Deiglan á páskum 2012

Boðskapur páskanna og kristinnar trúar þarf ekki að glatast þótt menn hafi efasemdir um að frásögnin af atburðum páskanna sé nákvæmlega rétt. Í páskahugvekju fjallar Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson um sagnfræði guðfræðingsins Dr. Barts Ehrman.

Bart Ehrman er virtur háskólakennari vestan hafs. Hann er þekktur fræðimaður og vinsæll fyrirlesari um guðfræðileg efni og hefur gefið út margar bækur. Hann er efasemdarmaður í trúmálum og er ekki tilbúinn til að trúa hverju sem er. Hann hefur sérstaklega lagt sig eftir því að útskýra tilurð guðspjallanna og fengist við álitaefni varðandi aldur rita nýja testamentisins og sögu þeirra.

Ehrman er ákaflega vinsæll og fyrirlestrar hans ná eyrum margra. Nýlega var hann í viðtali á NPR útvarpsstöðinni í bandaríkjunum vegna útgáfu bókarinnar “Did Jesus Exist?” sem fjallar um spurninguna hvort Jesús hafi raunverulega verið til ?

Hann tók sig til og skrifaði þessa bók vegna þess að á fyrirlestrum sínum fékk hann ítekað spurningar varðandi það hvort Jesús hafi verið raunveruleg persóna. Var Jesús ekki tilbúningur manna? Ehrman nálgast spurninguna sem sagnfræðingur og svarið er afdráttarlaust. Hann kemst að sömu niðurstöðu og flestir sagnfræðingar að Jesús hafi vissulega verið raunverulegur. Öll rök hníga að því.

Samt eru raddir þeirra sem halda hinu gangstæða fram háværar. Þá er vísað til launhelga og helgisagna og voru þær skoðanir ríkisreknar austur í Sovét áður fyrr á árum og enn í dag eru þessar hugmyndir uppi hjá dulspekingum víða um heim.

Ehrman telur það ómaksins vert að hrekja þessar kenningar dulhyggjumanna og annarra sem neita því að Jesús hafi verið mannsins barn.

Hann tekur til helstu röksemdir þeirra sem efast um tilvist Jesú. Það er t.d. bent á þá staðreynd að hvergi er minnst á Jesú í rómverskum heimildum frá þessum tíma þegar Jesús átti að vera á dögum. Flestar heimildir kristinna manna um Jesú frá Nazaret koma ekki til fyrr en löngu eftir dauða Jesú og þá skrifaðar af fólki sem hafði hvorki heyrt hann né séð.

Dulhyggjufólk bendir á að á þessum tíma hafi verið til sögur um yfirnáttúrulegar verur sem spáðu og læknuðu og sem dóu og risu upp. Sagan af Jesú sé ekkert öðruvísi eða merkilegri en þessar gömlu helgisagnir.

II
Í löngu og ítarlegu máli svarar Ehrman efasemdarfólki með rökum. Hann bendir á að Páll postuli hafi þekkt Jakob sem var bróðir Jesú samkvæmt nýja testamentinu. Fleira tínir hann til m.a. að Jesús er ólíkur uppdiktuðum helgum mönnum að öllu leyti þegar hann var niðurlægður og svikinn og festur upp á kross.

Bart Ehrman hefur fyrst og síðast sagnfræðilegan áhuga á Jesú. Hann hafnar kenningarvaldi kirkjunnar.

En nú skulum við taka eftir því sem hann segir um innhald orða Jesú og kenninga hans um lífið og samskipti okkar hvert við annað.

Ehrman segir að kenningar Jesú séu mikilvægar og okkur sé holt að íhuga þær og lifa eftir þeim. Orð Jesú um kærleika, miskunnsemi og fyrirgefningu eiga að móta líf okkar. Bart Ehrman segist vera samþykkur siðaboðskap Jesú og reyni að láta það sjást í lífi sínu.

III
Á páskum minnist kirkjan upprisu Jesú frá Nazaret. Á páskum er gott að líta í eigin barm og vökva trúarblómið í hjartanu og styrkja okkur í því að gera orð Jesú máttug í lífi okkar.

Hvað sem okkur kann að virðast um sagnfræði atburða páskanna þá er það alveg ljóst að eitthvað það undur gerðist sem gaf fólki djörfung og dug til að halda á lofti orðum og lífi Jesú frá Nazaret.

Hvað sagði hann? Meðal annars eftirfarandi: Elskið Guð með því að elska náungann. Komið fram við aðra eins og þið viljið að aðrir komi fram við ykkur. Takið ábyrgð á lífi ykkar en ekki bara það heldur eigið þið að taka ábyrgð á þeim sem eru með ykkur á veginum.

Jesús lét sér annt um það fólk sem var á jaðri mannlífsins. Hann talaði við konur og umfaðmaði börnin og hann gaf samferðafólkinu von um Guð sem gefur okkur fyrirheit um að öll eigum við samastað í hjarta hans.

Leitum hans og reynum að lifa samkvæmt orðum Jesú frá Nazaret. Gleðilega páska.

Latest posts by Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson (see all)