Er þá nokkur þörf fyrir ríkið?

Frumskylda ríkisvaldsins og réttlætingin fyrir tilvist þess er að verja fólkið, bæði gegn utanaðkomandi hættu og gegn þeim í samfélaginu sem ekki halda friðinn.

Frumskylda ríkisvaldsins og réttlætingin fyrir tilvist þess er að verja fólkið, bæði gegn utanaðkomandi hættu og gegn þeim í samfélaginu sem ekki halda friðinn.

Ríkisvaldið er auðvitað bara tæki í höndum þeirra sem með það fara og því er nokkuð síðan hvítum, miðaldra mönnum í íhaldssömum klæðnaði hugkvæmdist að binda réttindi fólksins gagnvart ríkinu í grundvallarlög í þeim tilgangi að verjast ágangi ríkisvaldsins. Miklu síðar varð til sú ranghugmynd að ríkið bæri fleiri skyldur en þá annars vegar að verja borgaranna fyrir innri og ytri hættu og hins vegar þá að sjá þá í friði sem virtu reglurnar. En látum það vera hér.

Óeirðirnar í Lundúnum síðustu daga leiða hugann að frumskyldu ríkisvaldsins. Málsmetandi mönnum verður oft tíðrætt um nauðsyn þess að takmarka valdheimildir ríkisvaldsins. Þegar óöld ríkir og glæpahyski og misyndismenn vaða uppi, þá verða borgararnir að geta treyst því að ríkisvaldið sinni frumskyldu sinni.

Þótt bresk stjórnvöld hafi verið alltof sein og veikburða í aðgerðum sínum gagnvart glæpahyskinu sem nú fer sínu fram í Lundúnum, þá vekja orð borgarstjórans og forsætisráðherrans þá von að þessir aðilar skilji hver frumskylda ríkisins er. Ætlast verður til þess að breska ríkið beiti fullum mætti sínum til kveða niður þá óöld sem nú ríkir og tryggja öryggi friðelskandi og löghlýðinna borgara.

Bregðist ríkisvaldið þessari frumskyldu sinni þá bíður samfélagið tvöfaldan ósigur. Annars vegar þá sigrar ofbeldið og yfirgangurinn og hins vegar þá hætta borgararnir að trúa því að ríkisvaldið geti varið þá og grípa sjálfir til varna. Þar með er hlutverki ríkisins lokið og óhætt að leggja það niður sem slíkt.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.