Byggðakvóti, vörubretti og hrefnusteik

Hvað eiga lungnamjúk hrefnusteik, hægeldaðir lambaskankar, pönnusteikt Rauðspretta og nýveiddur silungur sameiginlegt? Þau voru öll á matseðlinum í Vagninum á Flateyri í síðustu viku þegar greinahöfundur leit þar við í mat. Það er skemmst frá því að segja að maturinn var hreint afbragð og Tjöruhúsið á Ísafirði búið að eignast félaga í klúbbi sælkeraveitingastaða á Vestfjörðum.

Hvað eiga lungnamjúk hrefnusteik, hægeldaðir lambaskankar, pönnusteikt Rauðspretta og nýveiddur silungur sameiginlegt? Þau voru öll á matseðlinum í Vagninum á Flateyri í síðustu viku þegar greinahöfundur leit þar við í mat. Það er skemmst frá því að segja að maturinn var hreint afbragð og Tjöruhúsið á Ísafirði búið að eignast félaga í klúbbi sælkeraveitingastaða á Vestfjörðum.

Vagninn á Flateyri er sögufrægt öldurhús á Flateyri við Önundarfjörð. Staðurinn var upphaflega sjoppa en árið 1991 tók eigandi staðarins, Guðbjartur Jónsson, sig til og opnaði bar sem varð landsfrægur í nóvember ári seinna þegar tónlistamaðurinn KK hélt útgáfutónleika á plötunni Bein Leið í Vagninum. Nokkrum sérvöldum tónlistaskríbentum var þá boðið að skella sér í flugvél til Önundarfjarðar (sem var þá lokaður landleiðina á veturna) og kynna sér nýju plötuna.

Eftir að Guðbjartur (betur þekktur sem Búbbólína) hætti rekstri hafa margir reynt sig við rekstur Vagnsins en á síðasta ári var röðin komin að ungum manni að nafni Atli Ottesen sem hafði í gegnum tíðina unnið á mörgum úrvals veitingastöðum víða um heim. Með honum átti sú stefnubreyting sér stað sem fólst í að elda úrvalsmat úr héraði á þessum sögufræga bar sem hingað til hafði verið betur þekktur fyrir gríðargóða stemningu á tónleikum.

Upprisa Vagnsins er ein af góðu fréttunum að vestan sem gaman er að segja frá. Önnur skemmtileg saga að vestan er að skástrikið BÍ/Bolungarvík heldur áfram að koma á óvart og sigruðu hina geipisterku Skagamenn í vikunni 2-1 með tveimur mörkum frá markahrellinum ógurlega Tomi Ameobi sem ku víst vera ættaður úr Skötufirði í Ísafjarðardjúpi.

Vestfirðir hafa gott af nokkrum góðum sögum því firðirnir hafa undanfarin ár verið skýrustu ummerki um það sem kalla mætti stórborgarvæðingu hins íslenska samfélags. Fólk flytur frá litlum þorpum og bæjum og sest að á stór-höfuðborgarsvæði Íslands sem nær yfir svæði þar sem aksturstími til miðborgar Reykjavíkur er innan við klukkutími. Stórborgarvæðing er ekki séríslenskt fyrirbæri heldur alþjóðlegt og vandfundinn sá staður þar sem hennar má ekki finna merki. Út um allan heim flýr fólk af landsbyggð og til stórborga.

Stærsta ástæðan fyrir flutningnum er fjöldi tækifæra sem stærri staður býður upp á. Þegar íbúafjöldi á stað verður nægilega stór þá skapast tækifæri til sérhæfingar sem skapar fjölbreyttari störf og margvíslegri tækifæri. Eftir því sem staðurinn er stærri, þeim mun fjölbreyttari verða möguleikarnir.

Í dag er einungis einn þéttbýlisstaður utan höfuðborgarsvæðisins, Akureyri, sem hefur nægilega mikla vigt til þess að skapa eitthvað mótvægi. Þar fyrir utan skortir flesta staði þá breidd sem þarf til þess að laða fólk að. Það er stór hindrun á vali á stað til búsetu ef það er einungis einn vænlegur vinnustaður. Ef hinsvegar það eru komnir nokkrir vinnustaðir sem hægt er að velja um þá verður staðurinn til muna álitlegri.

Hagfræðistofnun HÍ gerði skýrslu um byggðarþróun á Íslandi fyrir tæplega 10 árum síðan undir nafninu „Fólk og fyrirtæki“. Þar var stungið upp á því að sett væri fram stefna um uppbyggingu á þremur sterkum þéttbýliskjörnum sem yrðu raunhæfir valkostir við Reykjavík: Ísafjörður, Akureyri og Egilsstaðir. Með því að setja mikla vigt í þá skapaðist möguleiki á því að skapa ákveðið aðdráttarafl sem myndi styrkja aðra starfsemi á staðnum. Aukin fjöldi háskólamenntaðra íbúa skapar ákveðna eftirspurn eftir fjölbreyttari þjónustu. Fjölbreyttari þjónusta skapar meira aðlaðandi umhverfi sem verður þá aftur til þess að laða fleira fólk að.

Tillaga Hagfræðistofnunnar greindi sig mjög afgerandi frá öðrum sem gerð hafa verið um sama málefni vegna þess hversu skýr og auðskiljanleg hún var. Saga pólitískrar byggðastefnu á Íslandi hefur löngum einkennst af óskýrri stefnu annars vegar og handhófskenndum viðbrögðum við áföllum hinsvegar. Gott dæmi um þetta er þegar fiskvinnslufyrirtæki á landsbyggðinni verða gjaldþrota þá mætir oft ráðherra með byggðarkvóta til þess að bjarga byggðinni. Mývatn er ekki við sjó þannig að þegar stóra fyrirtækið á svæðinu hætti rekstri þá mætti ráðherra með vörubrettaverksmiðju.

Hvort sem mönnum líkar betur eða ver þá er stórum fjárhæðum eytt í byggðastefnu og ætti því að eiga sér stað opin og upplýst umræða um það hvernig þeim fjármunum er best varið. Núverandi stefna er í raun sú að gera lítið en koma með smá reykbombur þegar stór áföll bresta á í smáum byggðarlögum á landsbyggðinni. Á sama tíma flytur þjóðin hægt og rólega til Stór-höfuðborgarsvæðisins. Einn valkostur væri að byggja upp þessa þrjá sterku kjarna sem gætu skapað raunhæft mótvægi.

Það er þó ólíklegt að sú leið yrði valin því það er ekki Íslendinga siður að berjast fyrir velgengni nágranna sinna. Mun líklegra er að við höldum áfram með byggðakvóta og vörubrettaleiðina. Vestfirðir fara þó ekkert og við getum vonandi áfram skellt okkur til Vestfjarða á sumrin og fengið Hrefnusteik og Lambaskanka hjá honum Atla Vagnstjóra.

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.