvar, þetta er yndislegt land hugsar hann og veltir fyrir sér um leið hvort hann eigi að kaupa kippu af Tuborg á 400 eða kassa af Harboe á 750.

Í svo djúpum hugleiðingum er venjulega horft til himins mót sól og því algengt að stigið sé í hundaskít í öðru hverju skrefi. Danir eru nefnilega með þá stefnu, virðist vera, að í frjálsu samfélagi hafi hundaeigendur rétt á því að skilja stykkin eftir út um allt. Hundarnir eru alls staðar, litlir og stórir, hárugir og horaðir, sumir með langan búk og stuttar lappir, aðrir með lítinn búk en stóran haus. Greyin geta lítið að því gert þótt náttúrulegar þarfir þeirra kalli en eigendurnir ættu að sjá sóma sinn í því að þrífa upp eftir þá. Það gera þeir þó ekki og því má líta heilu hrúgurnar í annars ágætum íbúðarhverfum, sumar reyndar það stórar að ætla má að eigendurnir sjálfir hafi sest á hækjur sér við hlið rakkans.

Það undarlega í þessu öllu saman er þó líklega sú staðreynd að einu sinni á dag hverfur allur hundaskítur af götum kaupmannahafnar. Enginn veit nákvæmlega hvernig það gerist þrátt fyrir margar ágiskanir. Enn hefur enginn séð þessa dularfullu sópara sem virðast fara með ofurhraða um gangstéttir og götur, sópandi upp öllu sem ekki telst mönnum bjóðandi. Hvort þetta starf er vel borgað veit enginn en þó er ástæða til að benda öllum vel hugsandi Íslendingum á möguleikana sem felast á slíkum vettvangi.

Það er gaman að búa í Kaupmannahöfn þrátt fyrir ýmsa galla. Gúmmístígvél og örlítil þolinmæði gagnvart öllum rólegheitunum er allt sem þarf.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)