Hvar á unga fólkið að eiga heima?

Í íslensku samfélagi eru fjölmörg vandamál. Eitt þessara vandamála eru húsnæðismál, þá sérstaklega hjá ungu fólki. Í kjölfar bankahrunsins gerði mikinn frostavetur á fasteignarmarkaðinum, kaupsamningum fækkaði gríðarlega, sem kom ekkert á óvart þar sem markaðurinn var útþaninn síðustu misserin fyrir bankahrun.

Í íslensku samfélagi eru fjölmörg vandamál. Eitt þessara vandamála eru húsnæðismál, þá sérstaklega hjá ungu fólki. Í kjölfar bankahrunsins gerði mikinn frostavetur á fasteignarmarkaðinum, kaupsamningum fækkaði gríðarlega, sem kom ekkert á óvart þar sem markaðurinn var útþaninn síðustu misserin fyrir bankahrun.

Kalinn á fasteignamarkaðinum gerði það að verkum að húsnæðisverð lækkaði (þó ekki eins mikið og flestir áttu von á). Fólk leitaði einnig annara leiða til að finna sér húsnæði – á leigumarkaðinum. Þar sem eftirspurn eftir leiguíbúðum hefur aukist, hefur leiguverð hækkað jafnt og þétt. Eins og áður segir er þetta vaxandi vandamál fyrir ungt fólk sem flest er í námi og með litlar tekjur en dæmi eru um að 80 fm2 íbúðir leigist núna á 150 þús kr. á mánuði.

Hinn kosturinn fyrir ungt fólk er að reyna kaupa sér íbúð. En í mörgum tilfellum geta afborganir af lágum lánum verið mun hagstæðari heldur en afborganir af leiguhúsnæði. Fasteignaverðið hefur lækkað og miðað þann skort á fjárfestingamöguleikum sem núna eru á Íslandi horfa margir til þess að kaupa sér íbúð sem mögulega á eftir að hækka í verði. En því miður er það þrautin þyngri fyrir ungt fólk að kaupa fasteign. Ef við tökum Íbúðalánasjóð sem dæmi að þá lánar hann að hámarki 20 milljónir en þó aldrei meira en 80% af markaðsverði eignarinnar, s.s. til að kaupa litla 20 milljón króna íbúð, þarftu að eiga 4 milljónir til útborgunar – eitthvað sem tínist ekki beint upp úr götunni.

Reyndar er svo önnur leið til sem margir hafa nýtt sér til fasteignakaupa, hún felur í sér yfirtöku á gildandi fasteignaláni plús einhver X upphæð og sölulaun. Þessi leið hefur verið mikið notuð upp á síðkastið en gallinn við hana er að lánin sem um ræðir eru oft með nokkuð háar afborganir þar sem þau hafa hækkað mikið í verðbólgunni frá bankahruni.

Hvað er til ráða?

Ljóst má vera að leigumarkaðurinn er ekkert að fara lækka fyrr en fastiegnamarkaðurinn fer á flug aftur. Vonandi fer þó fasteignamarkaðurinn aldrei í þá vitleysu sem hann var í árið 2007. Núverandi kerfi er í sjálfheldu þar sem bæði er orðið rándýrt að leigja og kaupa, gallinn er í raun bara kerfið sem við búum við, það þarf að laga og hugsa út fyrir kassann í leit að nýjum hugmyndum. Mögulega væri hægt að veita fólki sem er að kaupa sína fyrstu eign aukna afslætti fyrst um sinn, eins og er t.d. gert með stimpilgjöldunum, því mikilvægast er að koma nýju fólki inn á fasteignamarkaðinn því um leið og fyrsta eignin er keypt er viðkomandi einstaklingur kominn inn á markaðinn og þá er margfalt einfaldara að stækka eða minnka við sig seinna meir.

Lykilatriðið er sem fyrr segir að einfalda inngönguna, þar með eykst veltan og mögulega minnkar þrýstingur á leiguhúsnæði sem myndi skila sér í skaplegra leiguverði.

Hvað sem því líður, boaðar þetta ástand aðeins umfangsmeiri fólksflutninga ungs fólks frá Íslandi. Hér eru fá spennandi atvinnutækifæri fyrir fólk sem er að koma úr námi, rándýrt matarverð, háir skattar og vonlaust að byggja sér heimili nema eiga hátt í fimm milljónir liggjandi á bankabók.